03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárveitinganefndar (Magnús Pjetursson):

Eins og jeg gat um áðan, þá ætla jeg við umr. um þenna kafla fjárlaganna að svara nokkru ræðu hæstv. fjármálaráðherra (S. E.). Hana mátti fyrst og fremst skilja svo, að allur væntanlegur halli á fjárlögunum væri að kenna fjárveitinganefnd.

Jeg held, að við úr fjárveitinganefnd og stjórnin getum komið okkur saman um að skifta jafnt á milli okkar hallanum, og meira að segja er það ekki of mikið, þótt stjórnin taki helminginn á sitt bak. Það er ekki að marka, þótt í fjárlögum stjórnarinnar hafi upphaflega ekki verið nema 300 þús. kr. tekjuhalli, því hún bar jafnframt fram frv. það til launalaga, sem gert er ráð fyrir að auki útgjöldin um nálægt 2 miljónir. Stjórnin hefir því í raun og veru skilað frv. til þingsins með nærri 2½ milj. kr. tekjuhalla, að minsta kosti ef teknar eru með hækkanir á áætlunarupphæðum og till, sem nefndin tók upp samkvæmt ósk stjórnarinnar.

Jeg þykist vita, að stjórnin hafi þóst bæta úr skák með því, að koma fram með tekjuaukafrv. Það er að vísu rjett, að hún hafi komið fram með þau, en þau nema ekki meiru en rúmri 1 milj. Stjórnin á því enn eftir að jafna um 1 milj. kr. halla, sem hún sjálf er valdandi að samkv. tillögum sínum. Á þetta vil jeg benda hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), svo að hann sjái sök sína, að tekjuhallinn er ekki eingöngu að kenna örlæti fjárveitinganefndar.

Þá komst hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) að þeirri niðurstöðu, að það væri óvarlegt af fjárveitinganefnd að skila fjárlögunum svona af sjer. Jeg benti á, að fjárveitinganefnd gat ekki gert annað eða farið öðruvísi að, og jafnframt að eina leiðin til að bæta úr þessu væri að afla ríkissjóði meiri tekna. Framkvæmdirnar á ekki og má ekki takmarka. Vona jeg, er um þennan kafla er að ræða, að hann (S. E.) bendi á, hvaða till. fjárveitinganefndar ætti og mætti sleppa. úr því hann er þeirrar skoðunar, að of langt sje gengið.

Hæstv. fjármálaráðh. mintist að eins á, hvort ekki mætti spara eitthvað af vegafjenu, og spurði, hvort þörf væri á að framkvæma svo mikið á þessu sviði. Það hefir nú gengið svo um þessar vegabætur, að þær hafa orðið að lúta mjög svo í lægra haldi þessi stríðsárin. en þó er því svo farið um vegabætur, að þótt þær gefi ekki beinan arð af sjer, þá er svo mikill óbeinn hagnaður af þeim fyrir landbúnaðinn og allar samgöngur á landi, að ókleift má heita að láta þær sitja á hakanum. Nú á tímum er altaf verið að tala um, að spara verði vinnukraftinn í landinu; eitt ráðið til þess er, að bændur fái sem besta vegi og eigi sem auðveldast með flutninga til sín. Eins og sjá má af nefndarálitinu og fjárlagafrv., er svo langt frá, að stjórnin hafi hugsað sjer nokkrar framfarir á vegagerðum, að á síðustu 10 árum hefir aldrei verið gert ráð fyrir jafnlitlum framkvæmdum á því sviði og stjórnin gerði í frv. sínu. Jeg vona, að þetta hafi verið misskilningur hjá hæstv. stjórn, því jeg get ekki trúað, að hún ætli að láta vegina gjalda þess, þótt útgjöldin aukist til muna meðfram vegna hins nýja fullveldis.

Þá var hæstv. fjármálaráðh. að tala um það, að ekki mætti að eins hugsa um það eitt, sem þyrfti að framkvæma, heldur ætti að hugsa um það, hvað væri bráðnauðsynlegt að framkvæma. Þetta er alveg rjett, en jeg held, að tekjuhallinn væri dálítið stærri, ef nefndin hefði tekið alt upp í fjárlögin, sem þyrfti að vera þar. Hún tók ekki nema það eitt, sem hún taldi bráðnauðsynlegt og ekki þyldi neina bið, svo framarlega, sem ekki ætti að kippa fótunum undan öllum framkvæmdum, svo sem vegagerð, símalagningu, brúargerð o. fl., sem ráðgert hafði verið fyrir stríð.

