05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í C-deild Alþingistíðinda. (3919)

78. mál, rekstur sýslumannsembættisins í Árnessýslu

Forsætisráðherra (J. M.):

Þó að flestar þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið um þjónustu sýslumannsembættisins í Árnessýslu, hafi verið gerðar í fjarveru minni, hygg jeg, að jeg geti svarað fyrirspurn hv. þm. (E. A.).

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefði getað rakið sögu þessa máls dálitlu lengra en hann gerði. Frá því, að Sigurður Ólafsson ljet af sýslumannsembættinu, var því þjónað af settum manni um ca. tveggja ára skeið. Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) kannast víst við það. Það er ekki svo að skilja, að þessi maður hafi ekki verið fullkomlega starfi sínu vaxinn og setning hans í alla staði forsvaranleg. Hann tók við embættinu 1. ágúst 1915 og þjónaði því til 1. ágúst 1917. Þá tók Guðmundur Eggerz við því, og þjónaði því þangað til í nóvember 1917. Jeg man ekki, hve nær hann var valinn í fossanefndina, en hann fjekk þá leyfi til að fara frá embættinu meðan á nefndarstörfum stæði. Þetta leyfi tel jeg og algerlega forsvaranlegt. Það er ekkert einsdæmi, að embættismaður fái leyfi til að hverfa um stund frá embætti sínu, þegar hann er valinn til mikilvægra starfa, og jeg býst við, að svo verði talið ástatt í þessu tilfelli. Það er ekki einsdæmi, að sá, sem settur er í stað hans, sje settur á eigin ábyrgð.

Frá því í nóvember 1917 og þangað til í september 1918 þjónaði Bogi Brynjólfsson embættinu. Að vísu var settur stutta stund á því tímabili mikilsverður hreppstjóri til þess að þjóna embættinu, sem hafði þjónað áður sýslumannsembætti, og býst jeg ekki við, að hv. þm. hafi neitt við þá setningu að athuga, því að það er algengt, að embættismenn sjeu settir í stað embættismanna, sem sæti eiga á Alþingi.

En þegar Bogi Brynjólfsson fór, leið nokkurt tímabil, sem jeg skal játa að sýslan hafði ekki eins góða þjónustu og verið hefði æskilegt. En það stafaði af því, að jeg áleit ekki rjett að fela þeim manni embættið, sem þá var í boði. Þessi maður var Páll Jónsson lögfræðingur. Jeg hafði að vísu ekkert á móti manninum sjálfum, en af því, að mjer var kunnugt um, frá því að jeg var bæjarfógeti, og reyndar síðar, að hann hafði tekið mikinn þátt í ýmsum málum innan sýslunnar, sem vöktu þar töluverðar óeirðir, þótti mjer ekki heppilegt að setja hann í embættið. Þá var farið að leita að hæfum manni, og var ekki völ á fleirum en tveimur. Annar þessara manna gat ekki tekið embættisþjónustuna að sjer, af því að hann var ráðinn hjá öðrum og gat ekki fengið sig lausan. En þá var ákveðið að fá Þorstein Þorsteinsson, sem þá var að sleppa þjónustu við Seyðisfjarðarkaupstað. Hann gaf kost á sjer, og var búist við, að hann gæti komið með Sterling um miðjan október. Það er þetta tímabil, frá því seint í september fram í miðjan október, ef Þorsteinn Þorsteinsson hefði getað komið þá, sem segja má ef til vill um, að sýslan hafi ekki haft fullnægjandi þjónustu. En þetta tímabil þjónaði hreppstjóri sá, sem fyrirspyrjandi (E. A.) nefndi. En þó hygg jeg, að þjónustan hafi verið forsvaranleg, ekki lengri tíma. — Þorsteinn Þorsteinsson komst ekki suður fyr en 6. nóvember. Þá geisaði inflúensan hjer í bænum, og var Þorsteinn sjúkur af henni það, sem eftir var ársins.

