11.08.1919
Efri deild: 27. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Eggert Pálsson:

Ýmsir af þeim, sem hafa tekið til máls, hafa lofað að verða ekki langorðir. Jeg ætla ekki að gefa neitt loforð um það, en á hinn bóginn vona jeg, að jeg verði ekki langorðari en þeir hafa, þrátt fyrir loforð sín, orðið.

Meðmælendur síldarinnar, hv. þm. Ísaf. (M. T.) og hv. þm. Ak. (M. K.), eru nú báðir dauðir. En jeg vona, að þeir telji sjer ekki vansæmd í því, þó jeg verði til þess að kasta þá moldum.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) talaði um, að nauðsynlegt væri að snúa sjer að aðalatriðunum. Er jeg honum sammála um það. Hins vegar vildi hann draga út úr ræðu minni, að jeg legði kapp á, að þessi atvinnuvegur yrði skattlagður, af því, að jeg vildi hann feigan. Þetta er hinn mesti misskilningur. Jeg vildi leggja skatt á þennan atvinnuveg, af því að jeg held hann færastan allra atvinnuvega um að bera aukinn skatt. Og jeg get ekki betur sjeð en að háttv. mótstöðumenn skattsins sjeu mjer sammála um það í raun og veru. Þeir hafa tekið fram, að hjer sje um gullnámu að ræða.

Og hvar á frekar að taka nauðsynlega skatta en úr þessari miklu gullnámu?

Að þessi atvinnuvegur er fær um að bera gjöldin sýnir ekkert frekar en það, að hann þolir að spenna upp kaupgjaldið. Sömuleiðis má rökstyðja gjaldþol þessa atvinnuvegar með því, sem hv. þm. Ísaf. (M. T.) drap á, að landbændur eru farnir að leggja fje í hann. — Hvers vegna skyldu þeir verða að klífa þrítugan hamarinn til að eignast hluti í þessum atvinnuvegi, ef ekki væri um meiri gróða að ræða en af öðrum fyrirtækjum?

Það liggur í hlutarins eðli, að þar sem þessi atvinnugrein ber sig vel og borgar hátt kaup, dregur hún fólkið að sjer. Hins vegar hafa andmælendur mínir tekið fram, að þessi atvinnuvegur sje afarstopull. Sje það nú hvorttveggja rjett, verðum við að líta lengra. Ef honum er leyft að vaða uppi því sem næst skattfrjálsum, meðan hann ber sig svo mætavel, sem hann nú gerir, hvað á þá að gera við fólkið þegar að því rekur, að hann stoppar? Er ekki rjett að nota þessa miklu tekjulind meðan hún gefst, heldur en að hleypa henni skattfrjálsri fram hjá sjer þangað til hún er þrotin, og jafnframt búin að eyðileggja aðra atvinnuvegi landsins.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) tók það fram, að sjer hefði orðið mismæli eða hann afturkallaði fyrri ummæli sín um það, að sjávarútvegurinn ætti alt. Hefi jeg ekkert að athuga við það, en býst þó við, þegar hann ljet þau ummæli falla, að fyrir honum hafi vakað, að hann, sem fulltrúi sjávarútvegsins, mætti sín mikils hjer í deildinni, og því væri óhætt að bera sig borginmannlega. En svo er hann varð þess vísari, að áhrif hans voru ekki eins mikil og hann bjóst við, hafi hann sjeð, að slíkt háttalag lánaðist ekki, og því tekið upp þá aðferðina, að vera lítillátur og telja sjávarútveginn öreiga, sem þurfi linkinda með, í von um að sú aðferðin færði honum betri árangur.

Jeg læt hjer svo staðar numið. Umr. eru þegar orðnar langar, og býst jeg við, að atkv. þm. breytist eigi, þó þær verði lengri.