Þá mintist hæstv. fjármálaráðh. á, að nýir skattar væru óvinsælir hjá þjóðinni; það er að vísu satt en þó hygg jeg, að alþýðu manna þætti enn verra að heftar yrðu allar þær framkvæmdir, sem gætu komið atvinnuvegunum að liði.

Svo virtist, sem hæstv. fjármálaráðh. þætti varhugavert að lánaleiðin væri farin. Jeg skal þá strax, úr því jeg mintist á þetta, fara nokkru nánar inn á það atriði, þó jeg eiginlega ekki sje komin að því, ef farið væri eftir rjettri röð frv. Eins og oft hefir verið um getið, sá nefndin, að eftir því, sem skattamálum og tekjum ríkisins er nú sem stendur komið, var ekki unt að framkvæma af tekjum eins fjárhagstímabils eins mikil verk eins og nauðsynlegt var til þess, að ekki yrði afturhald frá því, sem var á eðlilegum tímum. Virtist þá eina ráðið að láta framkvæma nokkuð fyrir lánsfje, til þess að dreifa útgjöldunum á fleiri ára bil. Og þar sem hjer er um þær framkvæmdir að ræða, svo sem brýrnar, sem eru þannig gerðar, að þær geta, eða eiga að geta, staðið svo að segja um aldur og æfi, þá virðist vera mjög eðlilegt, að eftirkomendurnir beri einnig að nokkru, gjöldin við þær framkvæmdir, því þeir hafa engu síður þeirra not, og með þeim er verið að búa í haginn fyrir framtíðina.

Þessi aðferð er heldur ekkert nýmæli. Þingið hefir farið þessa leið með símalögunum, og á síðasta þingi kom fram svipuð till. um vitagerðir. Hún náði að vísu ekki fram að ganga, en það var ekki fyrir þá skuld, að þingið væri stefnunni mótfallið.

Jeg get þess vegna ekki sjeð, að hjer sje um neinar hliðargötur að ræða, þó að haldið væri áfram á þessari braut, sem þingið áður er komið inn á.

Sama má segja um húsagerðirnar, sem ætlast er til að framkvæmdar verði með lánum. Mjer finst líkt komið á með þær og brýrnar í framtíðinni. Hvorttveggja er tryggingarráðstöfun fyrir eftirkomendurna.

Út af þessu, og framkomu hæstv. fjármálaráðh. gagnvart nefndinni í þessum atriðum, jeg skjóta þeirri spurningu til stjórnarinnar, hvort henni virkilega þyki betra að taka stóra fjárhæð upp í fjárlagafrv. til bygginga heldur en að velja þá leið að taka lán; því það hefði orðið að gera, ef nefndin hefði orðið við tilmælum stjórnarinnar, og þessu til sönnunar skal jeg geta þess, að komið hefir fram ósk um að byggja viðbót við hælið á Kleppi. Þetta mundi kosta um milj., og erindi um þetta sendi stjórnin þó með sínum bestu meðmælum, till. um ½ milj. kr. gjaldauka. Ekki var þetta fjárveitinganefndin, og má nú hæstv. stjórn stinga hendinni í sinn eigin barm.

Þá var einnig till. um að byggja upp íbúðarhús á Hvanneyri, sem öllum kemur saman um að verði að byggja. Ef nefndin hefði haldið þessu hvorttveggja innan ramma fjárlaganna, þá hefði tekjuhallinn orðið 600 þús. kr. meiri en raun er á, og skil jeg ekki í hæstv. fjármálaráðh., ef hann teldi þá leið betri en lánaleiðina, sem nefndin vill fara.

Hæstv. fjármálaráðh. gat þess, að sterkasti bakhjarlinn til þess að halda fullveldi landsins væri góður fjárhagur. Þetta er vitanlega alveg rjett. En öflugasta og eina stoðin og sterkasti bakhjarl góðs fjárhags er efling atvinnuveganna. Þetta var nefndinni ljóst. Ef skynsamlega væri að farið og vel stjórnað, ættu þessar framkvæmdir, sem nefndin vill að gerðar sjeu fyrir lánsfje, ekki að verða á aðra lund en þá er bændur taka lán til þess að bæta jarðir sínar, til þess að búið beri sig því betur, til þess að búið gefi honum betri arð. Efling atvinnuveganna er á sama hátt til þess að auka tekjur landssjóðs, til þess að þjóðarbúskapurinn beri sig betur.

