12.08.1919
Efri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Frsm. minni hl. (Magnús Torfason):

Jeg skal ekki fara langt út í þetta mál nú, enda mun það lítið þýða, sem komið er.

Jeg vildi að eins hafa bent á það, að í 2. gr. hefði þurft að fella burt síðustu orðin, með því að þau standa í sambandi við 15. lið; hefði meiri hl. átt að athuga þetta, um leið og hann lagði til að kippa 15. lið burt, þótt vitanlega geri þetta ekki mein.

Jeg get ekki komist hjá því, að rjettlæta mig lítið eitt eftir þær umræður, sem fjellu síðast eftir að jeg var dauður. Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) vildi vefengja áætlun mína um tekjuaukann 1919. Jeg hefi nú athugað þetta efni nánara og komist að þeirri niðurstöðu, að tekjuaukinn 1919 muni nema sem næst 2½ milj. króna. Þess ber að gæta í þessu sambandi, að sumt af tekjuaukanum 1918 kom ekki fram fyr en seint á því ári. Eftir þessum athugunum mínum eru tekjuaukarnir þessir, umfram það, sem þeir voru 1918:

Vörutollur 200 þús. kr.

Stimpilgjald 500 — —

Dýrtíðar- og gróðaskattur. 100 — —

Útflutningsgjald 600 — —

Aðflutningsgjald 100 — —

Símatekjurnar hækkuðu um

mitt ár 1918 og verða því

hærri nú um ca 200 þús. kr.

Enn fremur kúguðum við hæstv. fjármálaráðh (S. E.) til að græða á síldinni 300 — —

Tunnutollur 500 — —

Alls nemur þetta 2500 þús. kr.,

að því ógleymdu, að árið nú verður hið mesta veltiár í aflabrögðum. Samkvæmt þessu mun öllum skiljast, hve feikilega og frámunalega skökk áætlun hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) var, og hefði síst tekið því fyrir hann að þyrla upp því moldviðri, sem hann gerði í gær, enda var ekki um nema 300 þús. kr. að ræða, með frádrætti þó.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) vildi ekki viðurkenna, að hann væri á móti óbeinum sköttum. Jeg heyrði hann þó lýsa yfir þessu í ræðu, sem hann hjelt í Nd., og var þó óþarft fyrir hann að segja þetta. Hygg jeg, að þetta muni sjást svart á hvítu, ef vel er grafið í umræðurnar. Auðvitað má vera, að hann hafi mismælt sig.

Síldarveiðin á Ísafirði byrjaði svo, að menn þar höfðu ekki ráð á því að kaupa síldartunnur, og urðu því að veiða í tunnur, sem Norðmenn áttu, og við það mistu þeir mjög mikið af ágóðanum.

Hv. frsm. meiri hl. (H. St.) vildi halda því fram, að jeg hefði verið í mótsögn við sjálfan mig, þar sem jeg hefði sagt, að veiðarnar væru að verða innlendar, og að þær mundu ef til vill hætta. En jeg sagði, að veiðarnar hefðu orðið smátt og smátt innlendar. Þetta vita allir að er satt. Hvaða innlendar síldveiðar voru hjer fyrir 10 árum? Alls engar. Og það var eðlilegt, að þær færu vaxandi, þar sem allar vörur fóru hækkandi: eins eðlilegt er það, að þegar alt fer lækkandi, þá hætti menn síður fje í jafntvísýna atvinnu.

Hv. þm. Snæf. (H. St.) sagði, að jeg hefði sagt, að tekjuafgangur í fjárlögunum yrði 2 milj. kr.; þetta er hreinn misskilningur. (H. St.: Eða mismæli). Nei, jeg tók það skýrt fram, að tekjur fjárlaganna mundu fara 2 milj. kr. fram yfir áætlun stjórnarinnar, en það er alt annað. Annars á jeg því láni að fagna, að hv. þm. bíða með að svara mjer, þar til jeg er dauður, og leggja mjer þá allskonar orð í munn, sem jeg hefi aldrei talað.

Hv. þm. Snæf. (H. St.) var að tala um þekkingu mína og hv. þm. Ak. (M. K.). Hvað sem henni líður er það víst, að í þessu máli eru það við, er höfum vitið og þekkinguna, en ekki hv. þm. Snæf. (H St.).