06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í C-deild Alþingistíðinda. (3930)

78. mál, rekstur sýslumannsembættisins í Árnessýslu

Forsætisráðherra (J. M.):

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagðist vera að slá botninn í fyrirspurnina með síðustu ræðu sinni. Jeg veit ekki, hvað öðrum finst, en mjer fyrir mitt leyti finst sá botn vera býsna götóttur.

Hann heldur, að stjórnin sje hrædd við sig. Það sýnir, að hann hefir góða trú á sjálfum sjer. En jeg get fullvissað hann um, að það er ekki hættulegra að láta hann tala á móti sjer en hvern annan. Hann þarf altaf svo víða við að koma og talar svo dreift, að minni kraftur verður í mælginni en hann sjálfur hyggur.

Hann sagði, að allir ráðherrarnir hefðu nú rótað sjer inn í umræður þessar. En það er ekki nema eðlilegt, að þeir hafi allir tekið til máls, þar sem ráðstafanir þessar hafa verið framkvæmdar af þeim öllum, hverjum í sitt skifti.

Jeg sagði í svari mínu, að þær gerðir hefðu aðallega farið fram í fjarveru minni. En jeg tel þær allar forsvaranlegar. Og þótt jeg hafi ekki gert nema lítið af þessum ráðstöfunum, þá tel jeg það eðlilegt, að fyrirspurninni sje beint til mín, þar sem mál þetta heyrir undir mig.

En það verður miklu örðugra að svara fyrirspurninni, þegar talað er fyrir henni á svona margvíslegan hátt. Það er sitt hvað, sem kemur fram hjá hv. 2. þm. Árn. (E. A.), eða hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.).

Jeg þarf ekki að svara síðari ræðu hv. 2. þm. Árn. (E. A.), því að eftir henni að dæma ber okkur næsta litið á milli.

En það þykir mjer undarlegt, að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) skyldi aftur þurfa að fara að tala um. Guðmund Eggerz, þar sem hann sjálfur, og sömuleiðis Árnesingar, virðast óska þess, að fá hann aftur að sýslunni.

Það virðist því vera harla lítil ástæða til að ráðast á hann hjer, þar sem þess hefir verið óskað, að ef hann komi ekki hið bráðasta til sýslunnar aftur, þá verði henni ráðstafað á einhvern annan hátt.

Þessi botn hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) á því ekki sem allra best við þetta mál.

Það var má ske eðlilegt, að hv. þm.

V.-Sk. (G. Sv.) færi aftur að minnast á, hvers vegna Páll Jónsson hafi verið skipaður fulltrúi, úr því að hann fjekk svo ekki að gegna því starfi, eða að vera settur. Jeg get ekki sjeð annað en að mikill munur sje á því, hvort maður er skipaður fulltrúi hjá öðrum manni viðverandi og á hans ábyrgð, eða þá, að hann er settur upp á eigin ábyrgð. Eins og hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) veit, eða að minsta kosti ætti að vita, þá er starfssvið fulltrúanna mjög takmarkað, svo að þeir mega ekki framkvæma nema viss verk. T. d. er þeim ekki leyfilegt að rannsaka mál, og af dómsmálum geta þeir ekki skift sjer, nema að mjög litlu leyti. Annars á jeg dálítið bágt með að svara þessu atriði, því jeg var fjarverandi, er Páll Jónsson var löggiltur fulltrúi Guðm. Eggerz. Verð jeg og að kannast við, að jeg mundi aldrei hafa löggilt hann. Er það ekki af því, að mjer sje á nokkurn hátt í nöp við manninn, heldur af því, sem jeg hefi áður minst á í þessum umræðum, að jeg taldi það ekki heppilegt að senda hann í þessa sýslu, því eftir því, sem á undan var gengið milli hans og sýslubúa, mátti búast við því, að honum yrði ekki vel tekið af þeim. Býst jeg við, að þessi löggilding hafi fram farið af því, að þeir, sem með þessi mál fóru í fjarveru minni, hafi ekki verið eins kunnugir öllum málavöxtum og jeg.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) segist hafa talað við Pál Jónsson, og hafi hann sagt, að langt hefði verið frá því, að jeg hefði gefið fullnægjandi ástæður fyrir því, hvers vegna hann hafi ekki verið settur sýslumaður í Árnessýslu. Jeg get ekki annað en látið þm. V.-Sk. (G. Sv.) um það, hvorum hann vill fremur trúa, Páli Jónssyni eða mjer. En það þykir mjer ótrúlegt, að Páll Jónsson skuli svo algerlega hafa gleymt samtali okkar, að hann skuli ekki muna eftir, að jeg gaf honum fyllilega í skyn, að jeg vildi ekki setja hann í þessa sýslu af því, sem á undan væri gengið, en að jeg hefði persónulega ekkert á móti því að setja hann í einhverja aðra sýslu. Það er sem sje alkunna, að hann, sem málaflutningsmaður, tók að sjer ýms mál, sem mjög snertu suma Árnesinga, og heldur voru illa þokkuð af þeim. Segi jeg ekki þetta til þess að lasta Pál Jónsson fyrir það, að taka þessi mál að sjer, en þessi málaferli voru nóg til þess, að hann var ekki í miklum vinskap við marga Árnesinga. Sömu ástæður bar jeg fram við Guðmund Eggerz, er jeg átti tal við hann um málið. En eins og gefur að skilja, þá get jeg ekki gefið hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) trúna á þetta, og vil jeg því ekki fara frekar út í það

Annars er mjer óskiljanlegt, hvers vegna hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) er að deila á stjórnina fyrir það, að hafa ekki sett Pál Jónsson fyrir sýslumann í Árnessýslu; en öðruvísi verða orð hans ekki skilin. Hann þykist þó vera að hjálpa Árnesingum, og lætur svo á köflum, að hann beri algerlega þeirra hag fyrir brjósti, en það get jeg fullvissað hv. þm. (G. Sv.) um, að Árnesingum væri ekki gert verra til en að stjórnin setti Pál Jónsson sýslumann þeirra. En ef það nú skyldi reynast, að það væri ekki ætlun hv. þm. (G. Sv.) með hinum löngu ræðum sínum, að telja hv. þm. á að neyða stjórnina til þess að setja Pál Jónsson í Árnessýslu, þá eru ræður hans meiningarlausar, og þessi orðaleikur allur saman hreinasti skrípaleikur. Hefði mátt vel sitja við ræðu hv. fyrirspyrjanda (E. A.) og það, sem hann sagði um. málið. Get jeg ekki betur sjeð en að við sjeum að mestu samdóma; hafði hann ekkert verulegt að athuga við svar mitt við fyrirspurn hans og þá sögu, sem jeg hafði að segja, og ekki hafði jeg heldur neitt verulegt að athuga við hans sögu. — Sú aðdróttun að mjer, að jeg hafi ekki svarað fyrirspurninni, er hreinasta fjarstæða, því jeg svaraði henni fyllilega í fyrstu ræðu minni í málinu. Þessi umræddi embættismaður fjekk leyfi til þess að vera frá embætti meðan hann sæti í fossanefndinni, og sje jeg ekkert athugavert um það. Nú, er hann hefir lokið störfum sínum í nefndinni, býst jeg við, að hann fari til embættis síns, en ef hann gerir það ekki, verður bráðlega gert eitthvað endanlegt í málinu.