19.07.1919
Neðri deild: 11. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Fjármálaráðherra (S. E.):

Tveimur aðalbreytingum hefir verið stungið upp á hjer. Önnur er frá háttv. þm. S.-Þ. (P. J.), að breyta tolli þessum í verðskatt, og skýrði hann það nú nokkru nánar.

Vildi hann tryggja vissan tekjuauka, vissan lágmarksskatt, hvernig sem verðið væri, en láta skattinn stíga með verðhækkuninni. Hjer er það til að segja, að lágmarksskatturinn er hjer ákveðinn eftir annari reglu en verðhækkunarreglunni, eða eftir sömu meginreglu og í stjórnarfrv., og lægri mætti skatturinn ekki vera heldur en ákveðið er þar, vegna þurftar landssjóðsins. Aftur yrði skatturinn, sem fengist eftir verðhækkunarmeginreglunni, nýr skattur á sjávarútveginn, og því sýnilegt, að á honum yrði ekki ljett eftir uppástungu hv. þm. S.-Þ. (P. J.), heldur yrði honum þvert á móti íþyngt.

Hin till., frá háttv. þm. Stranda.(M. P.), um að breyta stimpilskattinum í útflutning gjald, er beinlínis hættuleg, því sú till. mundi geta orðið fleygur í þetta mál, orðið því að fótakefli, en hver má nú á tímum taka þá áhættu á sig.

Þótt jeg sje ekki á móti brtt. háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) og háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), þá get jeg vel skilið það, að landbúnaðarmenn vilji heldur taka skattinn af gömlum tekjustofnum, því að þótt skattur þessi sje sanngjarn og lágr, þá mundi ekki líða á löngu áður en hann yrði hækkaður.

Þess vegna vilja þeir heldur auka ábúðar- og lausafjárskattinn, og fá þannig aukninguna alla í einu lagi.

En það vona jeg, að háttv. deild sje það ljóst, að jeg vil á hvorugan aðalatvinnuveg landsins halla og vil hvorugum gera hærra undir höfði en öðrum. Enda hæfði það illa, að fjármálaráðh. færi í slíkan ójöfnuð.

Jeg vona líka, að hv. deild hverfi ekki að því óyndisúrræði, að fallast á till. háttv. þm. Stranda. (M. P.), um að flytja stimpilgjaldið inn í frv. þetta, því að með því væru afdrif frv. fyrirsjáanleg.