25.07.1919
Efri deild: 15. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Magnús Kristjánsson:

Jeg gleymdi áðan einu atriði, sem jeg vildi biðja nefndina að taka til íhugunar, sem sje 5. lið. Það er kunnugt, að hjer liggur nú fyrir annað frv. um sama efni, þótt tímatakmarkið sje annað. Jeg vil beina því til nefndarinnar að taka til athugunar, hvort ekki væri ástæða til þess að hækka lítillega gjaldið á þessum lið, t. d. svo, að það verði kr. 1.50. En sá böggull fylgir, að þá færi hitt frv. ekki lengra en það er komið; ef þetta ráð væri tekið, gæti jeg verið með þessari hækkun, sem jeg nefndi.

Jeg álít, að þetta væri hyggilegt ráð, bæði af því, að með þessu mundu tekjurnar aukast nokkuð, og þar með er girt fyrir það óráð, að leggja á slíkt útflutningsgjald, sem það frv. fer fram á, á atvinnuveg, sem enginn veit hvernig rekinn verður í framtíðinni. Það væri alveg nóg, að næsta þing legði á það útflutningsgjald, ef viðunanlega tækist næsta ár. Þessi mál standa í svo nánu sambandi, að mjer þykir rjett að benda nefndinni á þetta til athugunar nú þegar.