27.08.1919
Neðri deild: 46. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í C-deild Alþingistíðinda. (3790)

133. mál, lestagjald af skipum

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Það var ekki nema að líkum, að einhver rödd kæmi fram á móti þessu frv.

Jeg vil benda hv. 2. þm. S.-M. (B. St.) á það, að lausafjárskatturinn af skipum kemur í stað ábúðarskattsins af jörðum. Þegar því hv. þm. (B. St.) athugar þetta, þá mun hann komast að raun um, að þessi skattur er ekki eins ósanngjarn og hann virðist vera. Hjer er ekki heldur eins mikill skattur á ferðinni og hann heldur; að vísu hefi jeg ekki athugað það nákvæmlega, hverju munaði, ef reiknað væri heldur eftir „nettó-“ en „brúttó-“smálestum skipa, en það veit jeg, að eftir því, sem skipin eru minni, eftir því verður þessi munur minni. Það, sem aðallega vakti fyrir nefndinni, var að skattleggja stórskip, sem ekki eru notuð til fiskiveiða, og að sá skattur kæmi nokkuð á móti ábúðarskattinum, sem hefir þrefaldast síðan stríðið byrjaði; ef því þessi skattur ætti að vera ákveðinn í hlutfalli við ábúðarskattinn, þá er hann síst of hár. Get jeg t. d. tekið skip, sem virt er á 1000000 kr., og væri 1400 smálestir; skatturinn af því yrði 2800 kr., en ef jörð væri metin á 1000000 kr., þá yrði ábúðarskatturinn mikið hærri.

Annars þýðir lítið að vera að tala um þetta nú, þar sem svo fáir eru á fundi; væri því best, að málið yrði látið ganga til 3. umr. og að það yrði athugað þá betur.