11.09.1919
Neðri deild: 61. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í C-deild Alþingistíðinda. (3909)

147. mál, lán til Flóaáveitunnar

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Það er rjett, að jeg hefi ekki mælt á móti því, að stjórnin hefir fulla heimild til allra framkvæmda um lántöku til Flóaáveitunnar. Og jeg get verið þakklátur hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) fyrir viðleitni hans í þessu máli. Jeg veit, að hann álítur það skyldu sína að gera alt í því, sem í hans valdi stendur. Jeg skal kannast við það, að það hefir ekki mikið að segja, hvort þessi till. er samþ. eða ekki, en þó ætti samþ. hennar heldur að flýta fyrir framkvæmd málsins.

Jeg get bent á það í sambandi við till., að nú hefir sú stjórn, sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) á sæti í, sagt af sjer, og er „alt í grænum sjó“ um það, hverjir skipi stjórn eftirleiðis. Till. er því ekki ónauðsynleg, því þó að þessi stjórn sje áhugasöm og öll af vilja gerð í málinu, þá er ekkert að vita, hvernig hin nýja stjórn reynist í því. Jeg vona þess vegna, að till. verði samþykt. Hún er aðhald fyrir væntanlega stjórn, og er á engan hátt móðgandi fyrir þá stjórn, sem nú situr.