25.07.1919
Efri deild: 15. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Fjármálaráðherra (S. E.):

Ef hægt er að hækka gjaldið samkvæmt 2. lið um 50 aura af hverri tunnu, þá er það í sjálfu sjer gott. En ef sú hækkun er því skilyrði bundin, að stjórnin falli frá síldarfrumvarpinu, þá fer hagurinn að verða tvísýnn. Gerum ráð fyrir, að veiðin nemi 200 þús. tunnum, þá mundi tekjuaukinn nema 100 þús. kr. En eftir síldarfrv. stjórnarinnar mundi tekjuaukinn nema nálægt ½ miljón kr. Ef því frv. yrði komið fyrir kattarnef, þá liti illa út með tekju aukana, og þá mætti svo fara, að grípa yrði til óyndisúrræða, sem ekki yrðu betur þokkuð. Þá mundi verða neyðst til þess að hækka toll á kaffi og sykri.

Ætli það væri betur sjeð?

Jeg hefi áður tekið það oft fram hjer á hinu háa Alþingi, að það liggja sjerstakar ástæður til þess, að tollur á síld er æskilegur. Í fyrsta lagi sópa útlendir menn hjer upp fje, og ekki nema rjett, að þeir greiði skatt af því í ríkissjóð. Í öðru lagi er hjer að ræða um þá atvinnu, sem er stórgróðaatvinna, svo að skattgreiðendurnir hafa nóg bolmagn til að greiða tollinn, og enn fremur má líta á það, að þeir taka allan vinnukraft frá öðrum aðalatvinnuvegi landsins, landbúnaðinum. (M. T.: Taka frá!) Já, það er ekki hægt að neita því: þeir gera það með því að hækka svo kaupið, að skortur er á vinnukrafti við landbúnaðinn.

Þegar á alt er litið, er því eigi nema rjett að leggja skatt á síldina.