30.07.1919
Efri deild: 18. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

28. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg er ánægður með meðferð nefndarinnar á frv. þessu. Að vísu hefir hún gert nokkrar brtt. við það, en fæstar þeirra eru þýðingarmiklar.

Jeg get auðvitað heldur ekki verið annað en ánægður með það, að nefndin skuli hafa fallist á þá reglu, að hafa munnlega málafærslu. Það atriði var nákvæmlega athugað af okkur prófessor Einari Arnórssyni, og komumst við að þeirri niðurstöðu, að munnleg málafærsla væri heppilegri.

Eins og frsm. (Jóh. Jóh.) gat um, hefir yfirdómurinn gert tillögu um skriflega málafærslu og fært ástæður fyrir henni. Tel jeg heppilegt, að þm. gefist kostur á að kynnast áliti hans, og tel sjálfsagt, að það verði lagt fram á lestrarsal.

Tveir af prófesorum lagadeildar háskólans munu hafa lagt til, að leyfð væri skrifleg málafærsla við hæstarjett um fimm ára skeið. Nefndin hefir að nokkru leyti tekið tillögu þessa til greina, og er álitamál, hvort hún hefði ekki getað gengið lengra. En einhvern tíma verður að byrja á munnlegri málafærslu.

Menn hyggja, að munnleg málafærsla sje örðugri fyrir dómara en hún er í raun og veru; en eðlilegt er, að gamlir dómarar kvíði fyrir að breyta til, eftir langt dómarastarf.

Jeg hygg, að málin verði ekki svo flókin yfirleitt, að erfitt verði að semja dómsástæður í fljótu bragði, og þó það auðvitað geti orðið nokkuð örðugt fyrst í stað, komi það fljótt upp í vana.

Það, sem jeg legg mesta áherslu á við munnlegan málaflutning, er það, að jeg hygg, að málafærslumennirnir vandi sig betur en við skriflegan.

Þeir málafærslumenn, sem mest hafa að gera, láta einatt við skriflegan málaflutning aðstoðarmenn sína vinna það, sem þeir við munnlegan málaflutning verða knúðir til að gera sjálfir.

Eins og jeg gat um áðan, getur verið álitamál um það, hvort nefndin hefði ekki getað gengið lengra í því, að fara eftir till. tveggja lagadeildarprófessoranna, en það skiftir engu verulegu máli.

Hitt gæti verið spurning um, hvort ekki væri rjettara að láta dómarana greiða fyrsta dómsatkvæði til skiftis.

Jeg hefi átt tal um þetta við háyfirdómara, og telur hann, að sjerstaklega í fyrstu muni koma of mikið starf á einn mann, ef þetta ákvæði er látið haldast.

Væri ástæða til að athuga þetta.

Annað finn jeg ekki ástæðu til að taka fram, og efast ekki um, að málið fái góðan framgang í hv. deild.