14.07.1919
Neðri deild: 7. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í C-deild Alþingistíðinda. (3864)

52. mál, skipun læknishéraða o. fl. (Bakkahérað)

Flm. (Jón Jónsson):

Jeg get í upphafi sagt líkt og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að þetta mál er ekki nýtt hjer á þingi. Jeg skal ekki fara út í ástæðurnar fyrir frv. þessu og nauðsyn þess, að það gangi fram, að því leyti, sem þær standa í greinargerðinni fyrir því. En jeg vil geta þess í sambandi við það, sem fram kom á þingi 1917, að það hefir verið tekið til athugunar, hvort hægt væri að flytja læknisbústað Fljótsdalslæknishjeraðs niður á mitt Fljótsdalshjerað og gera eitt hjerað úr öllum hreppum hjeraðsins. Við athugun þessa atriðis hefir það komið í ljós, að þetta er ekki framkvæmanlegt. Samkomulag næst ekki um þetta, og Hjeraðsbúar eru því mótfallnir. Svo er og þess að gæta, að það er ekki hægt að skylda lækninn á Fljótsdalshjeraði, sem situr á Brekku og hefir búið þar vel um sig, að sætta sig við þessa breytingu, fremur en honum sjálfum gott þykir.

Svo eru og á þessu aðrir annmarkar. Fyrst og fremst ætíð sami höfuðgallinn, að læknirinn er ekki nema einn, og verða því jafnan einhverjir illa úti með að ná í lækninn, vegna þess, hve hjeraðið er stórt og viðlent. Og þó að aðstoðarlæknir yrði skipaður, væri ekki bætt úr erfiðleikunum. Málið kom fyrir sýslunefnd á síðasta aðalfundi hennar. Sýnir það, að menn eru fallnir frá öllu samkomulagi um þetta atriði, að þá kom fram á sýslufundi ósk um, að fundurinn gerði ályktun til þingsins í þessu máli. Sýslunefndarályktunin var samþ. í einu hljóði, og var skorað á Alþingi að stofna nýtt læknishjerað á Úthjeraði. Ályktun þessi mun hafa verið send stjórnarráðinu, og hefi jeg hana ekki við höndina, en hún er í sýslufundargerð Norður-Múlasýslu frá í vor.

Það hefir jafnan verið sagt, að þessi breyting hafi aukinn kostnað í för með sjer og að læknir muni ekki fást. En það er ekki hægt að slá þessu fram. Það er aðgætandi, að þótt ilt sje að fjölga embættismönnum og ekki megi gera það að óþörfu, þá er þó hitt enn verra, ef menn deyja að óþörfu fyrir handvömm löggjafarvaldsins. Mannslífin eru dýr hjá okkur. Þótt fólk sje fátt í einu hjeraði, verður það að geta náð sjer í lækni; annað hæfir ekki í siðuðu þjóðfjelagi. Það gæti ef til vill forsvarast að sinna ekki slíkum málaleitunum, ef það á að vera regla á þingi að sinna ekki neinu slíku fyr en hlutaðeigendur eru búnir að leggja fram allan nauðsynlegan kostnað. En jeg hjelt, að hv. þm. sæju sjer það skylt, vegna sóma ríkisins, að taka slíkar málaleitanir til greina, þegar sannað er, að þörfin sje fyrir hendi. Og hjer er þá einn af þeim stöðum, sem ómögulegt er fram hjá að ganga. Það, sem helst verður haft á móti, skyldi þá vera það, að hjeraðið yrði fremur fáment. 1910 var fólkstalan í Borgarfirði, hinu fyrirhugaða Bakkahjeraði, á fimta hundrað, en nú má óhætt gera ráð fyrir, að þar sjeu full 500. Eru til læknishjeruð hjer á landi, þar sem mannfjöldi er ekki öllu meiri en þetta. í hinu hjeraðinu yrði íbúatalan eitthvað yfir 1000, eins og gerist.

Jeg vil að svo mæltu óska þess, að mál þetta verði vel athugað. Það er allsendis ómögulegt, að fólk á þessu svæði geti unað við þessa skipun, eins og hún er. Afleiðingin hlýtur því að verða sú, ef þessari beiðni er synjað, að við verðum að útvega jörð undir lækni, byggja læknisbústað og borga fyrir úr okkar eigin vasa. Enn fremur að útvega lækni og launa honum að öllu leyti. Annað ráð er ekki fyrir hendi. Og ef þingið er svo kærulaust og tómlátt, að því sýnist að láta málið fara á þá leið, þá verður það að vera svo. En vitanlega yrði slíkt ekki vel sjeð hjá fólki, vegna þess, að það er algerlega rangt.