19.07.1919
Neðri deild: 11. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Einar Arnórsson:

Það má segja um brtt. á þgskj. 73, að oft veldur lítil þúfa þungu hlassi. Þúfan er lítil, og það er eins og henni hafi verið talið það til gildis, að lítið munar um hana. Það er alveg rjett, að hún vegur ekki mikið, en þó munar óneitanlega dálítið um 60 þús. kr. Það þarf vitanlega meira en þennan litla títuprjónshaus til að fylla þá hít, sem landssjóður er orðinn. Þar má mikið bera í áður en nóg er komið, því að seint fyllist sálin prestanna, eða ef til vill rjettara í þessu tilfelli Sigurðanna.

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) benti á, að leggja mætti á verðhækkunarskatt, líkan því, sem gert var með lögum 1915 til bráðabirgða. Mjer virðist það ekkert viðlit nú, enda er algerlega óvíst, hvort sá skattur gæfi nokkuð í landssjóð. Verðhækkun er sama sem engin nú frá því fyrir stríðið. Það má sem sje ekki fara eftir því, sem kann að virðast á pappírnum, heldur verður að taka þar alt til greina. Það verður að reikna út kostnaðinn við það, að framleiða vöruna, og athuga hlutfallið á milli hans og þess, sem fyrir vöruna fæst. Kæmi það þá í ljós, að varan hafi í raun og veru ekkert hækkað, þá verður skatturinn, eða að minsta kosti ætti að verða, sama sem núll. Ef aftur kostnaðurinn er meiri núna, í hlutfalli við vöruverðið, heldur en hann var fyrir stríðið, þá hefir varan lækkað, og aftur verður skatturinn ekki neitt. Bygður á rjettlátum grundvelli yrði þessi skattur að líkindum að eins á pappírnum, en gæfi ekkert í aðra hönd.

Út af þeirri deilu, sem risið hefir milli landbúnaðarins og sjávarútvegsins. þá er afarerfitt að skera úr því til fullnustu, hvor verður færari að bera gjöld framvegis. Jeg býst ekki við, að nokkur þeirra háttv. þm., sem hjer eru, sjeu færir um að leysa úr spurningunni. Það er að vísu hægt að athuga ástandið í fortíðinni, en hverju erum við nær fyrir það? Um framtíðina verður ekkert sagt. Atvik og kringumstæður, sem ómögulegt er að segja fyrir eða reikna út, geta kollvarpað öllum staðhæfingum um það efni. Enginn getur sagt um, hvaða verð verður á smjöri, fiski, kjöti, síld o. s. frv. En til þess að dæma um færleika atvinnuveganna til að bera gjöld þyrfti að vita um alt þetta.

Það er að vísu hægt að segja nú fyrir eftir líkum, hvernig það verður í ár, en erfiðara næsta ár, og enn verra þar næsta ár o. s. frv. Og vilji menn taka þann kost, að bera saman, hvernig þeir skattar, sem nú eru, koma niður á hvorum um sig, þá er það líka vandi að segja til. Það er altaf hægt að þylja upp tölur, en margir skattarnir snerta svo báða, að ilt er að gera upp á milli. Eins er ef á að fara að athuga, hvor atvinnuveganna ber meira úr býtum úr landssjóði. Þar er svo margt í þarfir beggja, og ekki margt, sem hægt er að segja að komi að eins öðrum til góðs.

Það er alveg rjett, að hækkunin á ábúðaðarskattinum, sem hugsuð er í öðru frv., eigi að koma á móti þeirri hækkun, sem þetta frv. stjórnarinnar fer fram á, og þess vegna þurfi ekki og sje ekki rjett að samþykkja þessar víða till.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) kom fram með útreikning, sem var samanburður. Jeg hefi ekki athugað það svo nákvæmlega og tek háttv. þm. trúanlegan um það, að útreikningurinn sje rjettur það sem hann nær. En það er eins og háttv. þm. (M. G.) athugi það aldrei, að það eru til aðrir skattar, og þá er að gæta að því, hvernig þeir koma við þessa atvinnuvegi. Og ef það er athugað, þá held jeg, að það dyljist ekki óhlutdrægum manni, að þar er ljettara á landbúnaðinum heldur en á sjávarútveginum. Þá er fyrst til að nefna vörutollinn. Það er enginn efi á því, að sjávarútvegurinn borgar þar meira. (S. St.: En kaffi- og sykurtollurinn?). Jeg ætla ekki að taka nema eitt fyrir í einu. Það er vitanlegt, að landbúnaðurinn notar minna af aðfluttum vörum en hinn aðalatvinnuvegurinn. Þá má nefna kol og salt. Það hvílir nær eingöngu á sjávarútveginum. Það er varla teljandi, sem landbúnaðurinn notar af kolum. Það er ef til vill eitthvað til hitunar í heimahúsum, en svo hverfandi lítið á móts við það, sem t. d. togarar nota, að það getur varla talist með. Salt notar landbúnaðurinn ekki heldur, svo að teljandi sje. Aftur á móti sjávarútvegurinn eða allir, sem framleiða fisk, nota mikið þessa vöru. Auk þess má nefna olíu, sem er svo að segja nær eingöngu notuð af sjávarútveginum. Á öllu þessu er vörutollur, og við hann losnar landbúnaðurinn að mestu leyti.

Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) skaut fram í um kaffi- og sykurtoll, og er það alveg rjett, að hann borga sjávarmenn auðvitað meira en sveita. Því þó að bændur drekki líka kaffi, þá hafa þeir þó mjólkina um fram, og eyðslan á hinu er þess vegna ekki eins mikil. (H. K.: Kostar mjólkin ekki neitt?). Jú, að vísu, en það er þó ekki greiddur tollur af henni. Þá er hægt að telja dýrtíðar- og gróðaskatt, sem er mest borgaður af útgerðarmönnum, kaupmönnum og þess háttar atvinnurekendum. Jeg hefi tekið þetta til dæmis, til að sýna, að eftir núgildandi skattafyrirkomulagi verður sjávarútvegurinn að bera meira. Það er langt frá mjer að mæla sjávarútveginn undan rjettmætum gjöldum. Jeg vildi að eins benda á þetta, úr því að farið var í þennan samanburð á annað borð.

Ef á hinn bóginn eru teknar fyrir greiðslur úr landssjóði til beggja atvinnuveganna, þá sjest, að þar er mikill munur á. Og það verður landbúnaðurinn, sem ber meira úr býtum. Í fjárlagafrv. stjórnarinnar er farið fram á, að veitt verði um 160 þús. kr. til vega (M. P.: Það er of lítið). Það getur verið, ef litið er á það eitt út af fyrir sig, en ekki í sambandi við önnur útgjöld. En hvað um það. þetta er upphæð sem sjávarútvegurinn nýtur lítið góðs af. (P. J.: Eru bændur einir um að nota vegi?) Eins og háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) hefir áður rjettilega tekið fram, þá eru vegir aðallega fyrir landbúnaðinn. Þeir eru til þess, að bændur geti komið vörum sínum á markað, og eins aflað sjer þess, sem þeir þurfa að fá annarsstaðar frá. Háttv. þm. hefir ef til vill ekki sagt þetta berum orðum, en það var augljóst af ræðu hans, að hann bar fullan skilning á þetta atriði. Þá er það Búnaðarfjelag Íslands. Það fær nú ekki nema 60 þús. kr. á ári, en þykir of lítið, og er farið fram á að hækka það mikið. (S. S.: Strandferðir eru fyrir sjávarútveginn og eins vegir að nokkru leyti). Hve nær hefir þm. sjeð skipum siglt um vegi? Strandferðirnar eru að vísu meira í þarfir sjávarútvegarins, en alls eigi að öllu leyti. Aðallega eru þær til að flytja vörur á milli og fólk, og þarf landbúnaðurinn ekki síður á því að halda en aðrir. Sjávarútvegurinn gæti að miklu leyti staðið óhallur, þótt ekki væri lögð eins mikil áhersla á vegi og gert er. (S. S.: En vitar?). Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) talar um vita, og er það rjett, að þeir eru fyrir sjávarútveginn, auk þess sem þeir eru fyrir verslun og siglingar alment. En svo má benda á það, að til er vitagjald, og það gefur af sjer meira en það, sem til vitanna er veitt. (Þorl. J.: Strandgæsla). Einhver talar um strandgæslu. Það er ekki ýkjamikið, sem hingað til hefir verið lagt til hennar, og ætti síst að telja eftir.

Þá eru eftir tvö atriði, sem skifta miklu máli og jeg ætla að drepa stuttlega á. Fjárhagsnefnd leggur til, eftir beiðni ráðuneytisins, að innflutningstollur verði lagður á salt. Þetta er bygt á því, að verða muni tap á saltverslun landsins, og það tap verði að vinna upp. Jeg ætla ekki að fara að dæma um það hjer, hvort þetta tap getur reiknast stjórninni til syndar eða ekki. Jeg vil að eins benda á þá staðhöfn, að tap er, og það verður að vinnast upp. (Þór J.: Fyrir hverja er salt útvegað?) Sjávarútvegurinn borgar tollinn, og það verður að teljast sanngjarnt, úr því svona er komið, og verður að firra landssjóð tapi.

Þá hefi jeg heyrt, að tap muni verða á kolaversluninni. Hvort það er reikningstap eða ekki, þá er það víst, að kol landsins verða með hærra verði en kol kosta nú. Jeg álít, að til að vinna upp þetta tap eigi að fara líka leið og með saltið og leggja á toll. Jeg álít það þó skárra en einokun. En þessir tollar lægju nær eingöngu á sjávarútvegsmönnum og kaupstaðarbúum. Auk vörutolls af kolum og salti borguðu þeir líka þennan toll. Þegar þetta er athugað. þá virðist ekki að fram á of mikið sje farið, þótt þessar viðaukatill. vinanna að vestan sjeu samþ. Landbúnaðurinn ætti að vera fær um að borga þessar 60 þús. kr. ef hann er yfirleitt fær um að borga nokkuð, sem auðvitað getur verið vafamál. En ef þetta yrði samþ. þá þyrfti ekki að samþ. hækkun á ábúðar- og lausafjárskattinum. (M. Ó.: En að nema hann úr gildi? Þetta eru einar 80 þús.). Það gæti komið til mála. (P. J.: Er þetta sagt til að gera gys að landbúnaðinum). Nei engan veginn, það er sagt í fullri alvöru og er samhljóða því, sem háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) hjelt fram í síðustu ræðu, eða hugsuninni úr ræðu hans. Náttúrlega er ógerningur að vita, hvernig næsta ræða hans verður. Af því, sem áður er sagt, hugsa jeg, að ef miða á gjöldin við það, hvernig menn gjalda nú í landssjóð, þá sje landbúnaðinum ekki gert rangt til, þó þessar till. sjeu samþ. En hitt er annað mál, hvort það samt sem áður er ekki of þungt fyrir hann að bera það, undir þeim kjörum, sem hann lifir, úreltum verkfærum, háu kaupgjaldi og fólkseklu.