27.08.1919
Neðri deild: 47. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í C-deild Alþingistíðinda. (3776)

88. mál, sala á prestsmötu

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Jeg get að mestu vísað til greinargerðarinnar fyrir frv. Þar er allrækilega tekið fram það, sem máli skiftir. Enn fremur vil jeg vísa mönnum á nefndarálitið á þgskj. 467. Eins og það ber með sjer, gat nefndin ekki orðið alveg sammála. Við tveir flm. frv., jeg og hv. 2. þm. Rang. (E. J.), sem sæti eigum í nefndinni, beygðum okkur þó nauðugir, til þess að fá samkomulag um málið og til þess að fyrirbyggja glundroða, er málinu hefði getað stafað hætta af.

Það er vitanlegt, að með breytingunum, sem orðið hafa á frv., hefir gildi þess verið mikið rýrt frá því, sem var, með því að felt hefir verið úr frv. það ákvæðið, að eigi skuli við aflausn prestsmötu tekið tillit til smjörverðsins á stríðsárum, en þó er frv., eins og það er nú, samt nokkur bót frá því, sem nú er. Fyrst og fremst er trygging í frv. fyrir því, að mönnum verði eigi synjað um kaup á prestsmötu, og nokkuð eru skilinálarnir aðgengilegri en nú á sjer stað.

Eins og menn kannast við, er prestsmötukvöðin mjög þung byrði og hvumleið, og kemur oft og iðuglega mjög ranglátlega niður. Hefir þetta sjerstaklega komið berlega í ljós nú á stríðsárunum; veldur því aðflutningsteppa á feitmeti og óáran í landbúnaði í sumum hlutum landsins, grasbrestur og ill nýting á töðum. Smjör hefir því stigið mest af öllum framleiðsluvörum. Það er því ekki að undra, þótt þessi kvöð verði þungbær undir þessum og líkum kringumstæðum, enda má það hart teljast, að þegar sá höfuðstóll, sem prestsmatan er greidd af, gefur minstan, eða jafnvel engan, arð af sjer, þá skuli prestsmötugjaldið stiga hæst. — Þetta er afar ósanngjarnt og öfugt í hlutfalli við alt annað, og er því það í fylsta máta rjettlætisverk að gera mönnum hægra fyrir með að ljetta af sjer þessari kvöð. Það hefir verið gengið inn á þessa braut hjer á þingi, er fóðrun á Maríu- og Pjeturslömbum var ljett af 1911, og það alveg endurgjaldslaust.

Sömuleiðis ber þess að geta, að hinn upphaflegi grundvöllur undir prestsmötukvöðinni hefir mjög breyst við rás viðburðanna. Hún er þannig til komin, að upphaflega hjeldu einstakir bændur presta á búum sínum. En til þess að ljetta af sjer prestahaldinu unnu þeir til að láta af mörkum hálfar kúgildaleigur af jörð sinni til framfæris prestinum. Svo festist þessi kvöð við jörðina og hefir haldist til þessa dags. Sumir bændur hafa keypt af sjer prestsmötuna með afarkostum, en það er ekki fært nema þeim einum, sem efnaðir eru og geta snarað út andvirði hennar í einu lagi. Það eru því þeir efnaminni, sem enn þann dag í dag hafa orðið að búa undir kvöðinni. Það er nú reyndar dálítið undarlegt, hversu þessi kvöð hefir verið lífseig, þrátt fyrir þær breytingar, sem orðið hafa á þjóðfjelagsskipuninni í þessu efni. Nú heldur alþýða manna uppi prestsþjónustu í landinu, og það eina, sem eimir eftir af gamla fyrirkomulaginu, er prestsmatan. Auk þess hafa afskifti hins opinbera rýrt það mjög, sem koma átti á móti prestsmötukvöðinni, og má í því sambandi nefna brauðasamsteypuna. Það hefði því óefað verið fylsta ástæða til að vilna mönnum svo í við aflausn prestsmötunnar, eins og gert var ráð fyrir í frv. En nú er frv. eiginlega ekki orðið nema skuggi af því, sem það upphaflega var. Þó er heldur betra, að farið er, en heima setið. Þær breytingar, sem orðið hafa á frv. nú, eru þær fyrst og fremst, að 5% eru lagðar til grundvallar, í stað 11/4% eins og nú er, og það er sanngjarnt, þar sem rentufóturinn hefir mjög stigið.

Þá hefir nefndin komið með brtt. um að færa tímabilið, sem jafna á verðinu niður á, úr 10 árum upp í 12 ár. Þessi breyting dregur ofurlítið úr þeirri geisilegu verðhækkun, sem orðið hefir á smjöri stríðsárin, fyrir þá, sem mundu kaupa á næstu árum. Enn fremur er gert ráð fyrir dálitlum greiðslufresti, og er það í samræmi við greiðslufrest við sölu á kirkjujörðum.

Þá hefir nefndin komið fram með brtt. við 4. gr. frv., sem er ætlast til að verði 5. gr. Hún fer í þá átt, að ráðherra sje heimilt að veita eiganda prestsmötujarðar ívilnun á prestsmötugjaldi, ef hann sanni, að jörðin hafi spilst verulega og til langframa af náttúrunnar völdum Nefndinni þykir sanngjarnt, að tekið sje tillit til þessa, og einn nefndarmanna hefir skýrt frá því, að svo sje ástatt um þrjár jarðir í sínu bygðarlagi, að þær hafi skemst af náttúruvöldum, en prestsmötugjaldið verið heimtað eigi að síður.

Þá er brtt. frá hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) við 4. gr. Hún fer í sömu átt og brtt. nefndarinnar, að því frá skildu, að bætt er inn í „eða kúgildi, sem prestsmata er goldin af“. Nefndin tók ekki ákveðna afstöðu til þessarar breytingar og hefir því óbundnar hendur. Enn fremur felst sú breyting í þessari till., að ráðherra sje heimilt að bæta presti upp þann tekjumissi, sem af rýrnuninni leiði.

Jeg hefi þá gert grein fyrir brtt. nefndarinnar, og vænti jeg, að hv. deild taki málinu vel og greiði frv. götu, því að það er sanngjarnt, og þó að kröfunum sje ekki að öllu leyti fullnægt, þá er þó betur farið en heima setið.