01.08.1919
Efri deild: 20. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í C-deild Alþingistíðinda. (3860)

101. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg hefi lýst yfir því áður, þegar lögð voru fram skatta- og tollafrv. stjórnarinnar, að stjórnin teldi fulla nauðsyn á því, að endurskoða skattalöggjöf landsins, en það er öllum vitanlegt, að til þess, að slík endurskoðun mætti fara fram í lagi, þyrfti nákvæma yfirvegun. Stjórnin leit svo á í vetur, þegar hún hafði þetta mál til yfirvegunar, að enn væri ekki tími til kominn til þessar endurskoðunar, auk þess, sem tímarnir nú væru óhentugir til þess að komast að fastri niðurstöðu um þessi mál.

Um þetta frv. er það að segja, að altaf má búast við því, þegar „principin‘‘ eru leidd fram á vígvöllinn, að þau veki stríð og deilur, og gæti þá svo farið, að landssjóður stæði uppi skattalaus. Jeg hefi að vísu ekki haft tíma til þess að athuga frv. rækilega, en sje þó fljótt, að landssjóður myndi bíða tekjumissi við það, að frv. yrði samþ., saman borið við gildandi lög. þetta verður ljósast með því að taka dæmi. Af 20 þús. króna tekjum mundi skattur eftir frv. nema nálægt 507 kr., en eftir gildandi lögum rúmum 1000 kr. Á upphæðum hjer fyrir neðan verður hlutfallið líkt eftir lögum nú og frv., en þegar upp eftir dregur, þá færir frv. skattinn niður. Af 29 þús. kr. er skatturinn samkvæmt frv. kr. 1087.50, en nú er hann kr. 3250.00. Af 40 þús. kr. er skattur eftir frv. 2040 kr., en nú 5500 kr. Af 50 þús. kr. er skatturinn eftir frv. 3177.50, en nú 7900 kr.

Á flestum gjaldendum er niðurfærslan ákaflega mikil, og eins og sakir standa nú, er engin ástæða til þeirrar breytingar. Jeg tel ekki þá galla á núgildandi tekjuskattslögum, að það sje brýn þörf á að breyta þeim. Alstaðar, hvar sem er í heiminum, valda slík lög hinum mesta ágreiningi, og verð jeg að telja það óheppilegt að innleiða deilu þá mi á Alþingi.

Jeg tel heppilegast, að frv. verði vísað til fjárhagsnefndar, og að hún síðan leggi til, að því verði vísað til stjórnarinnar, er athugi það ásamt öðru, er lýtur að skattalöggjöf landsins. Hitt, að samþ. frv. og minka nú tekjur ríkissjóðs, getur ekki komið til orða; tekjuskatturinn er, þrátt fyrir alt, besti og rjettlátasti gjaldstofninn. Um það er óþarfi að deila.