19.07.1919
Neðri deild: 11. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Frsm (Magnús Guðmundsson):

Jeg býst við, að hv. þm. komi það ekkert undarlega fyrir, þótt fjárhagsnefnd sje með þessu frv., því að á þinginu 1917 kom fram samskonar frv., og fjárhagsnefnd mælti þá með því, og var þá skipuð sömu mönnum og nú, að einum undanteknum. Þá var frv. mjög stutt, og hljóðaði að eins svo, að útflutningsgjald af sjávarafurðum skyldi tvöfaldast. Var það rökstutt þá með því, að þegar útflutningsgjald var fyrst lagt á fiski og lýsi, árið 1881, þá var það gert í því skyni, að vega skyldi á móti lausafjárskatti, en sá skattur hafði þá tvöfaldast frá stríðsbyrjun. Forlög frv. í deildinni urðu þá þau, að það fjell með jöfnum atkvæðum. Nú hefir hæstv. stjórn fundið að rjett var að taka frv. upp aftur. En hún hefir ekki tekið tillit til þess, að síðan 1917 hefir lausafjárskatturinn enn hækkað, svo að nú er hann orðinn þrefaldur við það, sem hann var í upphafi, og á eftir að hækka enn, verður hærri að ári en hann er nú. Það getur hver maður sjeð, ef athugað er verðið á þeim afurðum, sem verðlagsskrá byggist á.

Ef nú ætti að vera samskonar samræmi milli lausafjárskattsins og útflutningsgjalds þessa eins og ætlast var til 1917, þá hefði útflutningsgjaldið átt að þrefaldast. En þetta hefir hæstv. stjórn ekki lagt til, og nefndin ekki heldur, vegna þess, að frv. 1917 var ekki eins vinsælt og það átti skilið.

Nefndin hefir leyft sjer að stinga upp á einstökum breytingum, sem allar miða að því að hækka þetta gjald. Það er að vísu lítið, en þó nokkur munur. Er munurinn aðallega sá, að gjald af saltkjöti og hertum fiski er hækkað úr 20 aur. upp í 25 aur. af hverjum 50 kg. Enn fremur er útflutningsgjaldið af fóðurmjöli og fóðurkökum hækkað úr 50 og 60 aur. upp í 100 aur. En sú hækkun er þó ekki sjerstaklega vegna skattsins í landssjóð, því að hún mun ekki nema mikilli upphæð. En það, sem vakti fyrir nefndinni var að stuðla að því, að þessar vörutegundir væru ekki fluttar út, heldur notaðar í landinu sjálfu. Þær eru einhver hinn besti fóðurbætir, sem völ er á. Því hærri sem útflutningstollurinn er, því síður eru þær fluttar út og þá því fremur notaðar til fóðurbætis innanlands.

Svo er ein brtt. um nýjan lið aftan við 1. gr., um útflutningsgjald af nýjum fiski. Eins og kunnugt er, hefir sú aðferð verið höfð á stríðsárunum, og var enda byrjað á því áður, að botnvörpungar fiskuðu í ís og fluttu fiskinn út sjálfir, án þess að nokkurt gjald væri af honum greitt. Ákvæðið í lögunum frá 1881 um útflutningsgjald af nýjum fiski hefir verið skilið svo, að það ætti að eins við þau skip, er tækju við nýjum fiski af öðrum til útflutnings, en ekki þau skip, er bæði veiddu fiskinn og flyttu hann út sjálf. Hafa því botnvörpungar ekkert útflutningsgjald greitt af fiski þeim, er þeir seldu í Englandi. Ekki er heldur greitt stimpilgjald af farmskírteinum um þennan fisk, af þeirri einföldu ástæðu, að ekkert farmskírteini er gefið út. Það sýnist þess vegna alveg sjálfsagt að setja útflutningsgjald á þennan fisk. Það virðist með öllu meiningarlaust að leggja ekkert gjald á hann. Nefndinni kom saman um að setja gjaldið 1% af söluverði fiskjarins brutto í Englandi. Það svarar til þess stimpilgjalds, sem greitt væri, ef gefin væru út farmskírteini um fiskinn. Það er því í raun og veru ekki gert ráð fyrir útflutningsgjaldi af þessum fiski, heldur að eins stimpilgjaldi, eða með öðrum orðum: Þetta útflutningsgjald kemur í stað stimpilgjaldsins.

Jeg vona og, að fyrirkomulagið á innheimtu þessa útflutningsgjalds valdi ekki neinum óþægindum. Jeg hefi spurt lögreglustjórann hjer, hvort aðferðin mætti ekki vera sú, sem nefndin gerir ráð fyrir. Hefir hann fallist á það.

Hinar brtt. frá nefndinni eru svo lítilfjörlegar, að ekki er ástæða til að minnast sjerstaklega á þær.

En svo eru brtt. á þgskj. 73. Jeg get tekið það fram strax, að nefndin gat ekki aðhylst þær, og ræður hv. deild til að fella þær. Er það einkum af þeirri ástæðu, sem jeg áður tók fram, að frv. þetta, eins og það er, miðar einmitt að því, að jafna milli landbúnaðarins og sjávarútvegsins. Og því verður ekki móti mælt, að með því er ekki hækkað eins á sjávarútveginum og skattar á landbúnaðinum hafa hækkað síðastliðin ár.

Jeg býst við, að hv. flutningsmönnum hafi sýnst nauðsynlegt að bera fram þessar brtt., til þess að koma á jafnvægi milli atvinnuveganna, en ekki vegna þess, að þeir álíti, að það muni landssjóð neinu verulegu, því að tekjuaukinn af þeim myndi ekki nema meiru en 20–30 þús. kr. Er því ekki mikið við þær unnið frá því sjónarmiði.

Það er, held jeg, áreiðanlegt, að það er ekki hægt að benda á, ef þetta frv. er samþykt með brtt. nefndarinnar, að þar sje neitt hallað á sjávarútveginn. Er því ekki þörf á till. til þess að gera jafnvægi. Og því síður er ástæða til þess, sem vitanlegt er, að nú stendur fyrir dyrum endurskoðun á allri skattalöggjöf landsins.