27.08.1919
Neðri deild: 47. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í C-deild Alþingistíðinda. (3778)

88. mál, sala á prestsmötu

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er rjett hjá háttv frsm. (P. O.), að líkt stendur á um þetta og var um Maríu- og Pjeturslömbin. Þau voru orðin kvöð á einstökum jörðum, eins og prestsmatan er nú. Samanburður hans er rjettur. En þá ætti að gefa prestsmötuna alveg upp Það er ekki annað en gefa það eftir, sem landið á í einstökum jörðum.

Hv. frsm. (P. O.) talaði rjettilega um mismuninn á 41/2% og 5%. Hann veldur því, að prestlaunasjóðurinn verður að borga þennan 1/2%.

Jeg get ekki sjeð, að kjörin, sem stjórnarráðið hefir sett fyrir sölu á prestsmötu, sjeu óaðgengileg. Smjörpundið er reiknað á 1 kr., og mönnum hefir aldrei verið neitað um sölu, nema prestur mælti á móti.

En svo er annað atriði, sem hv. frsm. (P. O.) fór ekki alveg rjett með í samanburði sínum. Hann vildi bera þetta saman við gjaldfrest á kaupum þjóðjarða og kirkjujarða. Það er vitanlegt, að kaupverð þeirra stendur eftir með 1. veðrjetti. Jeg held, að óþarft sje að veita þennan gjaldfrest. Jeg býst við, að flestir, sem hjer um ræðir, hafi einhver ráð til að borga. Ef þeir hafa nægilega trygt veð, geta þeir borgað, en landssjóður getur að eins gert sig ánægðan með nægilega trygt veð. Það mætti setja lög um, að það skuli standa eftir með 1. veðrjetti. Jeg hefi litið svo á, að prestsmatan hvíli á jörðinni með 1. veðrjetti, og mætti þá sennilega ákveða, að svo skyldi vera um andvirðið.

Jeg hefi viljað benda hv. deild á, að frv. hefir í för með sjer bein útgjöld úr landssjóði, sem nema ekki litlu. — Maríu- og Pjeturslömbin munuðu litlu, en prestsmatan munar talsverðu.