29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í C-deild Alþingistíðinda. (3794)

133. mál, lestagjald af skipum

Matthías Ólafsson:

Ásamt öðrum fleiri háttv. þm. hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt. á þgskj. 536.

Það er af þeim ástæðum, að okkur þótti of hátt lestagjaldið af smábátum, sem nú á síðari tímum verða altaf að minna og minna gagni.

Bátar, sem ekki eru nema 12 smálestir að stærð, hafa einmitt sýnt sig að vera of litlir eftir þeim kröfum, sem nú eru gerðar. Þeir eru því lítið notaðir, og þar af leiðandi ekki neinar sjerlegur fjeþúfur fyrir eigendurna.

Við viljum því ekki leggja þetta gjald á þá. En annað mál er um stærri skip, sem eru 60 smálestir brúttó og þar yfir.

Þá er annar liður brtt. um það, að lausafjárskatturinn haldist á bátum þessum eftir sem áður.

Verður þá að eins hærra gjald á stærri skipunum.

Vona jeg svo, að háttv. deild þyki breytingar þessar sanngjarnar og fallist á þær.