12.08.1919
Neðri deild: 32. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Mjer þótti hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) taka nokkuð linlega í jöfnuð útflutningsgjaldsins á hrossum, þar sem hann fór ekki lengra en að hann kvað stjórnina mundu yfirvega málið. En jeg óska fyrir hönd nefndarinnar eftir ákveðnu loforði um þetta. Aftur á móti er jeg þakklátur hv. þm. S.-Þ. (P. J.) fyrir undirtektir hans, og bæði jeg og nefndin öll göngum út frá því sem sjálfsögðu, að mismunurinn verði jafnaður, því að það er fullkomlega sanngjörn krafa, að svo sje gert.

Hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) var sammála nefndinni um, að breyting háttv. Ed. á 15. lið væri til verra eins, en var þó að bera í bætifláka með því að segja, að skipstjórinn mundi geta greint allnákvæmlega frá þyngd fiskjarins, sem hann seldi. Þetta mun rjett vera; en eigi að síður verður tollheimtumaðurinn að eiga mikið undir skipstjóranum og ráðvendni hans, og það er miklu auðveldara að fá að vita rjett um söluverðið en þyngdina.

Það er annars óþarfi að lengja umræður um málið; það er komið sem komið er. Töluvert af síld verður komið út úr landinu áður en lögin ganga í gildi, og það verða einkum útlendingar, sem hafa haginn af drætti háttv. Ed. á málinu. Fyrir hennar tilstilli losna útlendingar við að greiða nokkra tugi þúsunda í hinn ísl. ríkissjóð.