05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í C-deild Alþingistíðinda. (3924)

78. mál, rekstur sýslumannsembættisins í Árnessýslu

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það er í raun og veru ekki langt mál, sem jeg hefi að flytja.

Það var hv. fyrirspyrjandi (E. A.), sem furðaði sig dálítið á því, að þegar Bogi Brynjólfsson var settur sýslumaður í Árnessýslu, þá var hann settur á eigin ábyrgð. Jeg minnist á þetta af því, að svo stóð á, að jeg fór þá með dómsmálaráðherraembættið. Sýslumaðurinn, Guðm. Eggerz, bað mig að setja hann á eigin ábyrgð. Jeg sá ekkert því til fyrirstöðu. Viðkomandi maður var gamall lögfræðingur, og fjárhagslega vel stæður. Þá var spurt, hvort til þessa væri nokkurt fordæmi. Jeg man ekki betur en að þegar jeg var settur bæjarfógeti í Reykjavík, og núverandi sýslumaður Skagfirðinga var settur sýslumaður í minn stað í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, þá væri það á eigin ábyrgð. Þar er áreiðanlega fordæmið.

Önnur voru afskifti mín ekki af þessu máli, nema þegar jeg fór með dómsmálaráðherraembættið í fjarveru forsætisráðherra (J. M.), þá kom Guðm. Eggerz til mín og bað mig að setja Pál Jónsson. En jeg neitaði honum um það, í samræmi við það, sem forsætisráðherra (J. M.) hafði gert; vildi ekki, þar sem jeg fór með embætti hans, breyta nýgerðri ráðstöfun hans. Af því sýslumaðurinn var mjer skyldur vildi jeg yfirleitt sem minst blanda mjer í þetta mál. Hv. þm. (G. Sv.) hjelt langa ræðu í þessu máli. Jeg verð að segja, að mjer fanst mikill hluti af þeirri ræðu ekki beinlínis nauðsynlegur vegna fyrirspurnarinnar. Það var alveg eins og aðalumræðuefnið hjer væri Guðmundur Eggerz, sýslumaður Árnesinga. En jeg hefi skilið fyrirspurnina svo, að tilefni hennar væri meðferðin á sýslunni, meðan hann hefði verið í fossanefnd. Umr. hafa hnigið að því, hverjir væru settir í fjarveru hans. Það er eðlilegt, að orðið hafi að setja einhverja í fjarveru hans. Hann gat auðvitað ekki verið bæði í fossanefnd og sýslumannsembætti. Og þótt bróðir minn eigi í hlut, þá vonast jeg eftir svo mikilli sanngirni, að það þyki ekki óeðlilegt, að jeg taki nú málstað hans, þar sem hann í seinni tíð saklaus hefir orðið fyrir óskiljanlegum ofsóknum. Var öll ræða hv. þm. (G. Sv.) einnig áframhald af þeim.

Í fyrsta lagi virtist hann telja það hneyksli, að Guðmundi Eggerz var veitt Árnessýsla. Jeg skal taka það fram, að jeg var þá ekki í stjórn. En jeg þykist geta staðhæft, að það hefði verið hneyksli, ef honum hefði ekki verið veitt embættið. Eftir ræðu hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) mætti halda, að hjer væri um óreglumann að ræða, að fjáróreiður hefðu átt sjer stað í embættisfærslu hans, að hann væri hneykslisembættismaður. En þetta er alt hinn mesti misskilningur. Skoðunargerð á embættisfærslu hans, sem er til sýnis uppi í stjórnarráði, og allir hafa aðgang að, fer öll í þá átt, að hann sje einn af allra bestu embættismönnum landsins. Skil hans í landssjóð eru í besta lagi, og hefir aldrei verið þar nokkur brestur á. — Jeg veit ekki betur en að hann sje viðurkendur góður dómari. Nú spyr jeg þá, hvað það sje á embættisbraut þessa manns, er gefi hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) ástæðu til að ráðast hvað eftir annað á þennan mann í þingsalnum. Slíkt ætti ekki að vera gert, nema full nauðsyn sje á, að ráðast á fjarverandi menn. Það væri auðvitað skiljanlegt, ef sýslumaðurinn væri sekur í einhverri embættisvanrækslu, og enginn skyldi þá furða sig á, þótt hv. þm. (G. Sv.) væri harðorður. En þegar það kemur nú bæði úr forsætisráðherrastólnum, þar sem sá maður situr, sem hefir enga ástæðu til þess að vera hlutdrægur, að hann sje góður embættismaður, og jeg auk þess get fullyrt það, og sýnt það skjallega uppi í stjórnarráði, að hann sje með bestu embættismönnum landsins, þá verður þetta að teljast mjög undarlegt, og þá fer mörgum að detta í hug, að persónuleg óvild, eða annað slíkt, standi hjer að baki.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hneykslaðist á því, að Árnessýsla var veitt Guðmundi Eggerz, sem þó var elstur umsækjenda, manni með 1. einkunn og góðan embættisferil að baki sjer. En jeg veit, að þm. (G. Sv.) hefir ekkert fundið að embættaveitingum þeirra manna, er hann hefir fylgt í stjórnmálum, þótt aðrir kunni að hafa litið öðruvísi á þær. Svo er um eina embættisveitingu, sem hefir þó verið töluvert gagnrýnd úti um land og hv. þm. (G. Sv.) mun kannast við. Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hafði ekkert að athuga við hana. (E. A.: Hvað var það?). Fyrst hv. 2. þm. Árn. (E. A.) spyr þessa, get jeg vel svarað honum. Það var veiting sýslumannsembættisins í Dalasýslu, sem mörgum þótti undarleg. Hana hefir hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) aldrei átalið.

Þá er annað atriði, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hefir oft og mikið komið inn á, en það er skipun Guðmundar Eggerz í fossanefndina. Það er ekki rjett hjá hv. þm. (G. Sv.), að enginn hefði minst á hann til þess. Bæði vildi sýslunefndin fá mann úr sýslunni í nefndina, og auk þess var t. d. einn af allra helstu mönnum Árnessýslu, sem beinlínis óskaði að fá hann í fossanefndina, og kom til mín í þeim erindagerðum. Eftir þeim niðurstöðum að dæma, sem orðið hafa í nefndinni, þá virðist skoðun Guðm. Eggerz í fossamálinu hafa beinlínis orðið ofan á í landinu og hjer í þinginu. Jeg held, að þeir, sem lesið hafa ritgerð hans, verði að játa, að hún sje föst í rökunum og beri þess ljósan vott, að lögfræðingurinn, sem stjórnin skipaði í nefndina, hafi verið vel starfi sínu vaxinn. Jeg held þess vegna, að ekkert það sje komið fram, er sýni, að skipun hans í nefndina hafi verið óheppileg. Þvert á móti hefir mjer heyrst hið gagnstæða, hjá þeim, sem ekki eru blindaðir af einhverjum sjerstökum ástæðum.

Jeg hefi nú gert grein fyrir afskiftum mínum af sýslumannsembættinu í Árnessýslu. Að öðru leyti fanst mjer skylt að skýra frá því, sem jeg hefi gert, um Guðmund Eggerz sem embættismann. Og jeg get bætt því við, að þar, sem Guðm. Eggerz hefir verið sýslumaður, hefir hann verið vel sjeður og vinsæll, sumstaðar með afbrigðum vinsæll. Fólki hefir yfirleitt fallið vel við hann sem valdsmann. Sje jeg því ekki, að ástæða hafi verið til að draga þennan mann persónulega inn í þessar umræður.