09.08.1919
Efri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg er búinn að tala alloft um þetta mál, enda skal jeg ekki vera langorður í þetta sinn.

Háttv. meiri hluti nefndarinnar hefir lagt til, að síldarskatturinn yrði í ár 2 kr., en framvegis 3 kr. Er þetta hækkun frá því, er stjórnin ætlaðist til, en lækkun frá því, sem samþ. var í hv. Nd. Þar eð svo lítur út, sem till. háttv. meiri hluta muni verða vegur til samkomulags, mun stjórnin styðja þær.

Háttv. minni hluti vill vísa málinu frá með rökstuddri dagskrá, en jeg hefi ekki orðið var við eina einustu gilda ástæðu fyrir þessari tillögu.

Hv. minni hluti segir, að útflutningsgjald á framleiðslu nauðsynja sje viðrini, er fari í bág við grundvallarreglur sæmilegrar skattalöggjafar. Má vera, að yfirleitt megi finna betri leiðir en útflutningsgjaldsleiðina. en í íslenskri skattalöggjöf hefir sú leið verið farin hvað eftir annað og eins og margoft hefir verið tekið fram um þetta útflutningsgjald, þá eru sjerstakar ástæður, sem mæla með því fram yfir alt annað útflutningsgjald, er skapa því fullkomna sjerstöðu.

Þá talar minni hlutinn um það, að þetta frv. brjóti bág við stefnu Ed. á aukaþinginu 1916–1917, að leggja ekki slíkt gjald á síldarútgerð hjerlendra manna. Þar er því til að svara, að þótt hv. deild hafi samþykt eitthvað fyrir nokkrum árum, þá er hún alls ekki bundin við það nú. En þá stefnu, að leggja sama gjald á erlenda útgerðarmenn sem hjerlenda, en endurgreiða hjerlendum mönnum aftur gjaldið, get jeg ekki lengur felt mig við. Jeg hygg, að ekki sje rjett að gera þennan greinarmun á innlendum og erlendum mönnum, eins og nú stendur á.

Háttv. minni hluti hefir reiknað út, hve mikið útflutningshæf síldartunna muni kosta framleiðanda, og kemst hann að þeirri niðurstöðu, að tunnan muni standa honum í 60–70 kr. Það er mjög erfitt að reikna út kostnaðinn á hverri tunnu, og má gera það á mismunandi hátt. Jeg hefi einnig aflað mjer útreikninga uni þetta efni. Sumum hefir kostnaðurinn reiknast 62 kr., öðrum 65 kr. o. s. frv. En ýmsir liðir á þessum útreikningum virðast alt of háir. Jeg er t. d. ekki í neinum vafa um það, að of hátt er að reikna síldartunnuna á 26 kr., eins og gert er á einum útreikningnum. Þó tunnurnar sjeu dýrar, og einstaka menn hafi ef til vill keypt tunnur sínar svo háu verði, þá mun þó sanni nær, að meðalverð sje sett á 2 kr. Ef margir liðir eru jafnhátt reiknaðir, er lítið byggjandi á þessum útreikningum.

Jeg veit ekki, á hvaða tunnuverði minni hlutinn byggir, og ekki heldur hve mikið salt hann ætlar í hverja tunnu, hvort það er ¼ tn. eða 1/3 tn. eða jafnvel ½ tn. Fyrir ófriðinn gerðu menn ráð fyrir, að ¼ tn. af salti þyrfti í hverja síldartunnu, en nú reikna menn venjulega 1/3. Jeg veit heldur ekki hvaða saltverð hann leggur til grundvalla, en ekki mætti það vera hærra en verð landsverslunarinnar, að viðbættum flutningskostnaði.

En þrátt fyrir það, að kostnaðurinn við síldarútgerð er mikill, leggja menn mjög mikla áherslu á að reka þessa veiði. Verkafólki er borgað afskaplega hátt kaup, til þess að nægur mannafli fáist. Þetta sýnir, að hjer er um arðsaman atvinnuveg að ræða. Það er ekki til neins að bera á móti því. Það nær ekki neinni átt, að menn vildu leggja jafnmikið fje í hættu, ef eigi væru líkur fyrir stórgróða í aðra hönd. Jeg bað einn útgerðarmann að gera áætlun yfir kostnað við síldarútgerð og söluverð síldarinnar. Niðurstaðan varð sú, að mörg þúsund króna tap varð á útgerðinni. Jeg á bágt með að trúa því, að menn leggi út í slík fyrirtæki með fyrirsjáanlegu stórtapi, og er því lítið að marka slíka útreikninga. Enda er það alkunnugt, að stórefni hafa skapast við þennan atvinnuveg.

