09.08.1919
Efri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Guðmundur Ólafsson:

Jeg skal verða stuttorður. Ekki man jeg betur en hv. frsm. minni hlutans (M. T.) hafi á nefndarfundum fallist skilyrðis- og ,,halalaust“ á 2 kr. toll. En það virðist svo, sem hann hafi dregið að sjer höndina. Þó honum hafi virst einhver hugnun að því, að koma með viðbótartill. um útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum, þá getur hann ekki búist við, að það verði til neins. Það er fyrirsjáanlegt, af því sem á undan er gengið, hvernig slíkar till. færu í Nd.

Hv. frsm. minni hlutans (M. T.) telur í öðru orðinu stórtjón að síldarútgerð, en í hinu stórgróða að henni. Þetta gengur sitt á hvað hjá honum. Jeg hygg, að það þurfi ekki mörgum blöðum um það að fletta, hvort sje rjett hjá honum. Menn voru yfirleitt svo fíknir í þessa atvinnu, að það getur varla verið um stórtjón af henni að ræða venjulega, heldur hið gagnstæða. Engir borga hærra kaup en síldarútgerðarmenn. En ef við borð liggur, að flestir hætti útgerðinni, ef þeir afla í sumar í þær tunnur, sem þeir eiga nú, eins og hann hefir öðru hvoru á orði, hví er hann þá hræddur við þennan skatt framvegis? Jeg er hræddur um, að þessi fullyrðing háttv. þm. hafi við lítið að styðjast. Annars væri varla þessi ákafa mótspyrna.

Hv. þm. Ak. (M. K.) hefir talað í líkum anda, en fremur hallast að því, að altaf væri tap að síldarútgerðinni. Það er altaf gott að vera ánægður með sjálfan sig, eins og hv. þm. Ak. (M. K.) er, en mundi ekki vera ástæða til að halda, að í 5 manna nefnd í Nd. væri jafnmikið vit á þessu máli og í hv. þm. Ak. (M. K.) einum? (M. K.: Nefndin er ókunnug þessum efnum). Þrátt fyrir barlóm þessa hv. þm. sýnir reynslan samt, að síldarútvegurinn hepnast oftast, enda hafa tollarnir á honum hækkað ört, eins og þm. sýndi fram á.