En stjórnin óttast, að við getum ekki fengið lán erlendis. Jeg skal ekki segja um, hvort þetta er rjett. Hæstv. fjármálaráðh. ætti að vita gerst um það. En kynlegt þykir mjer það, að ríki, sem ekki skuldar raunverulega meira en sem svarar tekjum eins árs, skuli ekki geta fengið lán til nauðsynlegra og arðvænlegra framkvæmda. Fyr má nú vera vantraust á lántraust landsins. Jeg held, að jeg þurfi svo ekki að fjölyrða frekar um ræðu hæstv. fjármálaráðh. að þessu sinni.

Þá skal jeg snúa mjer að brtt. nefndarinnar. Jeg þarf ekki að tefja við smábrtt. hennar við 12. gr. það er gerð grein fyrir þeim í nál.

En þá er 15. brtt. við 12. gr., um að hækka styrkinn til Röntgenstofnunarinnar. Þessi liður er einn af þeim, sem hlaut að hækka. Starfrækslan hefir kostað á sjöunda þúsund. En stjórnin hafði áætlað einar 1600 kr. Þessu vildi nefndin kippa í lag, til þess að ekki væri verið að sýna rangar tölur.

Jeg held, að jeg sleppi að tala um fleiri brtt. við 12. gr. í þetta skifti. Jeg vonast til, að menn sýni nefndinni þá kurteisi, að koma fram með athugasemdir við þær, ef þeim fullnægir ekki greinargerðin í nál. Og ef einhverjir hafa sjerstaklega á móti þeim, vænti jeg, að þeir geri nefndinni viðvart um það, áður en þeir drepa þær.

Næstar eru brtt. við 13. gr. A., um póstmálin. Þessi brtt. fer fram á, að liðurinn hækki um 500 kr. Nefndinni þótti skrítið að sjá það, að stjórnin skyldi klípa 500 kr. af þessum 11 þús. kr. lið, sem póstmeistari hafði áætlað. Þetta gat nefndin ekki skilið. Eins og öllum þm. er kunnugt, er póstmeistari einn af þeim mönnum, sem ekki gerir till. til stjórnarinnar í óhófi. Hann er ekki vanur að fara fram á meira en brýnasta nauðsyn býður.

Þá kem jeg að brtt. við 13. gr. B., um vegamálin. Skal jeg minnast fyrst á 28., 29., 30. og 31. brtt., sem ekki fela í sjer verklegar framkvæmdir.

Meðal þeirra liða, sem nefndin hefir lagt til að hækkaðir verði, er ferðakostnaður vegamálastjóra. Nefndin hefir hækkað hann um 500 kr., eftir áætlun hans. Nefndin leit svo á, að honum væri því meiri nauðsyn á að ferðast, sem framkvæmdir í vegamálum ykjust, og vildi síst láta þennan lið benda til þess, að vegamálastjórinn ætti ekki að ferðast eftir því, sem hann teldi nauðsynlegt.

Þá er hækkunin til verkfróðra aðstoðarmanna. Hún er gerð eftir till. vegamálastjóra. Hann kvaðst ekki geta komist af með minna en 8000 kr. til aðstoðarmanna, og er þó ætlast til, að aðstoðarverkfræðingnum verði ekki borguð laun af þessari upphæð.

Þá er gert ráð fyrir, að athugasemdin aftan við þennan lið falli burt, af því að þessar vatnsveituframkvæmdir hverfa nú undir búnaðarfjelagið. Þó má ekki skilja þetta svo, að nefndin geti ekki gert sjer í hugarlund, að komið geti til greina, að vegamálastjóri hefði eftirlit með einhverjum slíkum mannvirkjum, sem byrjað er þegar á undir hans forsjá.

