03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get verið þakklátur háttv. nefnd fyrir, hvernig hún hefir tekið í till. stjórnarinnar. Jeg sje ekki ástæðu til að vera margorður um till. nefndarinnar og skal að eins geta tveggja þeirra.

Jeg vil sjerstaklega láta þess getið, að það er heppilegt, sem nefndin hefir tekið upp, að launa aðstoðarlækni á Vífilsstöðum. Það er alveg nauðsynlegur hlutur. Nú hafa bæst við ljóslækningarnar og barnahælið, sem eykur stórum starf læknisins.

Sömuleiðis vil jeg láta þess getið, að vel sje til fallið að veita Grímseyingum styrk til læknisvitjana. Hvergi mun slíkur styrkur koma rjettlátlegar niður Það má annars vel vera, að ástæða sje til slíkra styrkja á einstaka stað annarsstaðar. En það er hættulegt að fara langt út á þá braut, því að í flestum tilfellum mun örðugt að gera upp á milli sveitarfjelaga að þessu leyti. Það má vel vera, að nokkur ástæða sje til að veita Þingvallasveitarbúum slíkan styrk. En jeg held að mjer sje óhætt að segja, að til sjeu læknishjeruð, þar sem hver hreppur út af fyrir sig, að undanteknum þeim hreppi, sem læknirinn býr í, á fult eins örðugt með læknisvitjanir og Þingvallasveitarmenn. Jeg get t. d. nefnt Hróarstungulæknishjerað. Þessu beini jeg þó ekki sjerstaklega til háttv. nefndar. Frv. stjórnarinnar var ekki laust við samskonar galla. Það ætti að vera hrein undantekning, að styrkur til að vitja læknis væri veittur.

Þá skal jeg minnast á eina till. nefndarinnar um styrkveitingu. Ekki vegna þess, að jeg vilji mæla á móti henni í sjálfu sjer, heldur að eins til samanburðar. Nefndin leggur til, að hærri styrkur verði veittur til utanferðar lækni, sem ekki er í landsins þjónustu, en veittur er þjónandi læknum. Það er ekki ráðlegt að fara í þessari styrkveitingu lengra en í samskonar veitingu til hjeraðslækna. Það væri því rjett að lækka liðinn reglunnar vegna, en ekki vegna þess, að það muni ríkissjóð nokkru sem nemur. Einnig mætti fara þá leið, að hækka styrkinn til hjeraðslækna 250 kr. á mánuði er í rauninni altof lítið.

Jeg er alveg samdóma nefndinni um fjárveitinguna til Flóabrautarinnar. Sú fjárveiting er ekkert brot á reglunum um viðhald sýsluvega. Bílferðirnar eru fullkomin ástæða fyrir fjárveitingunni. Jeg er að eins hræddur um, að þessi endurbót reynist ekki nægileg. Menn vita ekki enn hjer á landi, hve vel þarf að gera við vegi til þess, að þeir standist bíla- og vagnaumferð. Það er víða í öðrum löndum farið að byggja sjerstakar brautir fyrir flutningavagna, og þær þá sementaðar. Það er því varasamt að leggja mjög mikið fje í vegi hjer, áður en nokkur reynsla er fengin um, hvernig á að gera þá, en 200 þús. kr. kalla jeg mjög mikið, þegar þær eru veittar til að gera fárra kílómetra spotta. Það er einnig óvíst, hvort það borgar sig að leggja mjög dýra bílvegi hjer, þar sem ekki er hægt að nota bíla til flutninga hjer, nema lítinn hluta ársins. Jeg er þeirrar skoðunar, að eigi sje skynsamlegt að leggja neinn veg austur í sveitir, nema járnbraut. Jeg held, að hún yrði ódýrust af öllum vegum, og að rjett væri að snúa sjer þegar að járnbrautargerð. Það hlýtur líka að því að draga, og þá höfum við ekki ráð á að kasta út stórfje til annara dýrari vega. Þessar athugasemdir vildi jeg gera, án þess að jeg vildi með því spilla fyrir fjárveitingunni, því það er sannast að segja, að vegurinn milli brúnna er nú því nær ófær.

Jeg skal ekki neita, að mjer hefði fundist eðlilegast, að bifreiðarnar borguðu sjálfar vegi sína. Þessi vegur er ekki lengur sjerstaklega fyrir austursýslurnar; hann kemur nú orðið eins mikið Reykjavík til góða.

Þá hefði jeg og kosið, að háttv. nefnd, í samráði við vegamálastjóra, hefði rannsakað, hvort ekki væri ástæða til að halda áfram Hafnarfjarðarveginum. Því var haldið fram, að hann yrði dýr, en jeg held að hann verði ekki tiltölulega dýrari en aðrir vegir, ef hann verður bygður áfram eins og byrjað var á honum. Væri gott að fá reynslu fyrir, hvort sementvegur væri ekki einmitt heppilegur fyrir bíla. Auðvitað getur háttv. nefnd, sem hefir íhugað þetta mál, sagt, að mjer komi atvinnumálin ekkert við. — En þó járnbraut yrði lögð, yrði samt að hafa góðan veg á þessari leið, og sá vegur yrði að liggja nálægt Vífilsstöðum, því annars yrði að byggja annan veg þangað. Eins og vegurinn er nú, er hann alt of mjór.

Um þennan kafla hefi jeg ekki annað að segja; að eins vil jeg taka fram, að hvað snertir samgöngur á sjó, mun jeg greiða atkv. með meiri hluta nefndarinnar.

Hefi jeg hjer með gert grein fyrir atkv. mínu.