04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í C-deild Alþingistíðinda. (3959)

108. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi í Siglufirði

Flm. (Stefán Stefánsson):

Það er rjett, að presturinn hefir þegar samþ. söluna, eða talið sig henni meðmæltan. En jeg hygg, að engum geti blandast hugur um það, hvort muni betra bæjarfjelaginu, að fá landið selt eða leigt, og eiga þannig undir högg að sækja til þessa eina manns — prestsins — um leigu á því. Segi jeg ekki þetta af því, að jeg geti ekki treyst núverandi presti til þess að koma þar vel fram, heldur af hinu, að leigt land kemur aldrei að sömu óháðu notum og sjálfseign, ekki síst þegar um afnot eins bæjarfjelags er að ræða. Sem sagt, bæjarstjórnin fær ekki óhindruð yfirráð yfir landinu fyr en það er hennar eða bæjarfjelagsins eign. Að vísu eru ýmsar bæjarlóðir, að jeg hygg, á fastri leigu um ákveðið árabil, en bæði mundi fjöldi lóða og alt hið óbygða eða óleigða byggingarsvæði þegar falla undir umráð bæjarstjórnarinnar, og má í sambandi við þau nauðsynlegu og sjálfsögðu umráð bæjarstjórnarinnar geta hafnarbryggjugerðarinnar, sem nú er fyrirhuguð og áætlað er að kosti um 600 þúsund krónur. Slíkt mannvirki er naumast að búast við að bæjarfjelagið byggi, að mestu á eigin spýtur, á annara lóð. — Það er gamalt óyndisúrræði að beita þau mál, sem menn eru mótfallnir, þeim tökum, að segja þau ekki nægilega upplýst eða undirbúin. Hjer verður því ekki með nokkurri sanngirni við borið, því eins og jeg hefi áður sagt, má fá enn nákvæmari lýsingu á landinu, og ekki óhugsandi, að hægt verði að útvega af því uppdrátt Ef á að farga málinu þrátt fyrir þetta, þá er það fyrirsláttur að bera við ónógum undirbúningi og yfirskyn eitt. Mjer þykir fróðlegt að sjá, hvernig hv. þm. greiða nú atkv., því eftir því þykist jeg geta ráðið það, hvort þeir eru málinu hlyntir eða ekki.