Þá hefir nefndin lagt það til, að skrifstofukostnaður vegamálastjóra yrði hækkaður. Það er nauðsynlegt, að verkfræðingarnir þurfi ekki að gefa sig að almennum skrifstofustörfum, eins og óbreyttir skrifarar; er það því búhnykkur að hækka liðinn, svo hægt sje að fá fólk á skrifstofuna og vegamálastjóri kveðst ekki geta fengið aðstoð fyrir minna en nefndin hefir áætlað.

Þá eru flutningabrautirnar. Jeg skal geta þess, að jeg sje enga ástæðu til að tala um einstaka liði, því að enginn er öðrum fremri. Þeir eru teknir upp eftir tillögum vegamálastjóra og nefndin vill gera þeim öllum jafnhátt undir höfði.

Þá er viðhald flutningabrauta, og skal jeg gera dálítið nánar grein fyrir þeirri till.

Hingað til hefir fje verið veitt af skornum skamti til viðhalds flutningabrauta. En eftir till. vegamálastjóra til stjórnarinnar var gert ráð fyrir 29 þús. í þessu skyni. En í frv. stjórnarinnar er þessi fjárhæð færð niður í 25 þús. kr. fyrra árið og 20 þús. kr. síðara. Nefndin hefir getað fallist á það, að ókleift sje að framkvæma nauðsynlegt viðhald fyrir þetta fje. Annars gerir vegamálastjóri grein fyrir, hvernig hann hugsar sjer að verja tillaginu. Til Suðurlandsbrautarinnar hefir hann áætlað 20 þús. kr., til Þingvallavegarins 6 þús. og 3 þús. til Fagradalsbrautarinnar, sem landssjóður hefir haldið við að 1/3 hluta, og á að halda við. En síðan vegamálastjóri gerði þessa áætlun hefir hann komist að þeirri niðurstöðu, að þessi fjárhæð var allsendis óviðunandi, vegna hækkunar á vinnulaunum, og lagði hann það til við nefndina, að hún hækkaði tillagið frekar. Hann gerði og ráð fyrir því, að ef hægt væri að framkvæma eitthvað meira, en gert er ráð fyrir. Þá hyrfi það til Suðurlandsbrautarinnar. Eins og kunnugt er, er þessi vegur orðinn mjög slitinn, einkum elsti kafli hans, frá Reykjavík til Ingólfsfjalls. Og er það tilætlun vegamálastjóra að framkvæma viðgerð á veginum, og að þessi viðgerð verði ekki að eins viðhaldsviðgerð, eins og venjulega á sjer stað, heldur ætlar hann að gera veginn að nýju á nokkrum kafla, og jafnvel flytja hann úr stað á dálitlu svæði.

Þá er næsta till., sem jeg býst við að deildinni þyki nokkuð nýstárleg, því að þar er farið inn á nýja braut, sem oft hefir verið þráttað um. Þessi till. er um endurbyggingu og viðhald Flóabrautarinnar. En eins og bent er á í nál., þá er málinu svo komið að sýslunni er ókleift að hafa viðhaldið í svo góðu lagi, sem nauðsynlegt er og taldi nefndin því þörf á að hlaupa hjer undirbagga. Og það því fremur, sem viðhald sýslunnar hefir verið ófullkomið. Hjer er líka um að ræða einhverja elstu brautina á landinu, sem er þess vegna ekki eins vel gerð eins og brautir þær, sem lagðar hafa verið á síðari árum. Og jeg skal taka það fram, að það er ekki nein nýung hjer í þinginu, að landssjóður greiði 2/3 hluta af viðhaldskostnaðinum í nokkuð líkum tilfellum. Á þingi 1917 var tekinn upp sá siður, að landssjóður skyldi greiða 2/3 af endurbyggingarkostnaði á gömlum trjebrúm á flutningabrautum. Jeg býst við, að háttv. deildarmenn hafi lesið það, sem sagt er um þennan lið nál., og kynt sjer þá sundurliðun sem þar er gerð, svo að jeg þarf ekki að endurtaka það hjer. Jeg skal geta þess, að nefndin áleit, að þessar 50 þús., sem gert er ráð fyrir að komi frá Árnessýslu, geti ekki orðið henni þungbærari en þó ekkert væri við veginn gert og hún þyrfti að verja miklu fje árlega í þýðingarlítið viðhaldskák, þar sem hún á þennan hátt fær góðan og viðhaldsljettan veg. Og nefndin hafði síst gert ráð fyrir, að sýslubúar yrðu ekki ánægðir með þessi úrslit. Nefndin bjóst við lofræðu og þakklætisræðu frá háttv. þm. Árn. fyrir rausnina. En það lítur ekki út fyrir, að þeir sjeu ánægðir. Eða mikið vilji enn meira. Jeg skal þegar geta þess, að það mun aldrei koma til mála, að nefndin mæli með till. þm. Árn. Virðist hún svo mikil firra, ekki síst þegar þess er gætt, að landssjóður kaupir áhöld til þessarar brautar fyrir 30 þús. kr., alveg upp á eigin spýtur, að mjer þykir leiðinlegt, að þm. skuli hafa látið fá sig til að flytja hana.

