20.09.1919
Neðri deild: 69. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í C-deild Alþingistíðinda. (3941)

162. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg sagði áðan, að það væri leyfilegt að flytja þessa fyrirspurn. Að því leyti kemur okkur hv. 2. þm. Árn. (E. A.) saman. Hins vegar taldi jeg varhugavert að taka til opinberrar umræðu dómsgerðir yfirleitt. Og jeg tel vafasamt, að það mundi auka virðingu fyrir dómstólunum, ef það færi að tíðkast. En það skal játað, áð þessi fyrirspurn var mjög hóflega flutt og æsingarlaust. En samt sem áður tel jeg dálítið athugavert að fara að taka svona mál hjer inn á þing til umræðu. Annar hv. flm. fyrirspurnarinnar (E. A.) hefir nú talað alllangt mál. En hvernig á maður að skilja ræðu hans. Ljet hann uppi álit sitt sem prófessor í lögum, eða talaði hann sem aukadómari í yfirrjetti, eða að eins sem 2. þm. Árn. Það er auðvitað, að hann, sem sjerstaklega lærður lögfræðingur, láti skoðun sína í ljós. En jeg er ekki viss um, að það sje jafneðlilegt, að hann geri það sem hv. 2. þm. Árn. Því það er ekki sama, hvort þingið dæmir í þessu máli, eða almenningur. Alveg eins og það þætti sjálfsagt óviðfeldið, ef dómstólarnir færu að finna að gerðum þingsins, t. d. að það skuli gefa út hin eða þessi lög.

Jeg held, að það sje allvarhugavert, að dómstólarnir eða löggjafarvaldið og umboðsvaldið fari að seilast hvert inn í annars verkahring, nema þegar nauðsyn ber til, með að skýra lög eða þess háttar. En það, sem annars mestu skiftir í þessu máli, og það, sem mjer skildist hv. 2. þm. Árn. (E. A.) viðurkenna, er hvort ekki mundi hafa verið rjett að áfrýja ekki þessum dómi. Og það var einmitt með þetta fyrir augum, sem jeg áleit sjálfsagt, að við tækjum hæstarjett heim til landsins, að meðan hann er í Danmörku verðum við að sætta okkur við, þó einhver dómur sje ófullkominn.

Hinni spurningunni, um það, hvort ekki sjeu tiltök að áfrýja dómnum til hæstarjettar eftir að hann er fluttur heim, get jeg ekki alveg svarað til fullnustu.

Það kom náttúrlega engin yfirlýsing gegn þeim, sem sýknaður var. En sem sagt, það er lögfræðileg spurning, sem jeg hefi ekki áttað mig á til hlítar, hvort þetta sje hægt eða ekki. Þori jeg því ekkert um það að segja.

En annars hefði jeg gjarnan viljað njóta ráða og álits hv. 2. þm. Árn. (E. A.) um það, hvort þetta sje hægt eða ekki. Og jeg get viðurkent, að þessi spurning er í sjálfu sjer svo mikilvæg, að ástæða er til að leita álits æðsta dómstóls innanlands, og það býst jeg við að megi nægja.

En jeg endurtek það, að þótt jeg hefði verið heima, þá hefði jeg ekki, út frá skoðun minni á máli þessu, í sambandi við hæstarjett, treysti mjer til að áfrýja til hans.

En annars held jeg, að það geti vel komið fyrir, að ýmsir verði óánægðir með að hafa innlendan æðsta dómstól. Og mjer var það ljóst, er jeg rjeði af að flytja frv. um hæstarjett, að það væri mjög örðugt, í svo fárnennu landi, að skipa hæstarjett, sem trygði eins vel, að allir næðu rjetti sínum, og æðstu dómstólar í hinum stærri þjóðlöndum. En við verðum að búa sem mest við það, sem við höfum sjálfir.