03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Að vonum og venju verða langar umr. um þennan bálk fjárlaganna, en jeg mun að sinni ekki lengja þær mikið.

Jeg fyrir mitt leyti er ánægður með flestar brtt. nefndarinnar, þótt þær miði flestar til hækkunar frá því, er stjórnin treysti sjer að leggja til á þeim tíma, er frv. var albúið. Það kann nú að furða einhvern, og hann líti svo á, að það sje ósamræmi í því, að atvinnumálaráðh. sje ánægður með hækkanir frá því, er hann sjálfur hefir lagt til, en til þess liggja ýmsar ástæður. Önnur skrifstofa útvegaði sjer tillögur um þessi mál frá þeim, er með þau fara, svo sem vegamálastjóra, landssímastjóra o. s. frv., og hún lagði í aðalatriðum þessar tillögur fram ásamt meðmælum sínum. En þegar farið var að útbúa frv., var það sýnt, að draga varð úr útgjöldunum, til þess að halli yrði ekki ofmikill, og því varð að slaka til á þessum greinum, sem öðrum fleiri. En síðan hefir ýmislegt breyst, kaupgjald hækkað og verkin orðið því dýrari, en líka samþykt ýms tekjufrv., svo hægra er nú með útgjöld. En rjett og sjálfsagt tel jeg, að varfærni sje sýnd, og því gleðst jeg fremur yfir, að nefndin hefir treyst sjer til að hækka þetta, eins og raun er á orðin.

Þá skal jeg líta nær till. nefndarinnar.

Flestar brtt. nefndarinnar um póstmálin eru litlar, en rjett tel jeg að hækka laun brjefhirðingamanna, því þau eru lítil, en þeir oft bundnir við störf sín.

Jeg er samdóma nefndinni um, að nauðsyn sje, að vel sje hugsað um viðhald flutningabrautanna; þær eru dýr mannvirki, og enginn sparnaður er verri nje dýrari en að halda illa við dýrum mannvirkjum. Annars hefi jeg ekkert að athuga við till. nefndarinnar um þjóðvegina eða sýsluvegina. Það er mjög eðlilegt, þegar aðalbrautirnar eru komnar, að menn vilji fá sem flestar álmur frá þeim, og hliðarlínunum fjölgi með ári hverju.

Samgöngumálanefndin hefir mikið bylt og breytt till. stjórnarinnar, en mjer hefir ekki enn unnist tími til að grandskoða tillögur hennar, og verður það því að bíða seinni tíma; að eins skal jeg geta þess, að stjórnarráðið hafði ekki neinar tillögur um þetta frá forstjóra útgerðarinnar, þegar fjárlögin voru útbúin; þær komu síðar. Enn fremur vil jeg benda á, að kolaverð hefir lækkað, og loks vil jeg taka það fram, að jeg legg sama skilning í styrkinn til flóabátanna og frmsm. (B. St.), um að þeir flytji að sjálfsögðu póst, svo sem verið hefir, milli Reykjavíkur og Borgarness.