28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárhagsnefndar (Magnús Guðmundsson):

Það hefur verið siður að gefa við 1. umr. fjárlagafrv. yfirlit yfir efnahag landssjóðs og landsins, og menn hafa efalaust vænst þess, að svo yrði einnig í þetta skifti. Jeg hefi orðið varbúinn af ýmsum ástæðum, en ætla þó að reyna að gefa yfirlit í stórum dráttum.

Það sýnist fróðlegt að gefa yfirlit yfir, hvernig efnahagurinn var fyrir stríðið eða í árslok 1914, og eins hvernig hann er nú eða við árslok 1918. Þetta væri auðvelt verk, ef það hefði verið siður að gera upp ,,status“ ríkissjóðs við hver áramót, en svo er ekki. Það má merkilegt heita, að öllum verslunum er gert það að skyldu, að gera efnahagsreikning við hver áramót, og sveitarstjórnum einnig, en sjálfur ríkissjóðurinn hefir ekki gert þetta. Landsreikningarnir eru að eins reikningur yfir tekjur og gjöld, og þess vegna er erfiðara en ella mundi að gefa þetta yfirlit. En það, sem hjer er um að ræða, er að athuga hvernig ástatt var í árslok 1918 og bera það saman við haginn í árslok 1914. Í þingbyrjun gaf hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) yfirlit yfir árið 1918 og skuldir landssjóðs um síðastl. áramót. Jeg skal taka það fram, að jeg hef ekkert fundið athugavert við þann reikning og ekki orðið var við, að aðrir hafi fett fingur út í hann. Jeg tel mjer því fyllilega óhætt að byggja á honum.

Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) gat þess að landið skuldaði á þeim tíma (í árslok 1918) 19,629,493.34 kr., en af þeirri upphæð var 1,000,000.00 ekki „formleg“ skuld, það er að segja, það var ekki búið að gefa skuldabrjef fyrir hendi. Þó var rjett að telja hana með, því fjeð var komið í ríkissjóð. Þetta er milj. frá Dönum til háskólans, sem ríkissjóður hefur tekið að láni. Skuldirnar eru þá rúmar 19½ milj., og mun jeg framvegis nefna að eins stærri tölur. Þá er að athuga, hvað til er upp í þessar skuldir. Fyrst er að telja rúmlega 9100 þús. kr. í landsversluninni. Þá er bókfært verð þriggja skipa um 3 milj. kr. Dýrtíðarlán um 284 þús. kr. Þau hafa aðallega verið veitt kaupstöðunum, Reykjavík 150 þús. og Ísafirði 100 þús., en hitt smálán og sumt endurgreitt nú. Þá er varasjóður landsverslunarinnar, og tel jeg hann 1 milj. í sjóði við áramót voru um 1,866 þús. kr. Þetta verður samtals 15.331,894, sem til er óeytt upp í skuldirnar, svo mismunurinn er 4,297,599.34 kr. eða rúmlega 4 milj.

Þá er að líta á, hvernig hagurinn hafi verið í árslok 1914, og þar fer jeg eftir landsreikningi fyrir það ár. Þá voru skuldir 2,721 þús. kr., en upp í það var þá í sjóði um 1 milj. Svo skuldirnar voru sem næst 1,721 þús. kr. Ef þetta er dregið frá raunverulegum skuldum í árslok 1918, þá verður eftir um 2½ milj., sem ætti þá að vera sú upphæð, sem við höfum tapað á stríðsárunum. En upp í þetta er nokkuð til. Má þar fyrst og fremst telja 400 þús. kr., sem lagðar hafa verið í Landsbankann, og það er fje, sem er á vöxtum og verður þess vegna að teljast til eigna, en ekki eyðslufjár. Þá er að geta þess, að viðlagasjóðurinn hefir rýrnað um 200 þús. kr. á þessum árum, og það verður að draga frá; einnig hefir veðbrjefaeignin rýrnað um 41 þús. kr., og dregst þetta hvorttveggja frá þessum 400 þús. kr., og verða þá eftir 189,700 kr. Tapið verður þá tæpar 2% milj. En hjer er alls ekki gengið nærri. Það er hægt að færa rök að því, að tapið er ekki svona mikið. Landssjóðsskipin áttu hjá landsversluninni 300 þús. kr. 31. des. 1918, og í bönkum 330 þús. kr. Þetta verða 630 þús. kr. Jeg vil þó ekki taka þetta til frádráttar, því verið getur, ef til vill að skipin falli í verði, og verður að setja nokkuð þar á móti. Ef maður nú tæki og drægi það frá tapinu, þá verða eftir um 2 milj. kr., og jeg held að það sje upphæðin, sem hægt sje að segja að við höfum tapað á ófriðarárunum. Ef gengið er út frá 100 þús. íbúum, þá verður tapið sem næst 20 kr. á mann.

