19.07.1919
Neðri deild: 11. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Pjetur Jónsson:

Jeg skaut þessu inn í umr., um verðhækkunargjaldið. En jeg býst nú við, að ekki þýði að tala mikið um það, fyrst háttv. frsm. fjárhagsnefndar (M. G.) vill ekki taka það til greina. Jeg skal líka játa það, að sú háttv. nefnd hefir mörgum og miklum störfum að gegna.

En jeg tók eftir því, að þeir háttv. þm., sem talað hafa, höfðu ekki fullkomlega skilið það, sem jeg var að tala um.

Jeg átti ekki við stríðsgróðaskatt, samskonar og þann, sem lagður var á árið 1915. Að vísu mundi tilhögun verða lík, en þó er ekki um það sama að ræða. Þá var aðeins tekinn skattur af þess hluta vöruverðsins, sem umfram var tilkostnað.

En nú dettur mjer ekki í hug að hafa skattinn þannig, heldur stöðugt gjald af vörunum, sem ekki hverfi af, nema sjerstaklega standi á.

Þess vegna hefi jeg stungið upp á því, að vöruverðið yrði greint í þrent, þannig að nokkur hluti þess, sem ætlaður væri fyrir framleiðslukostnaði, yrði gjaldfrí, þá yrði nokkur hluti þess með lágum skatti, og loks síðasti hlutinn, sem telja mætti umfram tilkostnað allan, með háum skatti.

Þessi skattur kæmi því þannig fram, að þegar verðlag er lágt, hlyti hann einnig að vera lágr.

Þegar meðalverðlag er, mundi hann verða nærri því, sem í fyrstu yrði áætlað.

En þegar verðlag er hátt, mundi hann komast langt fram úr áætlun.

Þetta álít jeg líka sanngjarnt, að skatturinn standi í beinu hlutfalli við gengi framleiðslunnar.

Um brtt. er það að segja, að jeg vil ekki fara út í neinn samanburð á sjávarútvegi og landbúnaði. Enda hefir oft reynst svo hjer, að sá samanburður hafi orðið rangur, og svo er enn.

En það, sem jeg meinti með því, að telja bændur á að samþ. þessar brtt., var ekki það, að tekjuaukinn, sem af þeim stafar, verði svo mikil, heldur var það hitt, að jeg er hræddur um, ef fara á í reipdrátt á milli atvinnustjetta um fjárlögin, að þá kynni það að verða til þess, að lítið yrði úr þeim.

Metingur er altaf til ills eins, en sjerstaklega nú, þegar svona mikið liggur á að fá fje.

Og jeg álít, þar sem atvinnuvegunum liggur á að fá styrk, sjerstaklega þó landbúnaðinum, að þá sæti það síst á okkur bændum að fella tekjuaukafrv. þetta.

Jeg mintist á vegina í þessu sambandi, þó ekki af því, að jeg áliti, að þeir sjeu allir eingöngu fyrir landbúnaðinn, heldur af því, að svo er alment álitið, að þeir sjeu ekkert áhugamál fyrir sjávarútvegsmenn, og sjest það best á því, að kaupstaðir hafa verið losaðir við allan veg og vanda af þeim. Það verður því hlutverk sveitahjeraðanna að gangast fyrir vegabótunum og afla styrks til þeirra úr ríkissjóði. En því verður þó ekki neitað, að ef menning öll er sameiginleg eign landsmanna allra, þá eru vegirnir það líka.