21.08.1919
Neðri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í C-deild Alþingistíðinda. (3756)

131. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg stóð ekki upp til að mótmæla orðum hv. þm. S.-Þ. (P. J.), heldur til að svara nokkru hv. þm. Dala. (B. J.). Jeg hefi ekkert sagt um það, að jeg vildi, að frv. þetta væri samþ. óbreytt að öllu, og hefi ekkert talað um, hvernig jeg liti á einstök atriði þess. Um skoðun mína á málinu get jeg annars vísað til þess, sem jeg sagði um það, þegar það var áður fyrir þinginu. Að öðru leyti taldi jeg mjer skylt að flytja frv. nú, fyrst bæjarstjórn Reykjavíkur óskaði þess.

Viðvíkjandi mistökum á niðurjöfnun aukaútsvara hjer í bæ síðasta ár, þá veit jeg ekki, hvaða mælikvarða niðurjöfnunarnefndin hefir þar fylgt, er hún jafnaði niður aukaútsvörum. En jeg gæti þó bent á dæmi, þar sem hún hefir ekki fylgt þeim mælikvarða, sem frv. þetta gerir ráð fyrir.