Jeg get ímyndað mjer, að sumum þyki óvarlegt að áætla varasjóð landsverslunarinnar svo hátt, sem jeg hefi gert, því mikið sje eftir að selja og ekki sje að vita, hvað á því kann að tapast. Jeg held samt, að jeg hafi áætlað fullvarlega, samkvæmt þeim gögnum, sem fyrir liggja. Samkvæmt reikningi verslunarinnar 31. des. 1918 er varasjóður hennar 1.200 þús. kr. Svo má ganga út frá því, að landsverslunin græði á þessu ári, og held jeg, að þá sje ekki óvarlegt að áætla 1½ milj. í varasjóði í árslok 1919. Það ætti því að vera varlegt að áætla þó miljón fyrir tapi, rýrnun á vöruni o. fl., og það því fremur, sem sú stefna er upp tekin, að vinna hallann á salti upp með tolli og hallann á kolum með einkasölu.

Það er að sönnu svo, að lítið hefir verið framkvæmt á þessum árum, en þó er ekki hægt að segja, að alger kyrstaða hafi verið. Vegir hafa verið lagðir, nýjar símalínur gerðar og vitar bygðir. Og síma og vita má skoða sem arðberandi eign. Það hefir verið lagt fje í ýmsa sjóði, svo sem byggingarsjóð, ellistyrktarsjóði, Landhelgissjóð, Ræktunarsjóð, Fiskiveiðasjóð o. fl., svo að alveg horfnar eru þessar 2 miljónir ekki.

Þetta var þá fjárhagurinn í árslok 1918 og yfirlit yfir tapið á ófriðarárunum, en þá er að líta til ársins 1919. Í fjárlögunum eru tekjurnar áætlaðar 2,362,300 kr., og í viðbót við þær má telja tekjur af stimpilgjaldi, sem ekki er tekið með í fjár. vegna þess, að lögin um stimpilgjald voru eigi samþ. fyr en 1918. Þessar tekjur áætla jeg 400,000 kr., eins og gert er í fjárlagafrv. stjórnarinnar fyrir næsta fjárhagstímabil. Þá er síldartunnutollurinn, og áætla jeg hann 600 þús., og held jeg að það sje óhætt.

Eftir skýrslum sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu má búast við, að hann verði 500,000 kr. þar í sýslu, og er þá ekki of mikið að gera ráð fyrir, að hann nemi 100,000 kr. annarsstaðar frá. Næst er að telja hækkun á útflutningsgjaldi, 400,000 kr., og aðflutningsgjaldi 100,000 kr., hvorttveggja samkvæmt lögum frá þessu þingi. Tekjurnar utan fjárlaga nema því 1,500,000 kr., og verða þá tekjurnar allar 3,862,300 kr. Þá er að athuga gjöldin á árinu. Fyrst eru 2,778,000 kr. í fjárlögum og 450 þús. í fjáraukalögum. Sú upphæð er tekin eftir fjáraukalögunum við 3. umr. í Ed., og nefndin hjer gerir ekki ráð fyrir breytingum. Því næst er dýrtíðaruppbótin 1919. Hana geri jeg 600,000 kr., en er líklega nokkuð lágt, vegna þeirra breytinga sem nú hefir verið gerð um að láta uppbótina síðari hluta ársins fara eftir verðstuðli 33. gr. launafrv. Gjöldin ættu því samtals að nema 3.828,000 kr., og er það tæplega eins mikið og tekjurnar. Jeg vona, að þetta fari ekki fjarri sanni., því þó að gjöldin sjeu ef til vill lágt áætluð, þá er það áreiðanlegt að tekjurnar fara fram úr áætlun; þar á jeg sjerstaklega við tekjuskattinn, sem áætlaður er 50,000 kr., en verður 550,000, og vinst þá þar 500.000 kr., og er það vegna þeirra breytinga, sem þingið 1917 gerði á tekjuskattslögunum en ekki var tekið tillit til þegar áætlunin var samin. Það lítur líka út fyrir, að sumir liðir aðrir fari fram úr áætlun, en sumir geta vitanlega orðið svo lágir, að þeir nái henni ekki. En þó held jeg að minna verði um það. Jeg marka það aðallega á því, að nú fyrir nokkrum vikum var komið inn af tekjum um 2,000,000 kr., en á sama tíma 1917 að eins um 1,000,000 kr. Af öllu þessu er hægt að draga þá ályktun, að þetta ár muni bera sig, og er ekki óvarlega farið í sakirnar, þó það sje sagt. Það er aðallega að þakka þeim tekjuauka frv., sem samþ. hafa verið á þessu þingi, og eins bráðabirgðalögunum um síldartunnutollinn. Hann virðist hafa verið heppilega valinn, gefur mikið í aðra hönd og hefir ekki mælst illa fyrir.

