30.07.1919
Efri deild: 18. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í C-deild Alþingistíðinda. (3815)

69. mál, almennur ellistyrkur

Guðjón Guðlaugsson:

Það er kunnugt, að samkvæmt ellistyrktarsjóðslögum geta öreigar verið gjaldfrjálsir, og það hefir ekki valdið ágreiningi, að suma menn beri að skoða sem öreiga, og ávalt hefir verið litið svo á að væru öreigar, til dæmis ógift kona eignalaus, sem á fyrir barni að sjá. En gjaldið kemur niður á reglulegum fátæklingum í venjulegum skilningi, mönnum, sem hafa lítinn bústofn og að eins geta dregið fram lífið.

Mjer þykir vænt um, að hv. 2. þm. G.-K. (K. D.) er mjer samdóma í þessu, en jeg er honum ekki alveg samþykkur um 40 kr. lágmarkið. 20 kr. er alt of lágt. Jeg veit vel, að margir taka með þökkum við 10 kr. og eru jafnvel glaðir við að fá 5 kr. En þegar alt er eins dýrt og nú á sjer stað, er það vel skiljanlegt, að lægri upphæð en 40 kr. getur ekki komið að neinum verulegum notum. Nakinn maður getur t. d. ekki keypt sjer flík fyrir minna en 40 kr., og því síður er hægt að kaupa nokkra skepnu fyrir minni upphæð, og ef þurrabúðarmaður, sem þarfnast mjólkur, á í hlut, eru 44 kr. ekki of ríflega í lagt. Jeg veit, að umsækjendur eru margir, og margir þeirra lítilþægir og þakklátir fyrir lítinn glaðning, en þegar þeir vita, að lögin leyfa lágmarkið ekki minna en 40 kr., vita þeir líka, að ekki er hægt að gera öllum úrlausn, og sætta sig við það.

Sveitarfjelögin gætu t. d. tekið menn á víxil, án þess að það væri skoðaður sem beinn sveitarstyrkur, og mætti með því nokkuð bæta úr þeim annmörkum, sem nú eru samfara venjulegum sveitarstyrk. Það er leiðinlegt, þegar veita þarf sama manninum sveitarstyrk ár eftir ár, en þetta fyrirkomulag gæti ef til vill bætt að einhverju leyti úr því, því að það er kunnugt, að þeir, sem einu sinni hafa þegið af sveit, verða kæruminni, þó það komi fyrir oftar.