20.09.1919
Neðri deild: 69. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í C-deild Alþingistíðinda. (3940)

162. mál, aðflutningsbann á áfengi

Einar Arnórsson:

Það var eitt atriði í ræðu hæstv. forsætisráðherra (J. M.), sem mjer finst ástæða til að athuga dálítið. Enda snertir það ekki eingöngu háttv. flm. fyrirspurnarinnar (P. O.), heldur líka þann, sem leyfði fyrirspurnina, og þingið.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) virtist halda því fram, að þau mál yfirleitt, sem snertu starfssvið dómsvaldsins, ættu ekki að koma til umræðu hjer á þingi. Að því leyti er þetta rjett, að löggjafarvaldið á auðvitað ekki að ætla sjer að fara að kenna dómendum að skilja lög, eða að koma með neinskonar lagaskýringar. En spurningin var alls ekki um það. Það var spurt um, hvort stjórnin hefði áfrýjað þessum tveim dómum. Svo að þó löggjafarvaldinu beri ekki að kenna dómendum að skilja lög eða lagagreinar á einhvern vissan hátt, þá væri það allundarlegt, ef ekki mætti rökræða dóma dómsvaldsins hjer á þingi, eins og annarsstaðar. Því fer svo fjarri, að það þyki ósæmilegt, þó að dómur sje „krítiseraður“, að það er alsiða að gera það, bæði í blöðum og í umræðum manna á milli. Það þykir enda vera sjálfsagt, oft og tíðum. Því að málsmeðferð á að vera opinber, og dómurinn er oft birtur í opinberum blöðum, til þess að almenningur geti fylgst með í gangi málsins og sjeð, hvernig dómstólamir rækja störf sín. Þó að þeir sjeu sjálfstæðir í rauninni, og enginn geti skipað þeim fyrir um, hvernig þeir eigi að skilja einhver lagaákvæði, þá eru dómarar, eins og aðrir starfsmenn ríkisins, undir „krítik“. Enda væri það ekki heppilegt, ef þeir væru alveg yfir það hafnir að vera „krítiseraðir“ í blöðum og tímaritum, eða af almenningsálitinu. Jeg sje því ekki, hvers vegna löggjafarvaldið ætti að vera lægra sett í þessu en einstakir menn, eða t. d. blöð. Það væri æði undarlegt, ef sá hinn sami maður, sem er viðurkent að má láta uppi álit sitt um dómsúrskurð utan þings, í ræðu og riti, mætti það svo ekki innan veggja þingsins. — Vitanlegt er þó, sem ekki þarf að taka fram, að það verður að vera innan hóflegra takmarka, sem sæma umræðum hjer á þessum stað.

Það er rjett hjá hæstv. forsætisráðh. (J. M.), að það hefir ekki verið venja að áfrýja opinb. lögreglumálum til hæstarjettar, nema um eitthvert stórvægilegt mál væri að ræða, og sá, sem fyrir sök er hafður, krefðist þess. Nú hefir hann ekki gert það í þessu tilfelli. En hins vegar geta stundum legið ríkar ástæður til þess, að leita úrskurðar æðsta dómsvalds um sum atriði, þó að málið hafi, sem slíkt, verið rekið sem alment lögreglumál. Það fer eftir ákveðnum „pósitivum“ reglum í lögum, hvort eitt mál er alment lögreglumál eða sakamál. En þegar nú er að ræða um skilning á lögum, sem vafi leikur á um, þá virðast ríkar ástæður til þess, að leita úrskurðar æðsta dómstóls; ef t. d. margir líta svo á, að það sjeu tæplega lög, sem yfirrjettur hefir dæmt. Annars er litið svo á um sum mál, sem eru í sjálfu sjer mestu smámál, að það sje rjett að veita uppreistarleyfi, til þess að þau komist undir æðsta dómstól, t. d. skattamál. Einu sinni, man jeg, var spursmál um, hvort maður ætti að greiða ljóstoll, sem var lítil upphæð. Þetta kemur ekki svo sjaldan fyrir um skattamál. Það skiftir í sjálfu sjer litlu máli, hvort þessi maður væri talinn gjaldskyldur eða ekki um 4–5 krónur, en af því að atriðið þykir alment mikils virði, að fá úrskurð um það í eitt skifti fyrir öll, þá er farin þessi leið. — Hjer er dálítið svipað ástatt. Það er spurt um, hvernig eigi að skilja ákveðin lög, sem skiftir miklu máli í framtíðinni, því að af þessum dómi í máli Magnúsar Blöndahls leiðir það, að hver og einn farþegi, sem kemur til landsins, getur haft meðferðis í farangri sínum skattskyldar vörur, án þess að gefa það upp og verða dæmdur sekur. Hann þarf ekki annað en að hafa látið einhvern „Sörensen“ eða „Petersen“ hafa beðið sig fyrir þetta ílát með því, sem í því var, til eigandans, sem getur verið Jón Jónsson í Reykjavík. Niðurstaðan af dóminum verður þessi. Hvort sem nú þessir menn fyrirfinnast eða ekki, þá verður sögusögn farþegans væntanlega tekin gild. Það hljóta allir að sjá, hvort sem hjer er um bannlögin að ræða eða ekki, að þetta hefir víðtækar afleiðingar í öllum lögum. Ef jeg t. d. kæmi með nokkur kg. af tóbaki frá Danmörku, og segðist ekki hafa vitað, hvað sendingin hafði að geyma, þá ætti að taka sögu mína góða og gilda. Auk þess sýnist mjer fullhart, að ef skipstjóri á að bera ábyrgð á öllu dóti, sem með skipinu er, þá skuli óbreyttur farþegi sæta svona mikið betri meðferð. Jeg hygg, að skipstjóri eigi ilt með að rannsaka svo hvern krók og kima í öllu skipinu, að ekki sje hægt að fela eitthvað. Það er ómögulegt að krefjast þess, Aftur á móti skyldi maður ætla, að það væri ekki ofverk hvers farþega út af fyrir sig að hafa nánar gætur á, hvað er í farangri hans. Hann er ekki skyldur að taka kassa fyrir einhvern og einhvern, án þess að hafa grun um, hvað í honum er. En skipstjóri er aftur skyldur að taka við „fragt“ í skipið. Um það, hvort í slíkum lagabrotum eigi að heimta fullkominn ásetning og vilja farþega, það er meira en lítið vafamál, með tilliti til ábyrgðar skipstjóra, sem hlýtur að vera óafvitandi, hvað er í hans dóti. — Undirrjettur leit líka svo á, að það bæri að álíta farþega fullkomlega vitandi um, hvað hann flytti. Sjerstaklega þegar nú þar við bætist, að greinargerð sú, sem gerð er fyrir kassanum, er ekki trúleg, þótt hún að vísu geti verið sönn.