Þá kem jeg að þjóðvegunum, og skal jeg ekki heldur tala þar um einstaka liðu. Þeir eru allir jafnrjettháir, svo framarlega sem deildin gengur inn á stefnu nefndarinnar í vegamálum.

Þá er sú brtt. nefndarinnar, að nema burt tillag til brúargerða. Það gat ekki komið til mála, að þær stæðu lengur í fjárlögunum, úr því búið er að samþ. að gera þær fyrir lánsfje. Sá kvíðbogi, sem komið hefir í ljós hjá sumum, sem beðið hafa um brýr, er alveg ástæðulaus. Þeir hafa óttast, að þetta mundi leiða til þess, að brýrnar yrðu ekki gerðar eins fljótt. Jeg skal, og mun jeg síðar nefna það atriði, geta þess, að nefndin ætlast til, að þessi lán geti orðið innanríkislán í víðustu merkingu. Hún gerir ekki ráð fyrir, að leitað verði strax til banka, heldur að seld verði ríkisskuldabrjef út um land. Þetta gæti vel komið til mála. Og þau hjeruð mundu verða fúsust til kaupanna, sem væru látin sitja fyrir framkvæmdunum, og ætti að verða auðveldara að fá ríkisskuldabrjefin seld, ef þessu væri haldið að mönnum.

Auk þess er á það að benda, að gert er ráð fyrir, að þessi lán verði tekin smátt og smátt, eftir því sem bygt verður, en ekki alt í einu. Jeg skal líka geta þess, að það var tilætlun bæði vegamálastjóra og eins nefndarinnar, að allar þær brýr, sem standa í fjárlagafrv. stjórnarinnar, verði bygðar á næsta fjárhagstímabili og þar að auki eru nokkrar aðrar brýr, sem meiningin er að bygðar verði á næstu árum, en það eru brúin á Hómsá og Eyvindará og brýrnar á Elliðaánum. Um viðhald þjóðvega vildi jeg geta þess, að ástæðan fyrir því, að þessi liður hækkaði svo mikið, var sú, að nefndin vildi fara eftir tillögum vegamálastjóra til stjórnarinnar. En hann lagði til 25 þús. kr. Síðan hefir nefndin bætt við 7,500 kr. hvort árið, sem ætlaðar eru til viðgerðar og viðhalds Hafnarfjarðarveginum gamla. Jeg býst við, að flestum háttv. þm. sje kunnugt um nýja Hafnarfjarðarveginn, sem nú er hætt við, og þegar hefir verið lagt í 130 þús. kr. — Vegamálastjóri hefir ekki sjeð sjer fært að leggja það til við stjórnina, og hún aftur ekki sjeð sjer fært að leggja það til við þingið, að þeirri vegagerð verði haldið áfram. Það er gert ráð fyrir, að það, sem eftir er af veginum, muni kosta kringum 270 þús. kr. Þó er það ekki alt til vegarins sjálfs, því í sambandi við þann veg er gert ráð fyrir, að Suðurlandsveginum austur verði breytt dálítið, og að brýrnar á Elliðaánum verði fluttar ofar, og er áætlað, að það muni kosta 85 þús. kr. Nefndin sá ekki neinn möguleika til þess að taka upp veitinguna til þessa vegar. Henni var fullljóst, að hve nær sem það yrði gert má það ekki verða á kostnað annara vegagerða í landinu. Þess vegna leggur nefndin það til, að gamla veginum verði haldið við. Jeg veit, að sumum mun þykja það hart að leggja mikið fje í gamlan veg, sem á að leggja niður eftir stuttan tíma. En annars er ekki kostur, eins og nú standa sakir, þar sem ekki er viðlit að halda áfram með nýja veginn. Svo það er ekki með glöðu geði, að nefndin leggur þetta til, en hún álítur, að nauðsyn brjóti lög undir þessum kringumstæðum. — Auk þess eru ekki öll kurl komin til grafar með viðhald á þessum vegi, því á honum eru 4 smábrýr, sem nú eru orðnar ónýtar, og verða bygðar samkvæmt lögunum um brúargerð.