Það er rangt hjá hv. þm. Ísaf. (M. T.), að menn amist við því, að fje safnist í landinu. Síður en svo. En þegar ríkissjóður þarf mikla tekjuauka, er sjálfsagt að líta í þau hornin, þar sem peningahrúgurnar eru hæstar. Þaðan verður að taka fjeð.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) legst mjög á móti því, að þetta útflutningsgjald verði gert að fastaskatti. En mjer hefir skilist það af brtt. hv. þm. Ak. (M. K.), að hann fallist á 2 kr. gjald á tunnu af veiði þessa árs, og er það í samræmi við ummæli hans við 1. umr. En líti menn til næsta árs, hygg jeg að 3 kr. gjaldið verði ekki of hátt, ef mönnum er leyft að greiða 2 kr. gjald nú, því að mikil líkindi eru til þess, að framleiðslukostnaðurinn minki. Það má t. d. búast við því, að tunnur verði komnar niður í ca. 12 kr. að ári, og verður þá betra að greiða 3 kr. af tunnunni, er hún kostar 12 kr., heldur en 2 kr. þegar tunnan kostar 20 kr.

Einnig að öðru leyti er þessi gjaldstofn vel fallinn til þess að verða fastur stofn. Að eins helmingurinn af þessum skatti kemur niður á landsmenn; hinn helmingurinn kemur niður á erlenda útgerðarmenn, er færa sjer í nyt auðæfi landsins. Nú legg jeg ekki áherslu á að leggja skatta á útlendinga að ástæðulausu. En á þá, sem raka saman fje hjer við strendur landsins, er þetta sannarlega ekki of þungur skattur. Um þetta ættu allir að geta verið sammála.

Árið 1914 veiddu Íslendingar 26% af öllum síldarafla við strendur landsins. 1915 veiddu þeir 32% og 1916 um 50%. Nú geri jeg ráð fyrir því, að Íslendingar muni framvegis veiða jafnmikinn hluta. Ef við áætlum síldaraflann 200,000 tunnur alls, myndu útlendingar greiða 300,000 kr. árlega, með 3 kr. útflutningsgjaldi. Um rjettmæti þessa helmings af skattinum ætti ekki að þurfa að ræða. Hinn helmingar skattsins kemur niður á þá, sem efnamestir eru í landinu. Þetta er því einn hinn besti tekjustofn, sem unt er að fá.

Þá þegir hv. þm. Ísaf. (M. T.), ,,að með örlitlum undirbúningi af hendi stjórnarinnar var í lófa lagið að ná nægilegum tekjuauka í landssjóð, án þess tiltölulega að íþyngja neinum gjaldanda frá því, sem orðið var“.

Þetta er mjer óskiljanlegt. Jeg hygg, að það myndi verða mjög erfitt.

Loks kemur það bert fram, að hv. þm. lítur svo á að landssjóði sje engin þörf á tekjuaukum. Kvað hann það vera stjórnarinnar að skýra þinginu ljóslega frá þörfum landssjóðs. Þetta er sjálfsagt. En jeg man ekki betur en að stjórnin gerði þetta þegar fjárlögin voru lögð fyrir þingið. Jeg hefi altaf álitið það nauðsynlegt, að þingmenn hefðu sem besta hugmynd um fjárhag landsins, svo að þeir geti gert sjer ljósa grein fyrir þörfum hans, og því tók jeg þá reglu upp, að gefa þegar í byrjun hvers þings eins nákvæma skýrslu um allan fjárhag landsins og hægt var.

Samkvæmt yfirliti því, er jeg gaf í hv. Nd., þegar fjárlögin voru lögð fyrir hana, nam tekjuhallinn árið 1918 2½ miljón króna. Þetta sýnir, að engin vanþörf er á því að auka tekjur landssjóðs. Jeg gat þess og þá, að jeg myndi gera gleggri grein fyrir því síðar, hvernig útlitið væri fyrir yfirstandandi ár. Þá lagði jeg og áherslu á, að tekjuaukafrv. stjórnarinnar gengju greiðlega gegnum þingið, og að svo yrði gengið frá fjárlögunum fyrir 1920–1921, að á þeim yrði ekki tekjuhalli. Með þessu eina móti sagði jeg, að fjárhag landsins myndi sæmilega borgið.

Jeg tók það og fram, að þeir tekjuaukar, sem stjórnin legði fyrir þingið, væru tæplega nægir til að vega á móti hallanum á yfirstandandi fjárhagstímabili og samkvæmt fjáraukalögunum og launafrv. stjórnarinnar. Verði það samþ. kt. má búast við 800,000 kr. útgjaldaauka árlega. Hann er ekki færður í fjárlagafrv. En að sjálfsögðu verður að reikna með honum, því að ganga verður að því vísu, að þingið skilji ekki svo við, að embættismenn ríkisins fái ekki einhverjar launabætur. Auk þess hafa komið í ljós ýmsir aðrir útgjaldaaukar samkvæmt sjerstökum lögum.

Það má því alls ekki rýra tekjuauka stjórnarinnar, sem eru á ferðinni í þinginu, heldur miklu fremur bæta við þá. Þetta hefir hv. Nd. skilið og greitt vel fyrir frv. stjórnarinnar. En ef farið er eftir till. hv. þm. Ísaf. (M. T.), fara tekjuaukar stjórnarinnar að rýrna.

Jeg álít það samviskusök, ef hv deild samþykkir ekki frv. Enn þá hefir ekki, hvorki af hv. þm. Ísaf. (M. T.) nje öðrum, verið bent á aðrar tekjuaukaleiðir en þessar. Og verði það ekki gert, er óverjandi að stytta frv. aldur.