23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í C-deild Alþingistíðinda. (3887)

77. mál, rannsókn símleiða Árnessýslu

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Mjer er ekki kunnugt um, hvað rannsókn líður á þeim svæðum, þar sem búið er að lögskipa símalínur, en jeg veit að eins það, að landssímastjórinn hefir varið miklum tíma í þær rannsóknir. Annars er hægt að útvega skýrslu hjá honum um það, hvað hann hefir rannsakað, og benda honum á, að rannsóknin á þessu umrædda svæði þyrfti að fara fram.

Það hefir dregist að framkvæma svo margt á þessum dýrtíðarárum, sem þurft hefði að koma í verk. Það eru margar hindranir, sem hafa valdið því, að fleiri hliðarlínur hafa ekki verið lagðar. Aðalástæðan er sú, að strengirnir á aðallínunum eru of fáir, svo þær eru ofhlaðnar störfum. Það hefði því ekki verið rjett að hlaða á þær enn meir, með nýjum hliðarlinum. Auk þess hefðu þær línur ekki komið að fullu gagni. Fyrst verður því að fjölga strengjunum, en það hefir dregist, því aðalkostnaðurinn við símalagningu liggur einmitt í þeim.

Jeg álít það vel fallið að leita álits landssímastjórans á þessu máli og fara fram á við hann að rannsaka þær leiðir, sem þingið bendir honum á, og eins þær, sem hann hefir sjálfur hugsað sjer. Jeg skal ekki blanda mjer í það, í hvaða nefnd málið fer, eða hvort það fer í nokkra. Það læt jeg liggja milli hluta. En jeg vona, að málinu verði vel tekið, og í því er ekkert skilyrði, sem hlutaðeigendum ætti ekki að vera ljúft að uppfylla eins vel og þeir eru færir um.