25.08.1919
Neðri deild: 44. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í C-deild Alþingistíðinda. (3787)

133. mál, lestagjald af skipum

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Fjárhagsnefnd hefir leyft sjer að bera fram þetta frv., um lestagjald af skipum, á þgskj. 476. Aðalástæðurnar fyrir þessu frv. eru þær, að gjald það, sem nú hvílir á fiskiskipum eingöngu og svarar til ábúðarskatts, er mjög lágt. Og auk þess eru öll þau skip, sem ekki fást við fiskiveiðar, alveg gjaldfrjáls. En nú er svo komið, eins og kunnugt er, að við eigum skip fyrir miljónir króna, en þau eru laus við öll gjöld, nema tekjuskatt. Það virðist t. d. ekki sanngjarnt, að skip eins og „Gullfoss“ greiði ekki annað gjald í ríkissjóð en tekjuskatt. Hjer er ekki um hátt gjald að ræða; þess vegna vona jeg, að hv. deild leyfi frv. að ganga fram. — Jeg ætlaðist að vísu ekki til í upphafi, að þessi tekjuaukafrv., þetta og það, sem næst er á dagskrá á eftir þessu, kæmu fram fyr en till. fjárveitinganefndar væru komnar, því hv. þingdm. mundu má ske fúsari á að samþ. þau, er þeir sæju, hvernig hagur ríkissjóðs væri. — Jeg þykist vita, að þessi frv. munu mæta mótspyrnu sumra hv. þm., sjerstaklega þegar litið er til frv. um bifreiðaskatt, sem hjer var á ferð fyrir skömmu og kallaður var „miðaldaskattur“. Eins má gera ráð fyrir um lestagjaldið, að það hljóti sama nafn. Þó fer því fjarri, að hjer sje um nokkurn „miðaldaskatt“ að ræða, því að skattur á bifreiðum er nú nýlega lögleiddur um öll Norðurlönd.