19.07.1919
Neðri deild: 11. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Matthías Ólafsson:

Jeg viðurkenni fúslega þá viðleitni stjórnarinnar, að vilja jafna rjettlátlega hlutfallið milli útgjalda landbúnaðar og sjávarútvegs í landssjóðinn, ef sú viðleitni gæti borið einhvern árangur.

Háttv. frsm. (M. G.) hrósaði mjer fyrir það, að mjer hefði farið fram síðan 1917, og vildi jeg geta sagt það sama um hann, þótt það, því miður, verði ekki hægt að þessu sinni. Meðal margs annars fróðlegs sagði hann að tollurinn af landbúnaðarafurðunum samkv. brtt. á þgskj 73 yrði svo lítill, að landssjóð mundi ekkert muna um hann. Mjer hefir þó talist svo til, að ef brtt. nái fram að ganga, þá muni ágóðinn ekki verða undir 58,000 kr., en nefndin segir, að hækkunin af sjávarútvegstollinum muni nema ca. 40,000 kr.

Það er rjett, að leggja þurfi nú á þyngri skatta en áður, en mjer virðist frsm. (M. G.) hafa farið aftur en ekki fram í fjármálunum, er hann segir landbúnaðinn bera eins mikla skatta og sjávarútvegurinn, því það er með öllu rangt. Hitt er satt, að jeg hefi álitið sjávarútveginn geta borið dálítið meira en áður.

Það hefir verið sagt, að upphæðin, sem fengist með þessum skatti, yrði lítil. Það er satt. Landssjóð munar ekki tiltakanlega um einar 60 þús. kr. En þá er þess meiri ástæða að vera með því, úr því að það er lítið. Fyrir mjer eru peningarnir, sem fást, engan veginn aðalatriðið. Mjer er þetta blátt áfram ,,princip“-spursmál. Jeg álít, að það sje ekki rjett að láta annan aðalatvinnuveg landsins bera mestallar byrðarnar, meðan hinn er sama sem frjáls. Það hefir verið talað um, að sjávarútvegurinn hefði ríkari menn innan sinna vjebanda, og það er alveg rjett. En þetta á að eins við um einstaka menn, en allur fjöldinn á í vök að verjast, engu síður en smábændur. Það er svo langt frá mjer að vilja hafa á móti því, að skatti verði náð af efnamönnum, en það er misskilningur að halda, að það sjeu ekki líka hinir, sem borga þá skatta, sem á sjávarútveginn eru lagðir. Það er ekki svo að skilja, að jeg sje að stynja undir sköttum fyrir hönd sjávarútvegsins, heldur vildi jeg að einu benda á, að öll sanngirni mælir með því, að landbúnaðurinn beri líka sinn hluta, eftir því sem hann er fær um, og jeg álít, að þetta, sem hjer er farið fram á, sje honum engan veginn of vaxið.