Þá hefir nefndin líka hækkað upphæðina til áhaldakaupa. Hún leggur áherslu á það, að útveguð verði ný áhöld, og gerðar verði tilraunir með þau áhöld, sem talið er líklegt að komi til bóta.

Jeg verð að biðja hæstv. forseta að safna þm. saman; mjer finst vera ærið fátt af hv. þm. viðstaddir.

Jeg fer yfir þetta að eins í stórum dráttum, til að vera stuttorður, og finst mjer, að hv. þm. ættu að hafa hug á að setja sig inn í það í aðalatriðunum, þar sem um stórframkvæmdir og stefnur er að ræða. Eins og jeg tók fram áðan, leggur nefndin áherslu á, að ekki verði sparað til þessara liða. Eins og kunnugt er, þá er vinna mjög dýr nú, og því áríðandi að finna þau áhöld, sem geta sparað vinnukraftinn. Þetta hjelt nefndin að gæti orðið búhnykkur í framtíðinni.

Þá er till. um mikla hækkun á 50. lið, sem sje, að tillag til akfærra sýsluvega verði hækkað upp í 50 þús. kr. á tímabilinu. — Þrátt fyrir það, þó að raddir hafi heyrst hjer á þingi um það, að hægt væri að láta nægja minni aðgerðir á vegum, þá er alt annar tónninn úti um landið. — Þar vilja menn leggja á sig talsvert þungar byrðar til þess að gera vegi sína sæmilega. Og mun þó síður en svo, að sýslufjelög alment hafi safnað fje á ófriðarárunum fremur en ríkið. Þegar nefndin sá þennan brennandi áhuga manna, fanst henni óverjandi annað en hlynna að honum eftir megni. Hún hefir því lagt til, að tillagið verði hækkað um helming, eða úr 25 þús. upp í 50 þús. kr., til að liðsinna þeim sýslufjelögum, sem vilja legga eitthvað á sig fyrir vegina. — Þetta er auk þess í samræmi við, að í fjáraukalögunum var samþ. 22 þús. kr. upphæð, sem skyldi varið í líku augnamiði. Með fram þess vegna áleit nefndin, að þessi stefna væri ekki í ósamræmi við vilja þingsins.

Þá skal jeg geta þess í stuttu máli, viðvíkjandi brtt. frá samvinnunefnd samgöngumála, við 13. gr. c. I og c. II, að fjárveitinganefnd mun fallast á þær flestar. Þó er þar ein till., sem er athugaverð, og samvinnunefnd sjálf er tvískift um; það er um styrkinn til ferða um Faxaflóa. Nefndin ætlar sjer ekki að fara í deilur út af þessu atriði; þó vil jeg geta þess, að meiri hluti þeirrar nefndar er hlyntur lægri tillögunni. Enn fremur vildi jeg geta þess, viðvíkjandi seinni hluta þessarar till., að nefndin var engan veginn hlynt sumum af þessum smábátastyrkum; þó hafði hún einkum á móti síðasta eða 8. liðnum, styrk til vjelbátsferða meðfram Mýrasýslu, og jafnvel þeim næstsíðasta líka. Það heyrðust raddir um það í nefndinni, að ef ætti að fara að styrkja þessar bátaferðir, svo að segja heim á hvern bæ, þá mætti búast við, að fram kæmu fleiri beiðnir, ekki einungis um það, heldur líka um styrk til flutninga á flutningabrautum. — Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um þessar till., því þær koma mjer eiginlega ekki við.

Þá er brtt. við 13. gr. D. Jeg skal alveg sleppa að minnast á einstakar smærri brtt., því þetta eru alt áætlaðir liðir, nema 52. brtt., sem er nýr liður. Og er gerð grein fyrir henni í nál.

Næsti liður er áætlaður liður, sem nefndin taldi óhjákvæmilegt að hækka, og fór hún þar eftir till. landssímastjóra.

