10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í C-deild Alþingistíðinda. (3872)

52. mál, skipun læknishéraða o. fl. (Bakkahérað)

Þorsteinn Jónsson:

Mál þetta var hjer á ferðinni á þingi 1917. Jeg og hv. samþm. minn (J. J.) fluttum þá samskonar frv. En það fjekk þá lítinn byr, og var felt. Síðan virðist deildinni hafa snúist hugur, og er jeg henni þakklátur fyrir það.

Eins og hv. frsm. (J. J.) tók fram, getur ekki komið til mála, að Fljótsdalshjerað sje gert að einu læknishjeraði. Þó að því væri tvískift, yrði það samt sem áður með stærstu læknishjeruðum á landinu. Bygðin er nálega þrjár þingmannaleiðir á lengd, og er ekki ofsagt, að það sjeu þrjár venjulegar dagleiðir. Efri hluti þess klofnar sundur í fleiri dali með erfiðum fjallgörðum á milli. — Brekkuhjerað eitt er mjög stórt læknishjerað og erfitt yfirferðar. Það má ekki stærra vera. Það er alt rjett, sem hv. frsm. (Þorl. J.) sagði um Hróarstunguhjerað. Það er líka mjög erfitt yfirferðar. Eru þrjár stórár á leiðinni: Jökulsá á Dal, Lagarfljót og Selfljót.

Læknirinn á þessu svæði, væri Borgarfjörður fráskilinn, ætti að eiga sæti í Hróarstungu. En nú er þannig ástatt, að þar á að verða prestssetur. Prestsetrið á Hjaltastað á að leggjast niður. Jeg tel nauðsynlegt að breyta þessu, ef frv. nær fram að ganga, þannig, að presturinn sitji áfram á Hjaltastað, en læknirinn í Hróarstungu. Það er satt hjá háttv. frsm. minni hl. (P. O.), að ekki eru nema kringum 500 manns í hinu fyrirhugaða Bakkahjeraði. En þessi sveit er svo afskekt og fráskilin öðrum sveitum, að það er mjög erfitt að vitja læknis annarsstaðar að. Það kemur ekki til mála að leggja það hjerað undir Seyðisfjörð. — Höfnin í Borgarfirði er svo vond, að oft er ekki hægt að lenda þar, og í mörgum tilfellum ómögulegt að fá mótorbáta þangað frá Seyðisfirði. Á milli Borgarfjarðar og Seyðisfjarðar eru tveir erfiðir fjallgarðar. Og Borgarfjarðarhreppur er margskiftur. Fyrst er Borgarfjörðurinn sjálfur, og auk þess eru 5–6 vikur, sem heyra til Borgarfirði, og hefir sú stærsta um 40 manns. Eins og nú er ástatt, er nærri ókleift fyrir talsverðan hluta Fljótsdalshjeraðs að ná í lækni. Það er ógerlegt fyrir sumar sveitir Hróarstunguhjeraðs að sækja lækni til Borgarfjarðar; þeir munu miklu fremur ráðast í að sækja lækni til Vopnafjarðar, t. d. Heiðamenn, sem næst búa Smjörvatnsheiðinni. Sá læknir, sem er á Vopnafirði, er að vísu ekki skyldur að gegna. Auk þess er yfir mjög erfiðan og snjóþungan fjallgarð að fara. En þar er nú duglegur læknir, sem oftast kemur, þegar hans er vitjað. Fyrir Útjökuldali er skemra til Brekku, og er þó yfir erfiðan fjallveg að fara.

Jeg vona, að hv. deild sýni sanngirni í þessu máli og samþ. till. meiri hluta allsherjarnefndar. Enda er það í samræmi við vilja þjóðarinnar, að læknaembættum sje fjölgað þar, sem þörf krefur. Þar finna menn best, hvar skórinn kreppir að. Mannslífið er dýrt nú á dögum. Og það er ekki lengi að borga sig, þó að einu hjeraði sje bætt við, ef það verður til þess að bjarga nokkrum mannslífum.