09.08.1919
Efri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Frsm. meiri hl. (Halldór Steinsson):

Aðalágreiningurinn út af síldartollinum er fólginn í því, að meiri hlutinn vill fara meðalveg milli stjórnarfrumvarpsins og brtt. Nd., en minni hlutinn vill fara langtum skemra. Jeg held, að allir nefndarmenn hafi verið sammála um, að stefna Nd. sje ekki rjett, tollurinn í ár sje helst til lágr, en tollur næstu ára of hár. Tollurinn í ár er lagður á nokkurn veginn vísan afla, en afli næstu ára er óviss. Ef svipaður afli verður á næsta fjárhagstímabili og útlit er fyrir að hann verði í ár, eða um 300 þús. tunnur, nemur tollurinn samkvæmt till. stjórnarinnar á næstu þrem árum kr. 2.100,000. samkvæmt till. Nd. kr. 2,700.000. en samkvæmt till. okkar kr. 2.400,000. Við förum því meðalveginn í tillögum okkar. Að ekki er farið hærra í ár en í 2 kr., liggur í því, að áður er búið að leggja skatt á síldartunnur, aðfluttar, en hann fellur burtu fljótlega. Þó sá skattur komi aðallega niður á útlendingum, þá er hann samt töluvert tilfinnanlegur fyrir Íslendinga, því margir innlendir menn hafa í sumar flutt inn síldartunnur. Um hitt er aðalágreiningurinn hvort 3 kr. skattur á næstu árum sje sanngjarn. Það er að vísu satt, að síldarútgerðin er stopull atvinnuvegur, en flestir, sem byrjað hafa á honum, munu þó hafa haldið áfram. Og altaf eru fleiri og fleiri, sem bætast við, enda eiga margir auðæfi sín að þakka þessum atvinnuvegi. Þegar á þetta er litið, og hins vegar þörf landssjóðs, og það, á hve fáum tekjustofnum er völ, þá verður ekki annað sjeð en að sanngjarnara sje að leggja þennan skatt á síldina en á aðrar atvinnugreinar, sem ekki mættu við því. Þess ber og að gæta, að mikið af þessum skatti bera útlendingar, og hefði fjárhagsnefnd farið miklu lengra, ef Íslendingar bæru ekki skattinn líka. En hjer er ekki svo auðvelt að skilja sauðina frá höfrunum. Það má að vísu segja, að æskilegt væri, að engir tollar hvíldu á innlendri framleiðslu, en hagur ríkissjóðs er nú svo bágborinn, að ekki er um annað að velja. Þessu verður að halda áfram meðan skattalöggjöfin ekki er komin í betra horf en raun er á.

Þá skal jeg minnast stuttlega á ástæður hv. minni hluta. Mig furðar á, að síldin skuli hafa getað komið hv. þm. Ísaf. (M. T.) í jafnslæmt skap og minni hluta álitið ber vott um. Hann kallar skattinn „viðrini“ talar um „skattarán“ o. s. frv. Hann heldur því fram, að þingið með þessum lögum afneiti fyrri stefnu sinni í skattamálum. En þetta er ekki rjett. Síldartollurinn er í samræmi við önnur gjöld á íslenskum afurðum, sem út eru fluttar. Síldin er ekki tekin út úr, heldur er hún tekin með og lagt hlutfallslega á hana. — Þá talar hv. minni hluti (M. T.) um verð á síld. Á einum stað telur hann síldartunnuna kosta frá skipi kr. 16.00. Á öðrum stað segir hann, að útflutningshæf síldartunna standi útgerðarmönnum í 60–70 krónum. Þetta er hvorttveggja handahófságiskanir. Það liggur í hlutarins eðli, að kostnaðurinn er mjög mismunandi, og ómögulegt er að segja, í hve miklu verði útflutningshæf síldartunna standi útgerðarmanni. Það kann að vera, að þeir, sem selt hafa nýja síld, hafi fengið 16 kr. fyrir tunnu síldar, en í þeim 16 kr. felst hagnaður útgerðarmanna, svo rangt er að segja, að hún standi þeim í 16 kr. — Þá telur hv. minni hluti enga nauðsyn á að leggja þennan toll á vegna tekjuhalla landssjóðs. Landssjóður hafi „yfrið nægar“ tekjur. Það skín í gegn, að hann hafi jafnvel of miklar tekjur. Bjartsýni er að vísu góð, en þó held jeg, að of mikil bjartsýni sje síst til bóta, þegar um ríkissjóð er að ræða. Best er að stjórna landsbúinu á líkan hátt og einstaklingarnir stjórna sínum búum, en hygnir búendur leggja oft mikið á sig til að verjast skuldum og eiga fremur afgang. Jeg býst við, að það verði engin vandræði með að koma út þeim peningum, sem fást upp í þennan toll.

Þá er það eitt, sem mikils er um vert að sje ráðið heppilega fram úr; jeg á við hlutfallið milli tollsins í ár og tollsins næstu ár. Næstu ár verða síldartunnurnar miklu ódýrari en nú. Sá mismunur nemur miklu meiru en mismunurinn á tollinum.

Jeg skal svo ekki fara lengra út í málið að þessu sinni. Meiri hluti nefndarinnar gengur út frá því sem sjálfsögðu, að annað frv., sem fyrir nefndinni liggur, um 4 kr. skatt á síldartunnu á næsta fjárhagstímabili, fari ekki lengra, ef brtt. nefndarinnar verður samþ.

Um 1. og 3. brtt. held jeg að nefndin hafi verið sammála.

Nefndin vill fella 15. lið burtu vegna þess, að þar er tollurinn miðaður við verð aflans, en alstaðar annarsstaðar í frv. er miðað við þunga; hefir nefndin flutt 15. lið að efni til undir 2. lið. Að vísu má búast við, að tollurinn komi ekki allur til skila, en sama hefði orðið ofan á, þó að 15. liður hefði fengið að standa.

Af öðrum brtt., sem fram hafa komið eru tvær frá háttv. minni hl. (M.T.), en ein frá háttv. þm. Ak. (M. K.). Fyrri brtt. háttv. minni hluta (M. T.) er svo fjarri öllum sanni, að ekki kemur til mála, að nefndin geti fallist á hana. Mjer skildist ekki betur í nefndinni en að hann fjellist á 2 kr. toll, þó að ekki vildi hann fara lengra. Till. háttv. þm. Ak. (M. K.) er aftur samhljóða fyrri stefnu háttv. þm. Ísaf. (M. T.), en fer þó of skamt til þess að meiri hlutinn geti fallist á hana

Um 2. brtt. háttv. þm. Ísaf. (M. T.) get jeg að eins gefið þær upplýsingar, að hún var ekki rædd af nefndinni, svo mjer er ekki kunnugt um, hvaða afstöðu háttv. 3. nefndarmaðurinn muni taka gagnvart henni.

Mælist jeg svo til þess fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar, að háttv. deild samþ. brtt. meiri hl., en felli 1. brtt. háttv. þm. Ísaf. (M. T.) og brtt. háttv. þm. Ak. (M. K.).