06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í C-deild Alþingistíðinda. (3933)

78. mál, rekstur sýslumannsembættisins í Árnessýslu

Gísli Sveinsson:

Jeg vil biðja hæstv. stjórn að afsaka, þótt jeg, með leyfi þingskapanna og hæstv. forseta, geri örstutta athugasemd, þar eð henni þótti botninn ekki vera heill. Það er alkunnugt, að þegar gerðar eru aðfinslur til hæstv. stjórnar, þá kallar hún það „skrípaleik“, en það vita líka allir, hvernig á þessu stendur, því að henni er sein sje meinilla við, að hún sje mint á öll glappaskot sín.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sagði, að er jeg talaði, kæmi jeg svo viða við, að ilt væri að vita, hvað jeg væri að fara. í fyrsta lagi er það hinn þinglegi tilgangur fyrirspurna, að koma að öllum atriðum, er málið snerta. Og í annan stað er það satt, að jeg kem víða við, þegar jeg tala um stjórnina, því að þegar á annað borð er farið að minnast á skakkaföllin, þá er svo margt, er á þarf að drepa, þar eð ferill stjórnarinnar má heita óslitin keðja af óheilindum, að jeg ekki segi hneykslunum. Hvað því viðvíkur, að ekki væri gott að ætla á, hvað jeg væri að fara, þá er nokkuð nýtt að heyra það, því að jeg geng venjulega beint framan að mönnum og segi þeim það, fullum fetum, skýrt og skorinort, sem mjer býr í brjósti, hvort sem þeim líkar betur eða ver. En aftur á móti hefi jeg aldrei heyrt það sagt um hæstv. forsætisráðh. (J. M.), að menn gætu vitað, hvað hann væri að fara, og munu menn kannast við þetta, bæði utan þings og innan.

Þá vil jeg benda mönnum á, að hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) viðurkendi í ræðu sinni hinni síðustu, að nefndur sýslumaður hefði blandað sjer inn í vafasamar „Forretningar“. Eru þær þannig vaxnar, að slíkt má ekki eiga sjer stað um yfirvald. Jeg get því alls ekki hlíft þessum manni við sannleikanum, þótt hann sje embættisbróðir minn, úr því á annað borð er farið að tala um málefni hans. Hefi jeg enga tilraun gert til þess að draga mann þennan persónulega inn í umræðurnar, heldur hefir hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) verið að gefa tilefni til þess, að um hann væri farið að tala, hvort sem hann hefir gert það til þess að verja það, að hann hafi veitt honum einhver fríðindi, eða ekki. — Jeg neita því algerlega, sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) var að tala um, að vakað hafi fyrir mjer í þessum umræðum politiskt hatur til einstakra manna. Það er langt í frá, jeg ber ekki hatur til neins, enda þekkja menn það. Jeg tel það að eins skyldu mína sem þm. að ávíta stjórnina fyrir það, sem hún hefir illa gert, og tala jeg þá svo, að það skiljist.

Það má nú eftir þetta búast við, að bót fáist á því, sem aflaga hefir farið um sýslumannsembættið í Árnessýslu, og að sýslumaðurinn hverfi nú heim til sýslu sinnar. Fær það þá sýnt sig, hvort Árnesingar fá nokkuð tjónkað við hann eða ekki.

Að lokum skal jeg beina því til hæstv. fjármálaráðh. (S. E), að vorkunnsemi sína þarf hann ekki að láta koma niður á mjer, heldur væri hentara, að hann sneri henni þangað, sem þörfin er meiri. Því að sjálfur er hann sannarlega aumkvunarverður, þegar hann kemst í það sálarástand, er hann nú nýlega var í.