12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í C-deild Alþingistíðinda. (3877)

52. mál, skipun læknishéraða o. fl. (Bakkahérað)

Frsm. meiri hl. (Þorleifur Jónsson):

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) þótti athugavert að samþ. þetta frv., og áleit ekki hægt að stofna mörg ný hjeruð á sama þingi. Alveg það sama vakti fyrir allsherjarnefnd. En hún varð þó að játa eftir nákvæma yfirvegun, að svo margt mælti með þessu frv., að ekki væri unt að vera á móti því. Og meiri hl. nefndarinnar taldi sig ekki geta annað en leggja það til, að Hróarstunguhjeraði yrði skift í tvö hjeruð. Svo miklar ástæður mæltu með skiftingunni, að hún yrði að ganga fram og það sem fyrst.

Hróarstunguhjerað er afarerfitt, og allskonar torfærur, bæði af fjöllum, vötnum og snjóþyngslum, gera það oft oft og einatt því nær ófært yfirferðar. Allsherjarnefnd áleit því, að nokkuð væri líkt á komið með það og Hólshrepp eða Bolungarvík fyrir vestan, og áleit þörfina mesta í þessum tveim hjeruðum. Jeg ímynda mjer, að Svarfdæahjerað með Ólafsfirði sje ekki nærri eins erfitt eins og þetta hjerað.

Það er alveg rjett hjá hæstv. forsætisráðh. (J. M.), að varhugavert sje að fjölga mikið læknishjeruðum nema að hjeraðaskipun sje öll endurskoðuð um leið. En þegar fram koma brennandi óskir frá þjóðinni um fjölgun lækna, þá er að búast við, að þingið verði að taka slíkar óskir til yfirvegunar. Allsherjarnefnd áleit, að þörfin væri brýnust í Hólshreppi og Hróarstunguhjeraði, og því mælti hún með því, að þeim hjeruðum væri skift, en ekki fleirum að þessu sinni. Hitt get jeg aftur á móti ekki skilið, að hættara sje við hrossakaupum hjer í þinginu í þessum málum en öðrum.

Þegar litið er á stærð Fljótsdalshjeraðs, þá ætti ekki að vera of mikið, þótt það væri tvö læknishjeruð, með þeim dölum, sem út frá því skerast.

Þegar jeg því lít á alla málavöxtu, get jeg ekki annað en ráðið hv. deild til að samþ. frv.