03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Stefán Stefánsson:

Við erum tveir flutningsmenn að brtt. á þskj. 609. um að veittur verði styrkur til aðgerðar sjúkrahúsinu á Akureyri.

Aðsókn að þessu sjúkrahúsi hefir aukist svo mjög á síðustu árum, að jafnvel oft og tíðum hefir orðið að neita sjúklingum um pláss þar. Til að ráða bót á þessum vandræðum hafa komið fram ýmsar till. um stækkun á sjúkrahúsinu. Tilmæli þessu viðvíkjandi hafa komið til háttv. Alþingis frá stjórn sjúkrahússins, en þar eð háttv. frsm. (M. P.) hefir ekki minst á þær, veit jeg eigi, hvernig nefndin tekur í þetta mál.

Aðsóknin stafar óefað, mjög mikið af því, að hjeraðslæknirinn, sem líka er læknir við sjúkrahúsið, hefir mjög gott orð á sjer sjerstaklega sem skurðlæknir. Aðsóknin er því eigi eingöngu úr bænum og sýslunni, heldur eru full 30% sjúklinga annaðhvort úr öðrum sýslum eða þá útlendingar, og mjög miklar líkur eru til að aðsóknin aukist enn að mun. Því nú hafa hjeraðsbúar lagt fram fje til að kaupa ljóslækningatæki og er læknir sestur þar að sem sjerstaklega hefir lagt fyrir sig berklasjúkdóma og ljóslækningar. Fáist því eigi einhver styrkur til aðgerðarinnar, er eigi sjáanlegt að tækin geti orðið notuð.

Meðan landið á ekkert sjúkrahús, sem menn nokkuð alment, geta leitað til, verður eigi með nokkurri sanngirni neitað um styrk til sjúkrahúss, sem svo er aðsótt, bæði úr ýmsum hjeruðum landsins, og af útlendum sjómönnum, sem sjúkrahúsið er á Akureyri.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál að sinni. Jeg hygg að nokkur hluti nefndarinnar sje þessu máli fylgjandi og vona að háttv. deildarmenn greiði atkv. með till.