18.09.1919
Neðri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (3971)

26. mál, laun embættismanna

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi ritað undir framhaldsnál. á þgskj. 883 með fyrirvara, og kemur sá fyrirvari að öðru leyti fram í brtt. þeim, sem jeg hefi leyft mjer að bera fram, ásamt hv. þm. Borgf. (P. O.), á þgskj. 847. Samt er ekki svo að skilja, að jeg sje að öðru leyti ánægður með frv., þótt jeg að þessu sinni vilji ekki gera frekari ágreining. Þessar brtt. lúta að eins að breytingum, sem hv. Ed. hefir gert á frv., og að mínu viti var lítil ástæða til að gera á því.

Brtt. eru í þrem stafliðum, og lúta að því, að færa aftur í samt lag ákvörðunina um tímatakmarkið 1925, að færa í samt lag ákvæðið um undirbúning verðlagsskrárinnar, að hún sje miðuð við það meðalverð, er fæst af verðlaginu í fjórum aðalkaupstöðum landsins, og enn fremur að færa í samt lag niðurlagsákvæði 33. gr., um uppbót presta, er í sveit búa.

Það ætti ekki að vera ástæða til að endurtaka það, sem áður hefir verið sagt um þessi atriði í deildinni, er frv. var afgreitt. Það var margtekið fram af þeim, sem þá mæltu með þessum ákvæðum, og er auðvitað flestum í fersku minni. Því var þá af mótstöðumönnunum haldið fram, að því er snertir tímaákvörðunina 1925, að með því væri svo gott sem loku skotið fyrir launabætur eftir þann tíma, eða þá að með því vildum við fylgismenn þessa ákvæðis lýsa yfir því, að dýrtíðinni skyldi vera lokið 1925. Það gefur nú að skilja, að slíkt er hrein og bein hártogun á ákvæðinu, því að eins og þá var tekið fram, getur ekkert annað í því falist en að ríkið sje ekki skuldbundið til að fylgja þessum lögum óbreyttum lengur en þetta. Þegar þar er komið, má gera breytingar, eftir því sem ástæður liggja til, og eftir því sem Alþingi þá þykir við eiga. Hvort þær ganga í þá átt, að rýmka launakjörin eða draga úr þeim, er hlutur, sem jeg ætla engu um að spá. En að menn þá verði búnir að sjá það, sem öllum er dulið nú, hvernig lögin koma niður, þarf ekki að efa, því að þá er reynslan fengin. Enda mætti líta svo á, ef þetta stæði óbreytt í 33. gr. eins og nú, að þótt lögunum megi breyta, þá sje embættismönnunum hjer gefið það fyrirheit, sem taka laun sín eftir frv., ef að lögum verður, eða taka embættið meðan ótímatakmarkaða ákvæðið gildir, að þessa uppbót skuli þeir hafa fyrir sitt leyti, meðan þeir sitja í embætti. Fyrirheitið væri þá það, að uppbótin skyldi ekki lækka seinna. Það er sem sje alment álitið, að ekki sje hægt að draga úr launum embættismanns, þótt jafnan sje hægt að auka við þau.

Að því er kemur til undirbúnings verðlagsskrárinnar, að miða við 4 aðalkaupstaðina í stað Reykjavíkur, hefir verið margtekið fram, að það er miklu vænlegra til að finna sanngjarnlegan mælikvarða eða meðalverð. Og þótt því sje haldið fram, að þetta sje erfiðleikum bundið vegna þess, að til þess þarf að útvega skýrslur um verðlag í öllum landsfjórðungum, þá skil jeg ekki, að nokkur taki slíka viðbáru í fullri alvöru. Hvað skyldi það kosta að fá skýrslur um þetta efni frá bæjarfógetum á Seyðisfirði, Ísafirði og Akureyri? Jeg skil ekki, að það sje sá erfiðisauki, að málið þurfi á því að stranda.

Miklu meira máli skiftir þá hitt, sem hv. frsm. (Þór. J.) hefir tekið fram, að langflestir embættismenn búa í eða við Reykjavík, og gæti því verið óhagur fyrir þá, ef þetta hefir þær afleiðingar, að verstuðullinn lækkaði og uppbótin yrði þar af leiðandi minni. En enginn hefir fært sönnur á, að þetta hefði þær afleiðingar. Hvorttveggja er jafnlíklegt, að verðstuðullinn hækki og lækki. En hjer á ekki að hugsa um það hvort einstakir menn hafa hag af þessu eða ekki, heldur að finna meðalverð, sem er meðalverð í raun og veru, eða sem næst því. En það fæst ekki með því að miða við einn stað á landinu.

Að því er kemur til ákvörðunarinnar um launauppbót presta í sveit, hefi jeg ekki annað að segja en það, sem jeg hefi tekið fram áður í deildinni, að sú uppbót, sem ætluð var eftir frv., eins og það fór hjeðan, var miklu ríflegri en stjórnarfrv. ætlaðist til, og eftir öllum atvikum virðist vera fullsómasamleg. Því er sem sje ekki hægt að neita, að á erfiðum tímum, eins og þessum, þegar dýrtíð er í landinu, þá eru töluverð hlunnindi því samfara að búa á góðri jörð í sveit, það er að segja ef engin sjerstök óáran er til lands og sjávar. Eins og allir vita, er færra þar að kaupa. Sá, sem í sveit býr, getur veitt sjer margt af því, sem hann annars þyrfti að kaupa. Finst mjer því þetta ákvæði sanngjarnlegt eins og það var þegar frv. fór hjeðan.

Jeg get nú látið mjer lynda þetta um brtt. okkar. En af því að a.-liður hennar hefir af vangá okkar flutningsmanna eða prentmiðjunnar orðið öðruvísi en vera átti, höfum við nú nýlega afhent á skrifstofunni brtt. við hana. Er það að vísu ekki nema orðabreyting, og ef deildin getur fallist á brtt. að efni til, hlýtur hún að fallast á brtt. við hana, því að þar er aðeins fært til rjetts máls það, sem óljóst var. Annars hefi jeg brtt. fyrirliggjandi skriflega og skal afhenda forseta hana, svo að hún sje til, ef hin verður ekki komin prentuð til atkvgr.

En ef þessi brtt. okkar háttv. þm. Borgf. (P. O.) verður ekki samþykt, og frv. að þessu leyti fært í sama horf og það var í, er það fór hjeðan úr deildinni, munum við flutningsmenn hennar ekki geta greitt frv. atkv., og eru allsterkar líkur fyrir því, að þá muni margir fleiri greiða atkv móti því með okkur.