30.07.1919
Neðri deild: 21. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (3961)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Gísli Sveinsson:

Jeg vildi að eins gera athugasemdir við tvö atriði, sem hjer hafa komið fram. Annað er um síldina eða till. háttv. þm. Árn. (S. S. og E. A.) um uppbót á flutningsgjaldi á fóðursíld. Jeg vil benda á það, að þetta mál getur snert fleiri. Það geta verið fleiri hjeruð, sem þurfa að fá ívilnun á þessu flutningsgjaldi. Jeg trúi því, að það sje rjett, sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) sagði um þetta mál í Árnes- og Rangárvallasýslu, að þeir hefðu orðið harðara úti en þeir, sem gátu fengið síldina beint. Mjer þykir það líka sennilegt, að þessar 2 kr. á síldartunnu muni nema því, sem síldin varð þeim dýrari. En svo ber þess að gæta, að þessi uppbót kemur aðallega þeim að notum, sem við hafnirnar búa, því að þá er eftir versta og dýrasta leiðin með síldina, svo að flutningskostnaðurinn verður það mikill, að þessar 2 kr. gera varla neitt til nje frá. Það er síður en svo, að jeg sje að hafa á móti þessari uppbót; jeg tel hana í alla staði rjetta og sanngjarna, en jeg vildi að eins benda á þetta til athugunar.

Hitt atriðið, sem jeg vildi gera athugasemd við, er brtt. á þgskj. 200. frá 1. þm. Húnv. (Þór. J). Jeg var ekki inni, þegar hann talaði fyrir þessari till. sinni, en mjer hefir skilist það, að af þessum styrk væru 6000 kr. ætlaðar til læknisbústaðar. Jeg vil benda á það, að þetta dregur dilk á eftir sjer, því að svo er ástatt í því nær öllum hjeruðum landins, að þar vantar læknisbústað. Jeg er þeirrar skoðunar, að landið eigi að sjá embættismönnum sínum fyrir bústað. Það er hart að halda uppi heilli stjett, skipa menn í embætti og senda þá svo til að gegna því — en hvert? Það getur farið svo, að hvergi sje hægt að fá inni fyrir slíka menn, síst svo að viðunandi sje, og á þetta kemst aldrei regla fyr en landið tekur að sjer að sjá um það. Ef litið er til Vestur- Skaftafellssýslu, þá hefir hún um árabil átt læknisbústað í Síðuhjeraði, en hún hefir haldið hann á sinn kostnað, og er eflaust farin að þreytast á því. Jeg get skotið því inn í, að þó að hjeraðið hafi svona mikið fyrir þessu, þá er það samt sem áður læknislaust. Síðuhjerað, sem liggur fyrir austan Mýrdalssand, hefir engan lækni öðru hvoru. Það þýðir lítið að tala um stofnun nýrra læknishjeraða, þegar læknar fást ekki í þau, sem fyrir eru, ekki einu sinni í jafngott hjerað og Síðuhjerað. Jeg hefi gert þennan útúrdúr til að benda á, að landið verður að fara betur með embættismenn sína en það gerir, og þá fyrst að útvega þeim bústað eða yfirleitt samastað.

Þá ætlaði jeg að víkja nokkrum orðum að fjárupphæðinni, sem áætluð er vegna „kvefpestarinnar“. Svo stóð á að Vestur- Skaftafellssýsla gat varið sig, og þar með alt Austurland og þá skyldu menn ætla, að slíkt hefði kostað ærið fje. Því vörnin var meira en nafnið eitt; það var hafður sjerstakur varðmaður eða menn og sjerstakir póstflutningar o. fl. En það var síður en svo, að þessi upphæð, sem til þess fór væri mikil: mjer liggur við að segja hana sáralitla, þó að alls eigi sje tekið tillit til þess skaða, sem pestin gerði að öðru leyti er nú er ætlað að reyna að bæta fyrir að litlum mun með kostnaðargreiðslum. Og til þess fer mest af hinni áætluðu upphæð. Það kostaði tæpt 1 þús. kr., eða nákvæmlega 990 kr. 20 aura, að verja Skaftafellssýslu og þar með alt Austurland. Af þessu má marka, hvort ekki hefði verið hægt, kostnaðarins vegna, að verja landið, og reynslan hefir sýnt, að það var hægt að öðru leyti.