17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í C-deild Alþingistíðinda. (3856)

61. mál, skipun læknishéraða o. fl. (Kjalarneshérað)

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg viðurkenni að hafa sagt, að ástæða sje til að fá breytingu á því, að Kjósarhreppur eigi að vitja læknis til Hafnarfjarðar. Enda mun það varla koma fyrir. En það, sem jeg vildi sagt hafa, er, að jeg held, að það sje óráðlegt að setja á stofn hvert læknishjeraðið á fætur öðru, eftir beiðni hjeraðsbúa, í staðinn fyrir að taka til athugunar alla hjeraðaskipunina yfirleitt. Ef nú á að stofna fjögur ný læknishjeruð, mun verða óhjákvæmilegt, að að minsta kosti tvö bætist við á næsta þingi. Jeg held vafalaust, að hægt verði að koma fram með jafnríkar ástæður og hjer er gert.

Hvað þetta hjerað snertir, þá held jeg, að þetta kæmi ekki nema nokkrum hluta af Mosfellssveit að notum, en nokkur hluti hennar mundi sennilega sækja lækni til Reykjavíkur. Jeg veit ekki, hvar þessi læknir ætti að sitja, hvort heldur í Saurbæ, eða á miðju Kjalarnesi, t. d. í Brautarholti. Jeg held, að heppilegast væri, að hann sæti í Brautarholti, en þá yrði hann varla sóttur úr Mosfellssveitinni, heldur að eins úr Kjósinni og af Kjalarnesi. Svo að frá því sjónarmiði ímynda jeg mjer, að nær lægi, að læknirinn sæti í Kjósinni og hefði eitthvað af Hvalfirði með. Þá gæti líka Þingvallasveitin notið góðs af honum, að minsta kosti einhvern hluta ársins.

Það er alveg rjett hjá hv. 1. þm. G.-K. (B. K.), að ástandið er ilt, eins og það nú er. En það er fleira, sem kemur til athugunar T. d. mætti bæta einhverju við Hafnarfjarðarhjerað suður á bóginn, og svo gæti læknirinn í Keflavík aftur tekið eitthvað á móti. Læknirinn í Hafnarfirði gæti t. d. þjónað Vatnsleysuströndinni. Þar eru ágætir vegir, og því greitt um ferðalög.

Jeg segi þetta til að sýna fram á, að þegar tekin eru alveg ný hjeruð, eitt og eitt, þá er svo hætt við, að öll hjeraðaskipunin ruglist. Það þarf nauðsynlega að taka alla hjeraðaskipunina fyrir í einu lagi og reyna að koma samræmi á alstaðar á landinu.

Aftur stendur alveg sjerstaklega á með Bolungarvík. Hún snertir ekki neitt annað hjerað. En annars hefi jeg látið þá skoðun í ljós oft áður, að jeg tel þetta hættulega braut. Þegar launin eru auk þess orðin svo há, þá munar það talsvert miklu fyrir landssjóð að bæta við mörgum hjeruðum upp á marga tugi þúsunda. Nú eru hjer komin 4 ný hjeruð, sem sennilega verða samþ., og að sjálfsögðu koma undir tilsvarandi flokk í hinum nýju launalögum.