19.07.1919
Neðri deild: 11. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Þórarinn Jónsson:

Það er ekki af löngun til að tala, að jeg stend upp, heldur af því, að mjer blöskra svo umræðurnar. Minnist jeg ekki þess, að hafa hlustað á óþarfari umr. í þessari deild, og hefir þó oft vel verið. Þegar farið er að jafna saman árum og orfum og reikna út verðgildi þeirra til tollálagninga, þá eru menn komnir í alveg óviðeigandi smámuni. Hins gæta menn ekki, að löggjafarvaldinu er skylt að líta á báða þessa atvinnuvegi sem þjóðarnauðsyn, og ekki síður landbúnaðinn, því með honum stendur menning og þjóðerni þessa lands.

Jeg vil nú í stuttu máli minna menn á, hvernig horfir fyrir þessum atvinnuvegum. Sjávarútvegurinn sækir á einhver bestu fiskimiðin í heimi. Landbúnaðurinn á við mjög ófrjósöm gróðurlönd að fást og erfið ræktunarskilyrði. Sjávarútvegurinn hefir nýtískutæki, landbúnaðurinn úrelt og ónothæf; sjávarútvegurinn hefir aðgang að bönkunum, en landbúnaðurinn mjög takmarkaðan. Þetta vil jeg biðja hv. deildarmenn að athuga til 3. umr.

En hvað hitt snertir, að leggja útflutningsgjald á landbúnaðarafurðir, þá er jeg því algerlega mótfallinn, þegar af þeirri ástæðu, auk margra fleiri, að ýms hjeruð losna algerlega við þennan skatt, sem selja afurðir sínar í bæjunum, og koma þær aldrei til útflutnings. Verður því um megnan ójöfnuð að ræða. Og að jeg fylgdist með í því, að þessi grímuklæddi útflutningstollur væri settur inn í stimpilgjaldslögin, þá var það ekki af því, að jeg áliti það rjettlátt, heldur af fjárhagsástæðum ríkisins, sem neyðarúrræði í svipinn.