07.07.1919
Efri deild: 3. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

28. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (J. M.):

Eins og kunnugt er, hefir ríkisvaldinu nú um nokkurn tíma verið skift í þrent, í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Af þessu þrennu hefir dómsvaldið, það er að segja æðsta dómsvaldið, ekki verið í höndum íslensku þjóðarinnar. Jeg hefi oft furðað mig á, að kröfurnar um, að við tækjum þetta vald í vorar hendur, skyldu ekki hafa verið háværari, og það því fremur, sem danska ríkisvaldið hefir gefið undir fótinn með, að ekki væri vonlaust um, að þetta vald væri gefið eftir, sbr. stöðulögin. Jeg geri ráð fyrir, að ástæðurnar til þess, að við höfum svona lengi sætt oss við núverandi ástand, hafi í fyrsta lagi verið þær, að hæstirjetturinn danski hefir verið mjög góður dómstóll, í öðru lagi hefir kostnaðurinn við að flytja hæstarjett inn í landið vaxið mönnum í augum, og í þriðja lagi hafa menn borið kvíðboga fyrir því, að innlendur hæstirjettur yrði ekki vel tryggur eða óhlutdrægur, vegna fámennis okkar.

Nú hefðum vjer vitanlega getað beðið tvö ár enn eftir þessari breytingu, og ef til vill lengur, en það er harla óviðkunnanlegt fyrir fullvalda ríki að hafa ekki dómsvald í sínum eigin málum. Jeg býst því við, að þegar nú er borið fram frv. um heimflutning hæstarjettar, muni enginn í móti mæla. Jeg þykist vita, að sumir muni bera kvíðboga fyrir, að dómstóll þessi verði ekki svo vel skipaður, að hann standi hæstarjettinum danska jafnfætis. Slíkur ótti er fullkomlega rjettmætur. Við getum að sjálfsögðu ekki átt völ á jafnágætum dómurum og aðrar miklu stærri þjóðir og kostnaðarins vegna er ekki hægt að hafa dómendurna eins marga og ákjósanlegt hefði verið. Vegna kostnaðar er og gert ráð fyrir í frv. stjórnarinnar, að yfirrjetturinn falli burtu. Þó þetta sje öfugt við það, sem annarstaðar er, er það þó ekki mikil breyting fyrir okkur frá því, sem verið hefir. Í framkvæmdinni hefir hjer venjulega verið látið nægja með tvo dómstóla. Þetta er auðvitað að eins gert vegna sparnaðar, og ef þingið álítur það nauðsynlegt, og kleift kostnaðar vegna, þá má halda yfirrjettinum. Eins er um tölu dómaranna. Þeir eru áætlaðir fimm, en væri heppilegast, að þeir væru fleiri. Fjölgunin er því að eins kostnaðarspursmál. En þó yfirrjetti sje slept og dómararnir ekki fleiri, þá held jeg, að það geti vel staðist, einkum ef vel er vandað til málfærslumanna. Það ríður næstum ekki minna á góðum málfærslumönnum en góðum dómurum fyrir heppileg úrslit mála. Í frv. er því reynt að tryggja það, að aðrir fái ekki að flytja mál fyrir hinum innlenda hæstarjetti en þeir, sem eru hæfir til þess.

Frv. er samið af próf. Einari Arnórssyni, og jeg held, að óhætt sje að segja, að svo vel sje frá öllu gengið, að væntanleg nefnd þurfi ekki miklu að breyta. Jeg legg til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til allsherjarnefndar.