23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í C-deild Alþingistíðinda. (3884)

77. mál, rannsókn símleiða Árnessýslu

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Jafnvel þó margt megi segja um þessa till. á þgskj. 119, þá ætla jeg að reyna að vera stuttorður.

Reglan hefir verið við lagning símans sú, að fullnægja fyrst símaþörfinni í fjölmennum kauptúnum og kaupstöðum. Nú er svo komið, að þessu er náð. Og þá virðist næst að snúa sjer til bygðarlaga, sem eru fjölmenn og víðáttumikil. Einmitt þesskonar hjeruð eru uppsveitir Árnessýslu. Sýslan er með fólksflestu sýslum landsins, og um leið einhver sú víðáttumesta. Hún hefir til þessa farið að miklu leyti á mis við hagræði það, sem af símanum leiðir. Símalína liggur yfir hana þvera, þar sem hún er einna mjóst, og svo aukalínur þaðan niður í kaupt. Stokkseyri og Eyrarbakka. Einnig liggur lína upp að Kiðjabergi. Upphjeruðin, Biskupstungurnar, Grafningur, Skeiðin og Hrepparnir, eru þannig símalaus, og sama má einnig segja um Grímsnesið, því síminn er að eins á fremsta bænum í þeirri sveit. En hin fyrirhugaða símleið liggur um þessar sveitir.

Bæði landsstjórnin og símastjórinn hafa fyrir löngu gefið von um, að þessi lína yrði lögð sem allra fyrst. Það var meira að segja svo langt komið, að búið var að gefa fyrirheit um það, að byrjað yrði á verkinu í sumar. En það hefir farist fyrir. Það er ekki einu sinni farið að rannsaka leiðina. í sambandi við þessa fyrirhuguðu línu gæti komið til tals, hvort önnur leið með símann upp í Hreppa yrði ekki hagkvæmari og ódýrari. Jeg á við þá leið, sem nefnd er í till., sem sje frá Þjórsártúni yfir Skeið og þaðan upp í Hreppa. Það þarf að rannsaka þessa leið samtímis og lögákveðna leiðin er athuguð. Það er mjög líklegt, að það yrði sparnaður að því að fara þessa leið. Það má benda á, að allur flutningur mundi ódýrari, ef línunni yrði þannig skift í tvent. Án þess þó að fullyrða nokkuð um þetta, hvor leiðin mundi hentugri, þá finst mjer sjálfsagt, að hvorttveggja sje athugað.

Það þarf ekki að lýsa þörfinni, sem er á því, að sími verði lagður um Uppsveitir Árnessýslu, og það sem allra fyrst. Sveitirnar eru mannmargar og hafa mikil viðskifti. En það er langt að sækja í síma. Ef við miðum t. d. við það, að leita þurfi síma úr miðri Biskupstungnasveit að Kiðjabergi, þá tekur það 8 st. að fara þá leið. Svo þarf oft og einatt að bíða lengri eða skemri tíma á símastöðinni. Það tekur því dag eða meira að fara í síma. Viðskiftin eru mikil, bæði við Reykjavík og aðra staði, og er því þörfin á síma mjög mikil. Sama er að segja um, ef vitja þarf læknis, og má af þessu sjá, að símaleysið er meira en lítið óhagræði.

Við flm. þessarar till. leggjum áherslu á, að þessar báðar leiðir, sem till. ræðir um og jeg hefi minst á, verði rannsakaðar og það þegar er símastjóri kemur heim. Það verður að búa svo um, að hægt sje að byrja lagningu þegar á næsta sumri. Árnesingar hafa svo lengi verið hálfblektir á þessu máli, að nú er fyllilega kominn tími til að ráða bót á því.