Þá kem jeg að þessu nýmæli, að símalínurnar skuli teknar út af fjárlögunum og lagðar fyrir lánsfje. Það er þó að vísu ekki nærri eins mikið nýmæli og hitt, að eftir till. stj. skuli nokkrar símalínur teknar upp í fjárlögin, sem samkvæmt símalögunum hafa hingað til verið lagðar fyrir lán. Þó er ein undantekning frá því, með loftskeytastöðinni í Flatey. — Það virðist líka undarlegt, ef taka ætti upp þann sið nú, að leggja þessar nýju línur fyrir tekjuafgang af landssímanum. Það mundi leiða til þess, að þær aukalínur, sem mest hafa tafist og eru bráðnauðsynlegar, yrðu enn látnar sitja á hakanum. En nefndin vill mæla móti því, að þessar línur tefjist fyrir þetta. Sjerstaklega væri það ekki sparnaður að tefja framkvæmdir á þessu sviði. Það ætti ekkert að geta hindrað þær framkvæmdir, nema skortur á vinnukrafti. Því jeg hygg, að ekki þurfi að óttast það, að lán fáist ekki til að leggja þær aðallínur, sem á að leggja, þó hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) virðist hræddur um það. Og þetta eru ómótmælanlega þær framkvæmdir, sem gefa landinu einna mestar tekjur, og er því hagur að gera sem mest að. — Nefndin vill leggja áherslu á það, eins og tekið er fram í nefndarálitinu, að til þess, að aukalínur þessar geti komið að fullum notum og gefið sem mestan arð, þarf að fullkomna stofnlínurnar, svo að þær geti fullnægt afgreiðsluþörfinni, þó nýjar aukalínur bættust við. — Um þessar nýju aukalínur, sem nefndin leggur til að verði lagðar, þarf jeg ekki að fjölyrða. Það er gerð grein fyrir þeim í nál. Þó skal jeg taka fram um línuna milli Blönduóss og Kálfshamarsvíkur, að hjeraðsbúar sýna óvenjumikinn áhuga fyrir að fá línuna. Auk þess, að þeir ætla að taka á sig þær 4000 kr., sem skylt er að komi frá hjeraðinu, þá bjóðast þeir til að annast allan flutning á efninu frá næstu höfn, að kostnaðarlausu fyrir ríkissjóð. Enn fremur lofa þeir að útvega duglega menn til símalagningarinnar fyrir sanngjarnt kaup. En auk alls þessa stendur sjerstaklega á með þessa línu. Það er ekki einungis, að þörfin á henni sje mikil fyrir hjeraðsbúa, heldur hafa líka komið kröfur um, að þessi lína verði lögð frá veiðistöðvunum norðanlands. Síðan nefndarálitið var skrifað hefir komið símskeyti frá mörgum stórútgerðarmönnum, þar sem þeir skora á þingið að sjá um, að þessi lína verði lögð sem allra fyrst. Skeyti þetta kom frá Siglufirði, og eru margir ágætir menn þar undir, þar á meðal forstöðumenn síldarstöðvanna þar. — Um næstu línu — frá Hólmavík til Reykjarfjarðar — vil jeg geta þess, í viðbót við það, sem stendur í nefndarálitinu, að þótt hún sje komin til Reykjarfjarðar, þá er henni ekki fulllokið, því það er ætlast til, að hún nái alla leið til Ingólfsfjarðar. Það mun nú orðið öllu meiri útgerð frá Ingólfsfirði heldur en Reykjarfirði og þykir útgerðarmönnum þar ilt, að línan skuli ekki ná þangað, svo þeir losni við að senda langar leiðir til að síma. Kostnaður við þessa viðbót mun ekki vera mjög mikill, líklega kringum 38 þús. kr. Nefndin sá sjer ekki fært að leggja frekar til um þetta, en þó mun málið verða tekið til yfirvegunar síðar. Og jeg vil geta þess í þessu sambandi, að jeg tel það siðferðislega skyldu þessa þings, sem hefir lagt svo þunga skatta á sjávarútveginn, og þó sjerstaklega síldarútveginn, að gera alt, sem því er unt, til að hlynna sem best að honum, svo hann geti risið undir þessum skattaálögum. Útgerðarmenn eiga sanngirniskröfu til þess, að þingið geri það. Auk þess tel jeg vafalaust, að þessi lína yrði ein af þeim allra arðvænlegustu línum í símakerfinu; þegar þeir, sem gera þarna út, vilja vinna það til að sækja dagleið til Hólmavíkur til að ná í síma og senda alt að 50–60 símskeyti annanhvern dag, auk allra símtala, þá má nærri geta, hvort notkunin yrði ekki miklu meiri, ef síminn væri við höndina. Því eins og gefur að skilja, kostar allmikið að senda til Hólmavíkur, og mun því ekki gert nema í ítrustu nauðsyn. — Þriðja línan, sem gert er ráð fyrir að lögð verði er byrjunin á hinni margþráðu og margtöfðu Barðastrandarlínu. Jeg skal geta þess viðvíkjandi þessum línum, að það er hugsanlegt, að landssímastjórinn hafi ekki nægilegt verkafólk til að framkvæma alt það, sem ætlast er til á fjárhagstímabilinu. Það er einmitt það, sem vakað hefir fyrir Húnvetningum, þá er þeir buðust til að útvega vinnukraft og annað, til þess að hægt væri að hefja framkvæmdir. Þess vegna er því skotið fram í nál., að eigi sje rjett að ganga fram hjá hjeruðunum, án þess að gefa þeim kost á að leggja til vinnukraft, ef landssímastjóri getur það ekki sjálfur. Það gæti vel farið svo, að hjeruðunum yrði betur til manna við vinnu þessa en landssímastjóranum, ef hann ætti að útvega fólkið. Að minsta kosti geta þá hlutaðeigandi hjeraðsbúar kent sjálfum sjer um, ef á þessu strandaði.

