03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Björn Kristjánsson:

Eins og sjest á nál. á þgskj. 460 hefi jeg undirritað það með fyrirvara. Skal jeg nú í fáum orðum gera grein fyrir hvers vegna jeg gerði það. Fyrirvarinn snertir till. á þgskj. 461. um styrk til ferða um Faxaflóa. Eins og hv. deildarmenn sjá gengur aðaltillaga nefndarinnar í þá átt, að h. f. Eggert Ólafssyni sjeu veittar hvort árið 20 þús. kr. til að halda uppi ferðum við Faxaflóa. Varatillagan gengur í þá átt, að Eimskipafjelagi Suðurlands verði veittar 30 þús. kr. hvort árið til sömu ferða.

Jeg var þeirrar skoðunar, og sama er að segja um fleiri nefndarmenn, að heppilegra væri að semja um strandferðir við það fjelag sem betra skip hefði að bjóða, og auk þess hafði trygt sjer meiri flutning. Eimskipafjelag Suðurlands er stofnað af kaupmönnum og ýmsum fleirum, sem flytja þurfa vörur innan Faxaflóa og til Eyrarbakka eingöngu í þeim tilgangi að annast fólks- og vöruflutning. Það fjelag hefir betra skip að bjóða en h. f. Eggert Ólafsson, sem annast hefir ferðir þessar undanfarið, eins og kunnugt er, með „Skildi“, sem er svo ljelegt skip til slíkra ferða, að ekkert annað en neyðarástand styrjaldarinnar getur rjettlætt að það hefir verið notað. „Skjöldur“ er mjög lítið skip, og það sem lakara er, hefir hann ekkert skýli fyrir farþega, svo meiri hluti þeirra verður að standa uppi á þilfari, hvernig sem viðrar. Skipið er auk þess mjótt og gengur vel, en af því leiðir aftur að það er ágjöfult, og er slíkt ekki þægilegt fyrir farþegana. Skip Eimskipafjelags Suðurlands er aftur á móti þrefalt stærra en „Skjöldur“, eða um 250 smálestir. Auk þess er það betur lagað til að flytja farþega, er þarfnast skýlis. Jeg fyrir mitt leyti tel heppilegra að taka tilboði þess fjelags, sem betra skip hefir að bjóða, en hins, hversu lágt sem það væri.

Meiri hluti nefndarinnar hefir aftur á móti gert að tillögu sinni, að tilboði h. f. Eggerts Ólafssonar verði tekið, og er honum það vorkunn, því svo mikil samkepni var milli þessara fjelaga um að undirbjóða hvort annað við strandferðirnar, að ekki er annað sjáanlegt en tap hljóti að verða af ferðunum eigi þær að vera í nokkru lagi, hvort fjelagið sem fær styrk til þeirra. Mjer finst því — ef ekki væri annað atriði til afsökunar — hv. meiri hluti nefndarinnar hugsa meira um sparnað en að strandferðirnar komi að hæfilegum notum. Eimskipafjelagið áskildi sjer nefnilega rjett til að draga stærra skipið út úr einstaka ferðum, þegar það kom með svona lágt tilboð, og setja smærra skip í þess stað. Mun þessi fyrirvari hafa gert það að verkum, að hv. meiri hluti gerði að aðaltillögu sinni, að h. f. Eggert Ólafsson væri veittur styrkurinn, þar sem tilboð þess var þó ákveðið. Hefir hann ef til vill óttast, að Eimskipafjelag Suðurlands ljeti mótorbáta fara þær ferðir, sem aðalskipið var undanþegið að fara.

En nú er komið brjef frá Eimskipafjelagi Suðurlands, er jeg vil leyfa mjer að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta. Brjefið er svo hljóðandi: ,,Að gefnu tilefni viljum vjer taka það fram, að það er tilætlun vor, að eimskipið „Suðurland“ (áður nefnt „M. Davidsen“) fari allar áætlunarferðir að vetrarlaginu, er um ræðir í síðasta tilboði voru til háttvirtrar samgöngumálanefndar, en hins vegar viljum vjer hafa leyfi til að láta annað skip fara einstöku ferðir að vor- og sumarlaginu, en skuldbindum oss þó jafnframt til, að það skip sje eigi lakara en e. s. „Skjöldur.“

Þetta ætti að vera fullnægjandi, og er jeg viss um, að ef það hefði legið fyrir nefndinni áður en nál. var samið, hefði aðaltillaga hennar gengið í þá átt, að veita Eimskipafjelagi Suðurlands styrkinn, er jeg geri ráð fyrir að fullnægi ferðunum að öllu leyti, en að hitt skipið haldi uppi strandferðum tel jeg neyðarúrræði.

Að vísu hafa jafnvel mótorbátar verið styrktir til að halda uppi strandferðum síðustu ár, en slíkt hefir helgast af neyðarástandinu, en sem betur fer er það nú að mestu um garð gengið í þessum efnum.

Þar við bætist, að starfsemi h. f. Eggert Ólafsson er að reka fiskiveiðar, en ekki vöru- nje farþegaflutning, og tel jeg líklegt, að svo fari, að ef tap verður á strandferðunum næstu tvö ár, muni það selja skip sitt að þeim tíma liðnum, eða gera það út á fiskiveiðar, og er þá engin vissa fengin fyrir því, hvað við tekur. Hitt fjelagið má aftur á móti búast við að haldi áfram að starfa að strandferðum, og geti því orðið til frambúðar.

Eins og jeg benti á áðan, er styrkveiting sú, er hv. fjárveitinganefnd leggur til, ónóg, ef sjá á fyrir sæmilegum samgöngum á Faxaflóa, og álít jeg, að það muni margborga sig til frambúðar, að hækka hann, hvort fjelagið sem fær hann. Verði tap á ferðunum þetta fjárhagstímabil, má búast við, að fjelögin annaðhvort dragi sig til baka, eða krefjist styrkauka næsta fjárhagstímabil, sem svarar tapinu.

Hv. frsm. (M. P.) sagði, að með þessum styrk væri sjeð fyrir þeim ferðum, sem ríkissjóði væri skylt að annast. Mjer er ekki ljóst, hvað hv. frsm. meinar með þessu. Jeg tel ríkissjóði skylt að fullnægja samgönguþörfinni Og nú skulum við athuga, hvort þessi upphæð sje nægileg til þess.

Fjelög þessi hafa gert ráð fyrir að fara 10 ferðir um sunnanverðan Faxaflóa. Má til samanburðar nefna, að meðan „Reykjavíkin“ var hjer fór hún 20 ferðir. ,,Ingólfur“ fór 25 ferðir milli Reykjavíkur og Borgarness.

Í minsta lagi þarf að fara 3 ferðir suður á mánuði yfir sumartímann, og 2 ferðir á mánuði yfir vetrartímann. Og þegar litið er til þess, að „Ingólfur“ fjekk 14 þús. kr. styrk á ári fyrir stríðið, hvernig heldur þá hv. deild að „Skjöldur“, þó að hann sje ekki stærri en hann er, geti komist af með 20 þús. kr. nú?

Mjer finst hv. frsm. (M. P.) hafa hlífst við að geta þess, að brjef það, er jeg las upp áðan, kom frá Eimskipafjelagi Suðurlands, svo nú liggur fyrir fastákveðið tilboð.

Jeg lýk máli mínu með að vona, að brjefið komi bæði hv. meiri hluta fjárveitinganefndar og hv. deild til að semja við það fjelag, sem betra skip hefir á boðstólum, enda þótt það verði nokkru dýrara en hitt tilboðið.