Jeg gat þess, að hækkun á útflutningsgjaldi er áætluð 400,000.00 kr. — Það er reiknað þannig út samkvæmt hinum nýju lögum um útflutningsgjald:

1. Af 200,000 síldartunnum,

1.50 kr. pr. tn kr. 300,000.00

2. Af landbúnaðarafurðum — 50,000.00

3. Af fiski öðrum en síld . . — 50,000.00

Samtals kr. 400,000.00

Þetta mun varlega áætlað, því fyrir viku síðan var komið á land af síld nokkuð yfir 200 þús. tunnur. Ef þetta væri nokkurn veginn rjett áætlað, þá yrði hagur ríkissjóðs í árslok 1919 nokkuð líkur og 1918.

En þá kemur að næsta fjárhagstímabili. Þar er útlitið ekki eins glæsilegt. Þar eru áætluð gjöld fyrir bæði árin samkvæmt fjárlagafrv. stjórnarinnar kr. 8,151,510.02

og auk þess viðbót samkvæmt till. fjárveitinganefndar — 1,305,094.00

Svo eru launabætur sem nema kr. 2,000,000.00

Gjöldin verða því samtals kr. 11,456.504.02

Þar upp í er til samkvæmt fjárlögum áætlað kr. 7,803.600.00

og auk þess tekjuaukar

samþyktir nú — 1,300,000.00

Þetta verður samtals kr. 9,103.600.00

Til þess að tekjur og gjöld stæðust á kemur þá til að vanta kr. 2.352,904.02

Þar við bætist að altaf koma einhver gjöld samkv. væntanlegum fjáraukal. gjöld eftir nýjum og eldri 1., þingsál. o. fl. Upp í þetta kemur væntanlegur tekjuafgangur. — Jeg vil geta þess, að jeg hygg, að tekjur sjeu áætlaðar líkt nú og 1917, en gjöldin held jeg að sjeu áætluð hlutfallslega hærri nú en þá, og verð jeg að telja þetta heppilegra fyrir ríkissjóðinn, því að það aftrar fremur frá óvarlegum fjárveitingum, sem virðast nokkuð tíðar.

Þá kemur líka til álita að ekki er gott að giska á, hvað tekjur kunna að fara fram úr áætlun á næsta fjárhagstímabili. Það er fullerfitt að áætla fyrir 1 ár fyrirfram auk heldur 2 ár.

Nokkuð öðru máli er að gegna um árið 1919. Útlitið er þar fremur gott. Þar veit maður nokkurn veginn um tekjurnar. En hins vegar er ekki slíkri reynslu til að dreifa fyrir næstu ár. Og því er rjett að fara gætilega. Jeg held, að ef ekkert verður að gert frekar í skattaálagningu. Þá megi búast við að tekjuhalli í árslok 1921 verði ekki minni en 2.000.000 kr. Og það verð jeg að segja að er langt of mikið. — Þetta verður enn þá auðsærra þegar það er athugað, að nú eru tekin út af fjárlögunum ýms stór fyrirtæki, sem stórar fjárhæðir fara til svo sem lagning síma, bygging brúa o. fl. —

Meiningin er að taka sjerstök lán til þessara fyrirtækja, og þau gera fjárhaginn sýnilega verri, einkum þar sem hjer er um slíkt að ræða, sem ekki gefur af sjer beinan ágóða, t. d. bygging brúa o. fl. Af þessu er auðsætt að það nær engri átt að halda því fram, eins og sumir virðast gera að ekki þurfi fleiri tekjuauka. — Þeir eru einmitt bráðnauðsynlegir. — Jeg býst ekki við að neitt að mun verði dregið úr útgjöldunum. — Þó get jeg ekki annað sagt en að mjer væri ósárt um, þótt sumt af till. fjárveitinganefndar væri felt t. d. 20.000 kr. til Olympíuleikanna. Það finst mjer satt að segja vera sama og að kasta peningunum í sjóinn.

Þó þetta líti æði illa út eins og nú er. Þá mætti reyna að bæta úr því með auknum sköttum. Og það yrði þá hlutverk stjórnarinnar að bíta það undir næsta þing. — Þess er ekki að vænta að hv. þingmenn geti sjálfir gert þetta nú. Þau tekjuaukafrv., sem borin hafa verið hjer fram hafa fengið misjafnar undirtektir, og sum jafnvel þótt óþörf eða ósanngjörn. Það lítur út fyrir, að einstaka þm. hafi þá skoðun, að við höfum ekkert við meiri peninga að gera. (B. K.: Það var meðan engin skýrsla var komin.) — Nú er hún komin, og má ske það hafi einhver áhrif. — Auðsætt er af því sem jeg nú hefi greint að hættan er ekki að baki, heldur fram undan. Við höfum komist tiltölulega vel af á meðan á stríðinu stóð. Það hefir ekki safnast fyrir meira en 2.000.000.00 kr. skuld. Og hygg jeg, að það sje ekki mikið. saman borið við ýms önnur ríki hlutfallslega. Á því er ekki vafi, að hætta er fram undan. Við verðum að sníða gjöldin eftir tekjunum. Það tjáir ekki að safna meiri skuldum. Við verðum að leggja aðaláhersluna á að afla ríkinu tekna er svari til útgjaldanna. Og óþarfa útgjöld verðum vjer að varast sem heitan eld.