Jeg man, að jeg rakst einu sinni á dóm, þar sem maður var ákærður fyrir að hafa stolið einhverjum smávægilegum hlut. Maðurinn játaði, að hann hefði tekið hlutinn, en hjelt því auk þess fram, að meiningin hefði ekki verið sú, að stela hlutnum, heldur að eins að nota hann um stundarsakir Eftir atvikum taldi yfirrjettur sögu mannsins ekki trúanlega og dæmdi hann fyrir þjófnað. Og þegar maður les dómsskjölin, þá getur maður ekki fallist á annað en að þessi dómur hafi verið rjettur. Dómstólarnir taka ekki alt trúanlegt, sem sakborningur segir. Það getur verið meira og minna ótrúlegt. En auk þess sje jeg ekki betur en að annar þessara dóma, sem hjer ræðir um, eigi að teljast ómerkur. Mjer skilst, að einn af dómendunum hefði átt að víkja sæti ótilkvaddur. Því er haldið fram af dómurum, að dómari eigi að víkja sæti, ef hann er systkinabarn við sakborning, eða nánar skyldur. — Það kendi Nellemann að minsta kosti og Deuntzer, að þegar svo væri ástatt, ætti hann að víkja „ex officio“, og slíkur dómur væri ógildur „ex officio“. Eins og hjer var ástatt, þá finst mjer, að það hefði átt að ráða nokkru um, að dóminum hefði verið áfrýjað. Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) mun hafa verið utanlands, þegar þetta var ráðið. Það var víst hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.), sem þá gegndi dómsmálastörfum jafnframt. Jeg skal ekki segja, hvort hann man nokkuð eftir þessu. En það er ekki ósennilegt, að hann hafi í þessu farið eftir ráðum skrifstofustjóra síns, sem er lögfræðingur, því að þessi hæstv. ráðherra (S. J.) er ekki sjálfur lögfræðingur að prófi, þótt hann sje það má ske af guðs náð, eins og sumir aðrir.

Jeg vildi nú spyrja hæstv. stjórn, hvort það sje endanlega ákveðið, að þessum dómi verði ekki áfrýjað. Mjer skilst, að það sje ekkert talsmál um dóm í máli H. Th. H., því hann hefir borgað þá sekt, sem honum var dæmd, og verið tekið við henni. En spurningin er um dóminn í máli Magnúsar Th. S. Blöndahls. — Jeg hefi enn ekki fengið ákveðið svar um það, hvort þeim dómi verði áfrýjað eða ekki. Mjer þætti gott að fræðast um, hvort búið er að rita það á dómsgerð og gefa það sökunaut til kynna. Nú má enginn skilja þetta svo, að bæði mjer og hv. þm. Borgf. (P. O.), sem flytjum fyrirspurnina, liggi ekki í ljettu rúmi, hvort þessi maður sleppi persónulega eða ekki. Við höfum enga ástæðu til að vilja láta neitt bitna á honum. En þeir, sem vilja gefa gaum afleiðingum af þessum dómi, hljóta að sjá, að hjer er um svo mikilvægt atriði að ræða, að það væri mjög æskilegt að fá um það úrskurð æðsta dómstóls. Ef það telst mögulegt að skjóta því til hæstarjettar, þegar hann er fluttur til landsins, þá er vorkunnarmál, þó að stjórnin hafi ekki viljað vísa því út fyrir „pollinn“, sjerstaklega ef svo slysalega vill til, að þessi dómur er ógildur „ex officio“. Það væri mjög leiðinlegt að hafa áfrýjað málinu til hæstarjettar í Danmörku, ef svo er. Það er mjög óheppilegt, þegar það hefir komið fyrir, að dómur yfirrjettar hefir verið gerður ónýtur og málið sent heim aftur. — Þegar svo stendur á, er það ástæða til að láta áfrýjun falla niður.