Þetta tímabil var ekki völ á öðrum lögfræðingi en Páli Jónssyni til þess að þjóna sýslunni. Og það var í fullu samræmi við minn vilja, að hann var ekki settur. Á meðan þjónaði sýslunni Jón Einarsson hreppstjóri, til 1. janúar. Það var ófyrirsjáanlegt, að Þorsteinn Þorsteinsson yrði ófær til að þjóna síðustu mánuði ársins, vegna kvefpestarinnar. En síðan 1. janúar hefir sýslunni verið þjónað af mjög vel hæfum mönnum, sem jeg veit að Árnesingar hafa ekkert annað út á að setja, nema að þeir höfðu ekki veitingu fyrir embættinu.

Jeg læt þess vegna ósagt, hvort ástæða sje til að kvarta undan þjónustu Árnessýslu. Jeg hygg, að hún hafi altaf verið forsvaranleg, nema ef til vill frá því í september og þangað til 1. janúar. Það má vel vera, að afgreiðsla mála hafi ekki gengið svo fljótt sem skyldi á þessum tíma; en við því var ekki hægt að gera. Og síðan 1. janúar hefir embættisfærslan verið mjög góð. Sýslumaðurinn hefir sagt mjer, að öll mál, sem fyrir lágu, hafi verið afgreidd, þar á meðal eitt sakamál, sem nú er útkljáð, 2 lögreglumál, annað útkljáð, hinu frestað. Engin einkamál óútkljáð frá síðasta ári. Eitt sveitfestismál lá fyrir, og er nú undir úrskurði. Hins vegar eru skifti ef til vill ekki komin svo langt sem skyldi. Fyrir liggja skifti þriggja búa. Eitt þeirra er gamalt og ekki hægt að skifta því fyrst um sinn. En tvö eru ný.

Stundum hefir verið ver ástatt um embættisþjónustu einnar eða annarar sýslu, og stjórnin þó ekki sætt ávitum fyrir. Jeg veit ekki betur en að Árnesingar sjeu ánægðir með þjónustu Magnúsar Gíslasonar og Þorsteins Þorsteinssonar. En auðvitað er skiljanlegt, að þeir vilji fá mann, sem hefir veitingu fyrir sýslunni

Jeg finn ekki ástæðu til að greina frekar ástæður fyrir því, að jeg vildi ekki setja Pál Jónsson í embættið. Og jeg hygg, að jeg hafi svarað aðfinslum fyrirspyrjanda (E. A.) svo rækilega, að óþarft sje að fara frekar út í þá sálma. Jeg hefi heyrt sagt, að sendar hafi verið umkvartanir frá Páli Jónssyni út af því, að honum var neitað um setningu í sýsluna, en um það skal ekki talað frekar.

Hv. þm. (E. A.) sagði, að það væri óþægilegt að hafa setta menn við sýslumannsstörfin. Það má vel vera, sjerstaklega þegar svo stendur á, að sýslumaðurinn þarf að hafa stórmál með höndum. Eina stórmálið, sem verið hefir á döfinni í Árnessýslu, er áveitumálið. En því stjórnar sjerstök nefnd. — Önnur sjerstaklega vandasöm mál hafa ekki verið þar til meðferðar.

Þá kem jeg að þeim lið fyrirspurnarinnar, hversu þetta ástand eigi að vera lengi framvegis. Því hefi jeg að mestu leyti svarað í upphafi ræðu minnar. Jeg lít svo á, að sýslum. hafi fengið loforð um leyfi frá embættinu meðan fossanefndin starfar. Störfum hennar er ekki lokið enn þá, en þau verða sennilega til lykta leidd í þessum mánuði, og þá er þessi ráðstöfun úti. Sýslumaðurinn varð nýlega veikur, fjekk blóðspýting á Kolviðarhóli og var fluttur til Hafnarfjarðar. En jeg vona, að hann fái bráðlega bata og lúki því, sem eftir er nefndarstarfanna.