21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

32. mál, sala á hrossum til útlanda

Frsm. (Jón Jónsson):

Það má víst þrátta lengi um þetta mál. Mjer kemur það þannig fyrir sjónir, að menn verði að dæma eftir líkum, því það er svo fátt ábyggilega upplýst í því. Og aðalatriðið verður óneitanlega það, hvort með þessu móti, að landið taki að sjer einkasölu hrossa, fáist hærra verð fyrir þau eða ekki. Það varðar vitanlega mestu.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) var eitthvað að hnjóða í landbúnaðarnefnd fyrir það, að hún hefði ekki starfað sjálfstætt að athugun málsins. Þetta er alls ekki rjett. Nefndin hefir starfað eins sjálfstætt og hún og aðrar nefndir eru vanar, en hefir vitanlega orðið að leita sjer upplýsinga í málinu. Jeg get sagt fyrir mig, að jeg hefi gengið alveg hlutdrægnislaust að starfi. Jeg hefi reynt að afla mjer upplýsinga, bæði hjá útflutningsnefnd og öðrum, sem jeg vissi til að höfðu skilyrði til að geta gefið upplýsingar. Sjerstaka áherslu hefi jeg lagt á það, hvort með einkasölunni fengist hærra verð en ef salan væri frjáls. Í mínum augum veltur alt á þessu atriði. En jeg hefi ekkert svar fengið. Jeg hefi þess vegna neyðst til að dæma eftir þeim gögnum og líkum, sem fyrir lágu, og byggja niðurstöðuna á því. Þetta hefi jeg gert, og sama er að segja um hina nefndarmennina. Nefndin hefir því starfað fullkomlega sjálfstætt.

Þá vildi hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) halda því fram, að lítið væri að byggja á dönsku stjórninni í þessu efni. Hún hugsi vitanlega mest um að fá sem ódýrasta hesta handa Dönum. En afskifti dönsku stjórnarinnar þurfa ekki að vera sprottin af þessari ástæðu. Hitt er miklu líklegra, að hún hafi óttast, að ekki fengjust nógir hestar, borið kvíðboga fyrir, að nóga hesta vantaði, og óttast, að sú yrði reyndin á, ef sala yrði frjáls og verð því lægra. Nauðsyn á hestunum gekk fyrir verðinu. Hins vegar er ómögulegt að sanna, að hærra hefði mátt fá með frjálsri verslun. Það getur ekki hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), og aðrir hafa ekki getað það. Það er aftur á móti bersýnilegt, að stjórnin hefir verið hjer í vanda stödd. Hún gat ekkert vitað með vissu. Reynsla fyrri ára sannaði ekkert í þessu efni. Alt er óvíst, og ógerningur að vita, hvað uppi hefði orðið. Hitt vissu menn, að hestar voru að falla í verði.

Annars held jeg, að lítið græðist á því, að ræða þetta mál mikið meira, þar sem engar sannanir koma fram um tap á einkasölunni. Þingmenn geta að eins sagt álit sitt, án þess að geta lagt sannanir á borðið. Verður því að sitja við það, sem komið er, og engan áfellisdóm hægt að kveða upp.