03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Sigurður Sigurðsson:

Jeg ætla að eins að gera stutta athugasemd út af reikningi háttv. þm. Dala. (B. J.) um kostnað við sendiherrann í Kaupmannahöfn. Reikningur hans leit þannig út, að yrði sendiherranum slept, en haldið áfram skrifstofunni, þá yrði kostnaðurinn 18 þús. kr., eða 10 þús. kr. til skrifstofustjóra, 6 þús. kr. til þess, er gengi honum næstur, og 2 þús. kr. í húsaleigu. Niðurstaða hans var því sú, að ekki sparaðist nema 4 þús. kr. við að hafa skrifstofu í stað sendiherra.

Þessi reikningur finst mjer vægast sagt vitlaus. Jeg heyri það koma glögt fram, að sendiherrunum í Danmörku sjeu ætlaðar 15 þús. kr. í laun. Og jeg heyri það einnig tekið fram, að launa ætti þessum íslenska sendiherra með 15 þús. kr. Sendiherrann hefir einnig undir sjer skrifstofuþjóna, og þótt því ekki sje áætlað hjer meira en 40 þús. kr. til þessa alls, þá er mjer nær að ætla, að eftir nokkurn tíma verði upphæðin orðin 50 þús. kr. og jafnvel enn hærri.