Jeg á nú eftir 5 mínútur, og ætti það að vera nóg til að tala um brtt. nefndarinnar við 13. gr. E. Það eru að eins fáar brtt. Eru það áætlunarupphæðir, og eins og við vill brenna um 13. gr., hefir nefndin talið þörf á að hækka ýmsa liði frá því, sem stjórnin hefir lagt til.

Að eins einum vita leggur nefndin til að bætt verði inn í fjárlögin. Er það samkvæmt tillögum vitamálastjóra, er lágu fyrir stjórninni. Eftir þessum till. vitamálastjóra er ætlast til, að þessi viti, Hríseyjarviti á Eyjafirði, sje bygður á undan Austfjarðavitunum. Nefndin gat fallist á þessa till. vitamálastjóra, einkum þar sem ekki þyrfti að vera mikill reipdráttur milli Austfjarðavitanna og þessa vita, því að með þeim er líkt á komið, þar sem hvorirtveggja eru bundnir því skilyrði, að hlutaðeigandi hjeruð leggi nokkuð af mörkum. Er óhætt að segja það um Eyjafjarðarhjeruðin, að þau vilja leggja mikið á sig á móti. Það liggur fyrir brjef frá sýslumanni Eyjafjarðarsýslu, þar sem skýrt er frá, að hjeruðin hafi ákveðið að byggja tvo vitana, á Svalbarðseyri og Hjalteyri, ef landssjóður kosti Hríseyjarvitann og taki að sjer rekstur og viðhald allra vitanna á eftir.

Stærsta hækkunin er á síðasta lið, sem nefndin leggur til að hækki um 2000 kr. Þykir nefndinni stjórnin heldur smátæk þar, þar sem upp í þennan lið verða tekin ýms ný útgjöld til vitanna, og enn fremur útgjöld, sem staðið hafa á öðrum liðum, en einkum þó þar sem gert er ráð fyrir að taka nokkuð af fjenu í styrktarsjóð vitavarðanna. En það skal tekið fram, að nefndin ætlast ekki til þess, að þetta tillag fari fram úr því, sem þeir leggja sjálfir fram. Sjóður þessi er ekki eftirlaunasjóður, heldur tryggingarsjóður gegn sjúkdómum og slysum.

Jeg held, að jeg verði nú að hætta að svo komnu, og vona sem sagt, að hv. deildarmenn afsaki, að jeg fer ekki út í einstakar brtt., og geri það, sem jeg fór fram á, að láta mig vita, ef þeir hafa á móti einhverri þeirra. Færi jeg þá ef til vill nánar út í þær.