21.08.1919
Neðri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í C-deild Alþingistíðinda. (3755)

131. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Pjetur Jónsson:

Það er víst ekki ofsögum sagt, að mjög liggi á að koma betra skipulagi á skattamál Reykjavíkur en nú er. En hið sama má segja um skattamál alls landsins. Það er brýn þörf á nýju og betra fyrirkomulagi í landinu. Það er bráðnauðsynlegt að finna nýtt skattakerfi, er gjöld til ríkissjóðs, sýslufjelaga, bæjar- og sveitarfjelaga byggist á. En þetta er mikið verk og vandasamt, enda liggur það svo ríkt í loftinu, að jeg ætla, að engin stjórn muni geta til lengdar komist hjá því að byrja á því, og jeg vænti þess, að þetta þing muni áður en því lýkur gera ráðstafanir til þess, að byrjað verði þegar á einhverjum framkvæmdum í því. Ef samin eru lög um bæjargjöld í Reykjavík, þá er um leið búið að binda hendur löggjafarvaldsins um ýmislegt í samskonar lagaskipun fyrir aðra bæi í landinu; ástæður eru svo svipaðar, og á sama grundvelli er sjálfsagt að byggja niðurjöfnun bæjargjalda sem í Reykjavík, og nauðsynlegt, að sem best samræmi komist á með gjöld þessi. Hjer ríður því fyrst og fremst á að finna heppilegar frumreglur fyrir gjaldaálagningunni og slá þeim föstum með allsherjarlögum um bæjar- og sveitargjöld. Á þeim allsherjarlögum byggi svo einstakir bæir sínar skattaálögur.

Af því, að mál þetta er svo yfirgripsmikið, geri, jeg eigi ráð fyrir, að því verði ráðið til viðunanlegra lykta á þessu þingi.

Hefir mjer því dottið í hug að skjóta því til allsherjarnefndar, hvort hún vildi ekki taka einn þáttinn úr þessu frv. til meðferðar nú; það er um lóðargjöldin. Þar stendur sjerstaklega á fyrir Reykjavík, og hefir áður verið flutt á þingi sjerstakt frv. um þau. Það er mikils um vert fyrir Reykjavík að fá lög um þau. Það mál er hægara viðfangs nú en áður, því að nú hefir farið fram nýtt mat á lóðum í bænum. Þetta er að eins bending frá mjer til allsherjarnefndar, gerð í þeirri von, að þessi þáttur frv. geti orðið að lögum þegar á þessu þingi. Og það er vafalaust, að Reykjavíkurbæ er hin mesta nauðsyn á að fá aðra skipun um lóðargjöldin, miklu fremur en um tekjuskattinn, nú þegar í stað.