09.08.1919
Efri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Eggert Pálsson:

Í máli þessu eru tvö aðalatriði og finst mjer rjett að halda þeim sem fastast, svo þau kafni ekki í einhverjum smáaukaatriðum.

Fyrra aðalatriðið er, hvort þörf sje á nýjum viðbótarskatti, og hitt er, hvar eigi að leggja þennan viðbótarskatt á.

Um það, hvort þörf sje á þessum viðbótarskatti, hygg jeg, að ekki geti verið skiftar skoðanir. Jeg hygg, að allir hljóti að komast þar að einni og sömu niðurstöðu, að það sje brýn þörf fyrir hann, og jafnvel þótt meiri væri. Það vita allir, að nú liggja fyrir dyrum mikil og aukin útgjöld ríkissjóðs. Þetta er svo alkunnur sannleikur og staðreynd, að það þarf ekki að benda á nein einstök dæmi því til sönnunar, og mjer finst líka, að hv. frsm. minni hlutans (M. T.) komist að sömu niðurstöðu um þetta, þótt hann gefi annað í skyn í nefndarálitinu, því hann virðist viðurkenna það með 2. brtt. sinni.

En það vill nú vera svo, að þótt menn viðurkenni, að þörf sje á skattinum, þá eru skiftar skoðanir um það, hvað eigi að skatta. Hv. þm. Ísaf. (M. T.) vill nú, eins og endranær, að engir skattar verði lagðir á sjávarútveginn, þennan atvinnuveg, sem hann sagði í gær að ætti alt. Og þótt hann sje málsvari þess atvinnuvegar yfir höfuð, þá er þó einkum eins og komið sje við hjartað í honum, ef minst er á síldina í því sambandi; hann vill heldur láta skatta alt annað en hana. Orsök sú, er hv. þm. (M. T.) tilfærir fyrir því, að það sje algerlega ófært að skatta síldina, á nú á eina hliðina að vera sú, að á þingi 1916–’17 var borið fram frv. til laga um síldartoll, og því frv. var vísað til stjórnarinnar með rökstuddri dagskrá. En eins og allir vita, var orsökin til þess, að svo var gert, en tollurinn þá ekki hækkaður, sú, að hv. deild líkaði ekki aðferð hv. Nd. í svipuðu máli. Og hvað þessa rökstuddu dagskrá snertir, þá bendir hún eigi í þá átt, að hv. Ed. sje á móti þessum tolli í raun og veru, eða líti svo á, að hann eigi aldrei að eilífu að hækka. Ef hún hefði litið svo á, hefði hún ekki falið stjórninni að undirbúa málið, eins og hún þó gerði með dagskránni.

Önnur ástæða. er hv. þm. Ísaf. (M. T.) færir fram á móti hækkun á síldartolli, er sú að þessi atvinnugrein borgi sig afarilla. En ef svo væri, þá væri það harla undarlegt, að hún færi altaf vaxandi ár frá ári; en svo hefir það verið hingað til.

Hv. þm. Ak. (M. K.) rakti í sambandi við síldartollinn sögu síldveiðanna hjer á landi, og hann sýndi fram á það, að altaf hafa verið lagðir meiri og meiri skattar á atvinnuveg þennan. En þótt svo hafi verið, sem jeg skal ekkert mótmæla, þá hefir þó reynslan sýnt, að útvegur þessi hefir altaf blómgast meir og meir; og virðist það ótvíræðilega benda á það, að þessi atvinna sje mjög svo arðvænleg. Það bendir og á hið sama, að helstu auðmenn vorir hafa orðið auðmenn fyrir það, að leggja stund á þennan atvinnuveg.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) færði það fram sem ástæðu fyrir, að þessi atvinnuvegur hefði borgað sig illa, að kaupgjaldið væri orðið svo hátt. En af hverju stafar þetta gífurlega háa kaupgjald, sem nú er orðið? Mun það ekki einmitt vera þessi atvinnuvegur, framar öðrum, sem hefir skapað það? En að bjóða svo hátt kaupgjald eins og hann gerir, svo hátt, að segja má, að hann bjóði alla aðra atvinnuvegi frá, kemur vitanlega af því, að hann finnur að hann stendur sig við það.

Það sjá líka allir, að þetta háa kaupgjald, sem þm. mintist á, lendir líka á öðrum atvinnuvegum, á meðan þeir eru við lýði; því þegar síldveiðamenn bjóða svo og svo hátt kaup, eins og þeir gera, verða aðrir að gera það líka, ella fengju þeir ekkert fólk til sinnar iðju. Hjer er því ekki um neina sjerstaka ástæðu að ræða á móti hækkun síldartollsins. Ef hv. þm. (M. T.) vildi vera í samræmi við sjálfan sig um þetta, þá hefði hann ekki átt að bera fram 2. brtt. sína. Annars skal jeg ekkert segja um þá brtt., eða það, hvort leggja eigi útflutningsgjald á landbúnaðarafurðir eða ekki, en í sambandi við það vil jeg benda á, að fyrir þinginu liggur frv. til laga um að hækka ábúðarskattinn úr 2/5 al. í 4/5, al., eða um helming. En þegar alls er gætt, þá er hjer í raun og veru farið fram á að hækka ábúðarskattinn mikið meira en um helming. Því eins og allir vita, er hann reiknaður í álnum, en verðmæti alinar hefir breyst mjög með hækkandi verðlagsskrá, minst þrefaldast síðan hann var ákveðinn, svo í raun rjettri er hann með áminstu frv., rjett á litið, sexfaldaður. Jeg kvarta þó ekki yfir þessu, og jeg hefi ekki heyrt neinn gera það. (M. K.: Hver er skattupphæðin?) Það hefir ekkert að segja í þessu sambandi, hver upphæðin er; skattur er jafnt skattur, hversu stóra eða smáa upphæð hann gerir samanlagður.

Það má öllum ljóst vera, að öll reynsla bendir á, að síldveiðarnar borgi sig vel, hvað sem þm. Ísaf. (M. T.) segir. Hví skyldu þær annars aukast? Og ef þær ekki væru arðvænlegri en hv. þm. (M. T.) gefur í skyn, ætli útgerðarmennirnir mundu þá ekki hugsa meira um þorskveiðarnar en þeir gera um sumartímann; þeir hafa þó allan útbúnað til þess, skip, veiðarfæri og menn, engu síður en til síldveiðanna.

Jeg býst við, að hv. þm. sjeu allir búnir að átta sig á frv. og því sje ekki þörf á að ræða einstök aukaatriði, en læt mjer nægja, með þessum fáu orðum, að vekja athygli á aðalatriðum málsins. Og þau benda ótvíræðlega í þá átt, að hækka beri síldartollinn framar öðrum sköttum.